föstudagur, maí 28, 2004

Lagasynjun konungsvaldsins á „Batterí“ lögunum — synjunarvald forseta og 100 ára þingræðisregla.

Í riti dr. Björns Þórðarsonar, „Alþingi og konungsvaldið, lagasynjanir 1875–1904,“ frá árinu 1946, er að finna mörg dæmi af málum þar „sem stjórnin taldi svo mikil missmíði á eða agnúa, að ekki væri að gera þau að lögum eins og þau voru út garði gerð“, líkt og Björn sjálfur kemst að orði. Tilgang ritsins, sem hér á eftir verður að all miklu vitnað í, taldi hann ekki síst vera ætlaðan að halda til haga þessum þætti stjórnmálasögunnar er væri orðin saga, gleymd saga, en á þeim tíma er sagan „var að gerast, fór hún ekki fram hjá fólkinu eða gerðist utan við vitund þess“. Þvert á móti, hafði hún haft rík áhrif á þjóðina. Almenningur fékk á þessum tíma megnan ímugust á öllum lagasynjunum, enda vissu menn „að hér var að verki útlent valdboð, sem gerði að engu starf Alþingis, sem eingöngu hafði fyrir augum heill og hagsmuni þjóðarinnar. Fólk átti bágt með að trúa því, að lög, sem þingið hafði samþykkt og eingöngu lutu að því að kippa einhverju í lag innanlands, væru svo herfilega úr garði gerð, að ekki mætti láta þau verða að gildum lögum og láta reynsluna síðan út um nauðsynlegar umbætur á þeim.“

Konungur synjaði 91 lögum staðfestingar á 30 ára tímabilinu frá 1875–1904, sem Alþingi hafði samþykkt. Hafa ber í huga að hinn danski ráðgjafi fyrir Ísland sat aldrei á Alþing, enda ekki í stjskr. gert ráð fyrir því og hefði hann þar af leiðandi aldrei beint samband við þingið. Þá skorti mjög á að landshöfðingi gæti hverju sinni sagt þinginu, hver væri afstaða og vilji ráðgjafans eða stjórnarinnar í málum er þingið hafði til meðferðar. Þá koma það og ósjaldan fyrir, að þingið sinnti ekki bendingu landshöfðingja um skoðun stjórnarinnar, og eins hitt, að annað varð ofan á hjá ráðgjafanum þótt landshöfðingja þætti samþykkt þingsins ekki varhugaverð.

Víkur þá sögunni aftur til ársins 1899, en þá um sumarið samþykkti Alþingi lög um heimild til sölu á lóð úr Arnarholtstúni og var parturinn kallaður „Batterí“.

[Það skal tekið fram að „Batteríið var virki úr torfi og grjóti við Arnarhólsklett þar sem nú mætast Kalkofnsvegur og Skúlagata. Jörundur Hundadagakonungur lét reisa virkið 1809 en því var ekki haldið við. Danskir hermenn lagfærðu það. Batteríið var aðeins um stuttan tíma hernaðarlegt mannvirki. Lengst af var það skemmtistaður bæjarbúa, sem fóru þangað oft á kvöldin til að njóta fagurs útsýnis. Þegar hafnargerðin hófst árið 1913 var Batteríið rifið og nú sér þess engan stað lengur, þar sem nú er risið hús Seðlabankans. — Heimild: arkitekt.is]

„Meðan á meðferð málsins stóð í þinginu, kom upp í bænum megn óánægja meðal borgara bæjarins út af hinni fyrirhuguðu afhendingu þessarar lóðarspildu [til eins einstaklings], með því að talið var, að hún kæmi í bága við hagsmuni bæjarfélagsins. Borgarafundur samþykkt áskorun til þingsins um að samþykkja ekki frumvarpið, en þingið fór sínu fram og afgreiddi frumvarpið.“

Á sama þingi [1899] voru jafnframt samþykkt lög um að heimilt væri að selja Reykjavíkurkaupstað lóðir í norðurhluta Arnarhólstúni, þ.e. í sama hluta og Batterí-spildan. „Bæjarmenn áttu því mjög bágt með að sætta sig við þá lagasetningu þingsins, að einstaklingur skyldi hafa forgangsrétt fyrir bæjarfélaginu að þessari sérstöku, umræddu lóð.“

Var þá gegnið í það af bæjarstjórninni, í erindi til hins danska ráðgjafa fyrir Ísland, að fá Batterílögunum synjað hjá konungi, með þeim rökum að óskoruð yfirráð bæjarins yfir norðurhluta Arnarholtstúnsins „muni standa hafnarmálum Reykjavíkur fyrir þrifum, en þau málefni hljóti að liggja bænum mjög á hjarta.“

Er þetta dæmi allrar athygli vert, ekki síst í ljósi ímugust þjóðarinnar á lagasynjunum erlends valdboðs. En hér var það heill og hagsmunir þjóðarinnar sem gegnu framar hagsmunum einstaklings, og því var það metið svo af bæjarbúum að sjálfsagt og eðlilegt væri að krefjast lagasynjunar og gera starf Alþingis að engu.

Enda fór það svo að í úrskurði ráðgjafans sem féll 21. júní 1900 sagði: „að þótt það geti eigi eftir hinum framkomu upplýsingum með neinni vissu dæmt um það, hvort hinn umtalaði ótti bæjarstjórnarinnar sé á rökum byggður, hafi ráðuneytið orðið að telja það óráðlegt, að frumvarpið yrði að lögum, þegar af þeirri ástæðu að það sé eigi nægilega sannað, að hin umrædda afhending, sem eigi væri gerð fyrir almennings hag, geti farið fram án þess að standa hagsmunum bæjarins fyrir þrifum. [...] Ráðgjafinn réð því konunginum með þessu fororði að synja frumvarpinu staðfestingar.“

Þessum úrskurði stjórnarinnar varð þingið að sætta sig við og öðrum 90 úrskurðum til viðbótar „hvernig sem hann var og í hvaða búningi sem hann var fram fluttur, og láta eftir sem áður arka að auðnu um afdrif lagasmíða sinna.“

Þessi tilhögun breyttist mjög er stjórnin varð innlend samkvæmt stjórnarskrárbreytingunni frá 3. október 1903 og þingræðisreglan var viðurkennd. Dr. Björn Þórðarson gerir svo í ritinu stutta grein fyrir mismun á stöðu Alþingis sem löggjafaraðila gagnvart stjórninni, þ.e. fyrir og eftir lýðveldisstofnunina 1944. En í 1. gr. stjskr. 1874 var kveðið á um löggjafarvald Alþingis, og sagði: „löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi í sameiningu.“ Í 2. gr. núverandi stjskr. segir: „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“ Breytingin er sú „að skipt hefur verið um hinn löggjafaraðilann, en ekkert segir um, að styrkleiki löggjafarvalds Alþingis sé meiri nú en áður.“ En á móti kemur að „ráðgjafinn á hinu fyrra tímabili [hafði] óbundnar hendur gagnvart almennum lagafrumvörpum frá Alþingi. Það var undir hans dómi komið, hvort hann bar lagafrumvarp upp fyrir konungi til staðfestingar eða synjunar, eða hvort hann gerði það alls ekki og lét það daga uppi og verða sjálfdauða.“

Dæmi um lög frá Alþingi yrðu sjálfdauða, þ.e. ekki borin upp við konung innan tilskilins frests, er frá árinu 1912, en þá „samþykkti Alþingi lög um stofnun peningalotterís fyrir Ísland. Lagafrumvarp þetta var þannig úr garði gert, að ráðherrann [Hannes Hafstein] afréð á eigin býti að leggja það ekki fyrir konung til staðfestingar. Frumvarpið varð sjálfdauða vegna fyrningar. Þingið sá sér ekki fært að áfellast ráðherrann fyrir þessa breytni hans, svo freklega hafði því yfirsést við lagasmíð þessa. Það getur hent enn í dag, að ráðherra komist að raun um, að lög frá Alþingi eigi ekki að fá lagagildi, en honum er óleyfilegt að tefja fyrir því lengur en 14 daga.“

Að mati dr. Björns þá ætti það að vera undantekningarlaus regla, ef það kæmi fyrir, að forseti synji lögum um staðfestingu, að þingið taki þau aftur til endurskoðunar, og ekki eigi að leita til þjóðaratkvæðis, nema mikið liggi við og um sé að tefla skýrt meginatriði í lagasetning, sem svara ber með já eða nei. Jafnframt var Björn þeirrar skoðunar, að aldrei skuli leggja lög undir þjóðaratkvæði, nema Alþingi geri um það sérstaka ályktun hverju sinni, og lög sem forseti hefur synjað staðfestingar, fái ekki gildi, fyrr en sú samþykkt hefur verið gerð.“ Og álykti nú Alþingi að „þjóðaratkvæði skuli fram fara, verður rauninni ekki aðeins greitt atkvæði um lögin, heldur einnig um það, hvort forseti nýtur þess trausts þjóðarinnar, að hann megi fara með embætti sitt framvegis,“ að mati dr. Björns Þórðarsonar.

Það skal haft í huga að konungur Danmerkur beitti aldrei persónulega synjunarvaldi sínu á Íslandi eftir að landinu var sett stjórnarskrá 1874, heldur var það gert að ráði og á ábyrgð hins danska ráðgjafa fyrir Ísland sem sat í Kaupmannahöfn. Eftir viðurkenningu á þingræðinu 1904 (og um leið þingræðisreglunni – óskráðri grunnreglu íslenskrar stjórnskipunnar) synjaði konungur ekki staðfestingar á lagafrumvarpi og frá árinu 1944 hefur engin forseti lýðveldis synjað lagafrumvarpi staðfestingar. Enda segi dr. Björn Þórðarson um 26. gr. stjórnarskrárinnar: „Þetta er næsta eftirtektarvert nýmæli. Fyrst og fremst segir þar berum orðum, að lagafrumvarpið skuli lagt fyrir forseta „til staðfestingar“. Hin óskrifuðu lög þingræðisins hafa ekki verið talin einhlít, heldur eru þau áréttuð með beinni stjórnarskrárskipun til hlutaðeigandi ráðherra. Ef sá hugsanlegi möguleiki kæmi fyrir, að ráðherrann brygðist trúnaði þingsins og legði til við forseta, að lagafrumvarpi væri synjað, bryti hann ekki aðeins í bág við þingræðið, heldur fremdi hann einnig stjórnarskrárbrot. Eftir orðunum liggur þessi skilningur beinast við og óþarft að ræða hér aðra hugsanlega skýringu ákvæðisins.“

mánudagur, maí 24, 2004

Um afstöðu.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, mun líklegast gera grein fyrir atkvæði sínu í dag við afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins. Miklar líkur eru til að þar muni hann telja lögin vera brot á stjórnarskrá, ef marka má málflutning hans undanfarnar vikur, og að forseta lýðveldisins sé hollast að undirrita ekki lögin.

Fyrir ekki svo mörgum dögum lagði þessi sami annars ágæti þingmaður til að EES-samningurinn yrði kannaður, ekki síst framkvæmd, þar eð ekki sé lengur við unað hvernig þróun hans hefur orðið. Þar komi einnig til að málið allt hafi verið umdeilt á meðal fræðimanna og að umdeilanlegt sé að samningurinn rúmist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar. Það sorglega er að Össur skyldi ekki skynja að varnaðarorð fræðimanna öllum tímum ber að hafa í huga, einnig þegar viðkomandi er í stjórnarmeirihluta líkt var staðreyndin árið 1992. Hér hefur þingmaðurinn því horfið frá fyrri afstöðu til málsins.

Í nefndum EES-samningi var stigið stórt skref í átt að því markaðshagkerfi sem þjóðfélagið hrærist í í dag, skref sem felur það í sér að ríkið eigi ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og að virk samkeppni sé fyrir hendi. Meginhlutverk ríkisins sé því jafnan að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á viðkomandi sviði og að reglunum sé fylgt. En að þó kunni á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um þætti sem nauðsynlegir eru til að efla atvinnuvegi og að tryggja þjóðfélaginu ákveðin lífsgæði.

Ef ráða ætti Össuri Skaphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, heilt þá fær hann í dag enn einn séns. Hann verður „frjáls“ að lýsa því yfir: „að samþykkt laganna sé nauðsynleg“, enda yfirlýst markmið að varðveita fjölbreytni og hamla gegn neikvæðum áhrifum samþjöppunar á sviði fjölmiðlunar og takamarka áhrif sem eitt fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa getur haft í einni eða fleiri greinum fjölmiðlunar. Þessu getur Össur ekki með góðu móti hallmælt, enda annálaður baráttumaður gegn samþjöppun á öllum sviðum. Spurningin er hvort að grundvallarsjónarmiðum markaðshagkerfisins séu fótum troðin með samþykkt fjölmiðlalaganna. Hvort að ekki einasta „ítalskir bílasalar“ geti fellt sig við jafn stranga löggjöf á einstaka atvinnuveg?

Því er til að svara að hið sérstaka eðli fjölmiðla og mikilvægi þeirra fyrir lýðræðislega umræðu og menningarlega fjölbreytni í þjóðfélaginu er grunnur þeirra lögmætu markmiða sem stjórnvöld geta byggt á aðgerðir sem gera strangari kröfur um eignarhald til aðila á fjölmiðlamarkaði en í annarri starfsemi. Það er viðurkennt að samkeppnislöggjöf eigi að setja strangari skorður við samruna á fjölmiðlamarkaði en í annarri starfsemi. Þess vegna er það frumvarp sem verður að lögum í dag að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í skýrslu nefndar um eignarhald á fjölmiðlum.

En í henni segir: „Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.“

Á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi í dag er sú staða að Norðurljós hf. á Íslenska útvarpsfélagið ehf. sem rekur stöðvar sem hafa 44% af hlustun fyrir hljóðvarp og 37% af áhorfi fyrir sjónvarp. Þá á Norðurljós Frétt ehf. sem gefur út Fréttablaðið sem er útbreiddasta blað landsins með daglegan 69% lestur og DV sem lesið er af 17% landsmanna daglega. Stærsti einstaki hluthafi í Norðurljósum hf. er Baugur Group hf. sem á 29,9%.

Með frumvarpinu er aðeins leitast við að tryggja að við lögbundna og nauðsynlega úthlutun ríkisins á útvarpsleyfum séu þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins um að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði hafðar í heiðri. Lögin munu aðeins ná til þeirra sviða þar sem ríkið hefur nú þegar aðkomu að fjölmiðlamarkaði. Lögin ganga ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni að ná fram hinu lögmæta markmiði og tryggja að sjónarmið um fjölbreytni séu meðal þess sem haft er í huga við úthlutun leyfa.

Það gildir öðru máli um dagblöð en útvarp vegna þess að starfsemi útvarps byggir á nauðsynlegri úthlutun ríkisvaldsins á útvarpsleyfum, sem eru takmörkuð gæði, sem er nú þegar úthlutað til takmarkaðs tíma. Engin úthlutun takmarkaðra gæða á dagblaðamarkaði réttlætir svo víðtæka takmörkun á tjáningarfrelsi (og atvinnufrelsi) eins og fólgin væri í því að setja ákveðin eignarhaldsskilyrði gagnvart eigendum dagblaða. Löng lýðræðishefð er fyrir því að rétturinn til útgáfu dagblaða er ótakmarkaður.

Afstaða Össurar Skarphéðinssonar, og félaga hans, ætti að grundvallast á því að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hérlendis sé komin yfir þau mörk sem talist geta viðunandi þegar miðað er við alþjóðlega mælikvarða. Þessu hefur hann sjálfur haldið fram í þingræðum. Það eru því fullkomlega málefnalegar forsendur fyrir lagasetningu með þessum hætti og skýrri yfirlýsingu af hans hendi að afstaða hans sé að styðja málið.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Um fjölmiðlafrumvarpið.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð saman um breytingarnar á fjölmiðlafrumvarpinu er varða annars vegar að óheimilt verði að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 35% eignarhlut í því. Hins vegar að núverandi útvarpsleyfum verði leyft að renna út gildistíma sinn, þó þannig að ekkert þeirra renni út fyrr en eftir tvö ár þegar lögin taka gildi.

Von er að spurt sé hvort að þessar breytingar gangi nógu langt. Össur Skarphéðinsson fullyrðir að þessar breytingar gangi skemur en vænst hefði mátt eftir yfirlýsingar framsóknarmanna? Það má telja harla ólíklegt að sá annars ágæti þingmaður hafi nokkuð í höndunum um það hverju framsóknarmenn vildu ná fram fyrir þriðju umræðu, enda engin yfirlýsing gefin út um það á opinberum vettvangi.

Er ekki búið að laga þetta frumvarp nægilega svo við gætum samþykkt það í þessum búningi? Stjórnarandstæðingar, sumir hverjir, hafa lýst því yfir að þeir væru þeirrar skoðunar að frumvarpið bryti ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Einn þeirra, Ögmundur Jónasson, hefur jafnvel gengið svo langt að segja að það hafi aldrei verið skoðun sín að frumvarpið stæðist ekki stjórnarskrá. Kveðst hann jafnframt vilja bera virðingu fyrir skoðunum annarra um þetta mál hvaða skoðun svo sem hann hefði sjálfur myndað sér í málinu. Steingrímur J. Sigfússon setur þann fyrirvara á gagnrýni sína að ekki sé enn búið að dreifa þessum tillögum til þingmanna og því hafi hann ekki séð þær sjálfum.

Sigurður Líndal, fyrrv. lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir breytingarnar vera gott skref en hann hafi ekki gert sér grein fyrir hvort þær séu fullnægjandi. Sigurður segist mjög mikilvægt að breyting sé gerð á frumvarpinu varðandi gildistíma útvarpsleyfanna og að þetta sé skynsamleg breyting. Hann hefur haft afdráttarlausar skoðanir um þetta atriði stæðist ekki gagnvart stjórnarskrá líkt og það var í frumvarpinu fyrir þessa breytingu. Þeir njóti verndar stjórnarskrár sem hafi fengið úthlutað leyfi til tiltekins tíma og vænta þess að fá að halda leyfinu út leyfistímann, hafi þeir ekki brotið neitt af sér.

Eru þessar breytingar svona sýndarmennsku til að láta í það skína að eitthvað hafi verið gert í áttina til lagfæringar? Eitt einhlýtt svar við álíka spurningu er ekki fyrir hendi, það er alltaf einhver óánægja í öllum málum, getur jafnvel gegnið svo langt að allir aðilar séu óánægðir. Fyrir öllu er að geta skipst á skoðunum/gagnrýni, hvaða skoðun svo sem hver hefur.

mánudagur, maí 17, 2004

Að bæta stöðu og öryggi fólks sem er án atvinnu.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, fékk samþykkt á Alþingi s.l. laugardag sem lög hækkun á atvinnuleysisbótum, sem er í samræmi við yfirlýsingu ríkistjórnarinnar frá 7. mars við undirritun kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins. Yfirlýsingin hljóðaði svo: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars 2004 kr. 88.767 en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007.“

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skuli nema 4.096 kr. á dag frá og með 1. mars 2004. Þessi hækkun felur í sér 11,3% hækkun á hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og eykur útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 330 m.kr. á árinu 2004, en um 400 m.kr. miðað við heilt ár.

Árni Magnússon lét þess getið í flutningsræðu á Alþingi að hann hafi ákveðið að beita mér fyrir endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Enda væri tímabært að þetta kerfi yrði tekið til endurskoðunar, ekki síst vegna reynslunnar á það kerfi sem tekið var í notkun fyrir tæpum sex árum. Markmiðið með endurskoðuninni nú verði fyrst og fremst að bæta stöðu og öryggi fólks sem er án atvinnu sem og að tryggja gæði vinnumarkaðsaðgerða og auka skilvirkni kerfisins almennt. Þá sé ætlunin að meta árangur vinnumarkaðsaðgerða síðustu ára og hverju þær hafa skilað fólkinu sem nýtt hefur sér þjónustuna.

Þá kom fram í ræðu Árna að samhliða kjarasamningsgerðinni í mars sl. hefði verið gert samkomulag um eflingu starfsmenntasjóða atvinnulífsins um samtals 400 millj. kr. á samningstímanum. Þetta væri gífurlega mikilvægt mál sem hafi það að markmiði að gera starfsmönnum kleift að laga sig að breyttum aðstæðum í atvinnulífinu hvort sem það er á vinnustaðnum eða að takast á við ný og ögrandi verkefni.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Heilbrigðismál eru fjárfesting, fremur en útgjöld.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, situr fund heilbrigðismálaráðherra OECD landanna sem nú stendur yfir í París. Jón hefur þar lagt áherslu á að heilbrigðisyfirvöld landanna settu sér markmið til að vinna eftir til langs tíma og vísaði í máli sínu til „Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010,“ sem samþykkt var á Alþingi fyrir nokkrum misserum. Auk þess lagði Jón ríka áherslu á mikilvægi þess að menn nýttu sér upplýsingatækni á heilbrigðissviði og undirstrikaði mikilvægi samvinnu og samráð allra þeirra sem sinna heilbrigðisþjónustu, þ.e. yfirvalda, samtaka sjúklinga, fagstétta, stofnana, sjálfboðaliða og fyrirtækja sem starfa á heilbrigðistæknivettvangi.

Í fréttatilkynningu frá fundinum er jafnframt bent á að fram hafi komið hjá flestum heilbrigðisráðherrum þeirra 30 ríkja sem eru á fundinum að fremur bæri að líta á kostnaðinn við heilbrigðisþjónustuna sem fjárfestingu hvers samfélags í stað þess að skilgreina hann sem útgjöld, eða eyðslu.

Jóns Kristjánsson útlistaði útgjaldaaukningu einstaklinga í heilbrigðismálum, í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, í byrjun mars á þessu ári. Í máli hans kom m.a. fram að tæknilegar framfarir í læknisfræði hafi það í för með sér að aðgerðir flytjist út af sjúkrahúsunum í miklum mæli. Sjúklingar eigi því kost á miklu fjölbreyttari þjónustu en áður hafi verið, án þess að þurfa að leggjast á sjúkrahús. Að sjálfsögðu eykst kostnaður sjúklinga í kjölfarið, m.a er þá boðið upp á sífellt flóknari og nákvæmari röntgen- og rannsóknargreiningu heldur en áður, sem var að stórum hluta eingöngu mögulegar á sjúkrahúsunum sjálfum. Síðan eru það ný og sífellt dýrari lyf, sem valda sífelldri útgjaldaþenslu sem sjúklingar verða varir við. Á tímabilinu 1987 til 2001 hækkuðu heilbrigðisútgjöld um 276%, meðan heilbrigðisútgjöld heimilanna hækkuðu á sama tímabili um 316%. Verg landsframleiðsla hækkaði á sama tímabilinu um 258%, sem segir að hlutur heilbrigðisútgjaldanna þar af hafi hækkað um tæp 5%. Því er ástæða til að spyrja hvort þetta sé eyðsla?

Munu landsmenn geta náð saman um að skilgreina útgjöld til heilbrigðismála sem fjárfestingu? Munu landsmenn geta náð saman um samfélagslega vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda; og skilgreina því útgjöld til heilbrigðismála sem fjárfestingu?

Framsóknarflokkurinn hefur rekið markvissa og ákveðna stefnu í heilbrigðismálum sem felur í sér að vera réttlát, öllum opin, byggð á samábyrgð þegnanna, að mestu kostuð af almannafé og að þeir gangi fyrir sem hafa mesta þörfina. Framsóknarfólk heldur fast í þessi grundvallargildi, ríka réttlætiskennd, samhjálp og samvinna. Í þennan málaflokk er veitt fjárfesting sem er mikilvægari í dag en nokkru sinni, enda íslenska heilbrigðiskerfið eitt það besta í heiminum og aðgangur að kerfinu almennur.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Af landsfeðrum nær og fjær.

Gangverk þjóðfélagsins heldur sínu striki, engin púst þó svo að landsfeður vorir deili um fjölmiðlalög á Alþingi, og Íslendingar halda áfram vinnu sinni við að safna vinaþjóðum, núna síðast hefur verið stofnað til stjórnmálasambands milli Íslands og Gambíu.

Gambía er aðeins einn tíundi af stærð Íslands, liggur umhverfis samnefnda á á vesturströnd Afríku og er umlukið Senegal. Íbúar eru 1.4 milljónir manna, flestir múslimar. Náttúruauðlindir eru fáar og meðaltekjur á landsmann eru aðeins jafnvirði um 1.000 bandaríkjadollara. Síðustu áratugi hefur ferðaþjónusta orðið ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins.

Landið var áður bresk nýlenda en fékk sjálfstæði fyrir 40 árum og varð lýðveldi árið 1970. Þar er nú fjölflokka þingræði.

Núverandi forsætisráðherra landsins, Yahya Jemmeh, var einungis 29 ára er hann tók við stjórnartaumum, þann 23. júlí 1994, það var að vísu með valdaráni, en þó án blóðsúthellinga. Jemmeh hefur síðan sigrað í tvennum kosningum, árin 1997 og 2003.

mánudagur, maí 10, 2004

Hvers vegna er rétt að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og hvers vegna er vitnað til Evrópuráðsins í tengslum við það?

Í nútímalýðræðisríki gegna fjölmiðlar margs konar hlutverki, eða líkt og Dagný Jónsdóttir alþingismaður sagði í fyrstu umræðu Alþingis á frumvarpinu: „Þeir upplýsa, færða og móta skoðanir almennings. Þeir hafa vald á því hvað er á dagskrá í umræðunni í samfélaginu, þeir segja okkur hvað er í tísku, þeir ráða því hvaða tónlist nýtur mestra vinsælda, hvaða kvikmyndir, þeir dæma leiksýningar og nýjar bækur og þeir veita okkur þær upplýsingar sem við byggjum á skoðanir okkar og viðhorf til fjölmargra mála, stórra sem smárra.“ Síðar segir Dagný: „[F]jölmiðlar erum miklar valdastofnanir í samfélaginu. Áhrif þeirra, bæði þau sem þeir hafa í raun og veru og hin sem hugsanlegt er að þeir geti tekið að sér, geta ráðið úrslitum um það hvað stefnu þetta samfélag tekur. Þess vegna höfum við þjóðréttarlegu skyldu til að tryggja lýðræðislega fjölbreytni fjölmiðla hér á landi.“

Á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi í dag er sú staða að Norðurljós hf. á Íslenska útvarpsfélagið ehf. sem rekur stöðvar sem hafa 44% af hlustun fyrir hljóðvarp og 37% af áhorfi fyrir sjónvarp. Þá á Norðurljós Frétt ehf. sem gefur út Fréttablaðið sem er útbreiddasta blað landsins með daglegan 69% lestur og DV sem lesið er af 17% landsmanna daglega. Stærsti einstaki hluthafi í Norðurljósum hf. er Baugur Group hf. sem á 29,9%.

Baugur Group hf. er einnig umsvifamikið fyrirtæki í öðrum atvinnurekstri á Íslandi og hafði t.d. á árinu 2000 um 70% markaðshlutdeild á matvörumarkaði í Reykjavík og um 51% á landinu öllu, auk þess sem fyrirtækið hefur mikilla hagsmuna að gæta á öðrum sviðum íslensks viðskiptalífs.

Dagný Jónsdóttir sagði jafnframt í ræðu sinni: „Það skiptir þetta samfélag miklu máli að við getum treyst því að fjölmiðlar gangi ekki annarra erinda en okkar, lesenda þeirra og áhorfenda, þegar þeir veita okkur upplýsingar. Hættan á að sú mynd brenglist þarf ekki alltaf að vera tilkomin vegna vísvitandi aðgerða starfsmanna fjölmiðlanna, hún getur verið að meira eða minna leyti ómeðvituð og átt rætur í uppbyggingu og þeim hefðum sem myndast inni á miðlunum sjálfum. Það er mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur, það sem okkur er skylt að gera, til að draga úr því að fjölmiðlar séu í þeirri stöðu að þeir geti misnotað lýðræðið í þágu sjónarmiða eigenda sinna.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur skýrt fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Rökin séu m.a. reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi þar sem þeir gegni lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi og mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum.

Síðar í greinargerðinni segir: „Af Mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun. Á þeim grundvelli hefur ráðherraráð Evrópuráðsins samþykkt tilmæli R (99) 1 […], þar sem settar eru fram hugmyndir að mismunandi leiðum að þessu markmiði. Á íslenska ríkinu hvílir því sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.“

En hlutverk og markmið Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum aðildarríkjanna. Starfsemi Evrópuráðsins nær til allrar ríkjasamvinnu, að undanskildum öryggis- og varnarmálum. Inngönguskilyrði í Evrópuráðið er fullgilding mannréttindasáttmála Evrópu og er ráðið þannig viðmiðun fyrir þær þjóðir sem eru að stofna eða endurreisa lýðræði og réttarríki í sínu landi. Öllum aðildarríkjum ráðsins er ætlað að standa við þær skuldbindingar sem aðild hefði í för með sér og í þeim efnum ríkir jafnræði milli aðildarríkjanna og stækkun ráðsins á ekki að leiða til lakari mælikvarða á sviðum sem það fjallaði um.

Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu frá 1950, en einu ári áður var því komið á af 10 stofnríkjum. Stofnanir ráðsins eru ráðherranefndin og Evrópuráðsþingið og hefur Alþingi frá upphafi tekið virkan þátt í starfsemi þess enda mikilvægt framlag okkar til eflingar mannréttinda og lýðræðis í Evrópu.

Í skýrslu nefndar menntamálaráðherra, um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, segir: „Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.“

Niðurstaðan verður því sú, að það sé vert að fagna þeirri umræðu sem fram hefur farið bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu almennt í tengslum við þetta lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og að málið fái góða, vandaða, lýðræðislega umræðu, ekki aðeins innan veggja Alþingis heldur í þjóðfélaginu almennt.

Við eigum að spyrja okkur, líkt og Morgunblaðið hefur vakið máls á; hvers vegna vilja vopnaframleiðendur eiga fjölmiðil? Nú, viðskiptavinir vopnaframleiðenda eru ríkisstjórnir. Fjölmiðlar kunni að vilja hafa áhrif á ríkisstjórnir með því að hafa áhrif á almenningsálitið. Þess vegna á með þessu frumvarpi, líkt og Dagný Jónsdóttir kom inn á í fyrrnefndri ræðu: „Að standa vörð um aðhaldshlutverk fjölmiðlanna gagnvart þeim sem fara með efnahagsleg völd og geta í krafti þeirrar stöðu sinnar haft áhrif á og brenglað þá mynd sem við almenningur í landinu, fáum af þeim margvíslegu málum sem okkur snerta, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem við tökum við innkaup eða það hvaða skoðanir við myndum okkur á máli sem er til umræðu af miklum tilfinningahita í þjóðfélaginu, máls eins og þessu sem við erum hér að ræða.“

föstudagur, maí 07, 2004

Menntun fyrir alla.

Þjóðir heims eiga langt í land með að ná því markmiði að allir njóti einhverrar skólagöngu árið 2015 og að unninn verði bugur á ólæsi. Hér eru nokkrar staðreyndir:

• 860 milljónir jarðarbúa eru ólæsir.
• 70% þeirra búa í níu fjölmennustu ríkjum heims: Bangladess, Brasilíu, Kína, Egyptalandi, Indónesíu, Mexíkó, Nígeríu og Pakistan.
• Börnum (6-11 ára) fjölgar um 10 milljónir á ári sem sækja skóla.
• 113 milljónir barna ganga ekki í skóla og 97% þeirra búa í þróunarríkjunum.
• 60% þessara barna eru stúlkur.
• Læsi fullorðinna hefur aukist um 85% hjá körlum og 74% hjá konum.
• Hvert ár í skóla til viðbótar er talið auka laun mann um 6%.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞÍ) helgar í nýlegu riti sínu umfjöllun um menntun, fræðslu og þekkingarmiðlun meðal fólks í þeim þróunarlöndum sem Íslendingar starfa í. Margar fróðlegar greinar eru í ritinu og eru höfundar aðallega starfsmenn ÞÍ, auk Þorvalds Gylfasonar prófessors við Háskóla Íslands. Hugmyndum manna til þróunarmála er ágætlega mjötluð í þessum orðum Þorvalds: „Afstaða manna til þróunarhjálpar hefur tekið talsverðum breytingum í tímans rás. Það starfar af því, að fengin reynsla hefur kennt mönnum að skipta um skoðun.“

Hvað gerir spillt einræðisstjórn við hjálparfé? Svarið við þessari lykilspurningu varðandi meðhöndlun hjálparfés hefur leitt íslensk stjórnvöld á þá braut að skilyrða aðstoð sína og vanda til vals á verkefnum, enda nýtist hjálparfé þannig best. Samstarfslöndin eru nú fjögur og öll í Afríku, þ.e. Namibía, Malaví, Mósambík og Úganda.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Málefnaleg niðurstaða er ekki hafin yfir gagnrýni.

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirra niðurstöðu í kvörtun þriggja umsækjanda um stöðu hæstaréttardómara að annmarki hafi verið á undirbúningi og meðferð skipaninni og því sé það niðurstaða umboðsmanns að af hálfu dómsmálaráðherra hefði ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara 19. ágúst 2003.

Í viðtali við fréttastofu Sjóvarps 2o. ágúst 2003, sagði Björn Bjarnason: Ja ég lagði nú sama sjónarmið til grundvallar og Hæstiréttur. Ég taldi heppilegast að við Hæstarétt kæmi maður með meistarapróf í Evrópurétti og samkeppnisrétti eins og Ólafur Börkur hefur og það var mitt mat að það væri gott fyrir réttinn að fá slíkan mann og ég taldi það heppilegast.

[Fréttamaðurinn]: En þeir töldu það nú ekki sjálfir að það skipti öllu máli?

Björn Bjarnason: Nei þeir eiga að gefa mér álit um hæfi mannanna og gerðu það og síðan taka þeir tvo einstaklinga og nefna þá frá sínum bæjardyrum séð að það sé heppilegast. Það er mjög sjaldgæft að Hæstiréttur geri þetta og það má rannsaka það kannski sérstaklega hve oft hann hefur farið þessa leið.“

Síðar í viðtalinu segir Björn: „Ég legg mitt mat á hlutina á þeim forsendum sem ég geri og ég komst að þessari niðurstöðu.

[Fréttamaðurinn]: En fékkstu einhverja sérfræðinga þér til aðstoðar?

Björn Bjarnason: Nei ég þarf ekki sérfræðinga í þessu tilliti, Hæstiréttur er sá sérfræðiaðili sem á að segja mér hvort að umsækjendur séu hæfir eða ekki. Síðan er undir mati mínu komið hvern ég vel úr þessum hópi hæfra umsækjenda.

[Fréttamaðurinn]: En þú fórst sem sagt ekki eftir því sem að þeir töldu að væri heppilegast?

Björn Bjarnason: Nei, af því að ég taldi heppilegast að maðurinn hefði þekkingu á Evrópurétti og það var einn umsækjenda sem er með meistarapróf í Evrópurétti og það var það sem ég taldi heppilegast fyrir Hæstarétt.“

Það var því mat Björns Bjarnasonar að Evrópuréttur „setji æ meiri svip á kennslu í lagadeildum og hann skipti sífellt meira máli fyrir Íslendinga og aðra sem nærri koma Evrópusamstarfinu“.

Björn var síðan spurður í viðtalinu hvort það skipti einhverju máli við þessa ákvörðun að umsækjandinn Ólafur Börkur væri frændi forsætisráðherrans?

„Björn Bjarnason: Það eru ómálefnanlegar ástæður, það er ómálefnanlegt af þér að spyrja á þessum forsendum og það væri ómálefnanlegt af mér að taka ákvörðun um það á þessum forsendum. Ég tók ákvörðunina á málefnanlegum forsendum, þess vegna er hún hafin yfir gagnrýni.“

Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til ráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst væri í álitinu við undirbúning og veitingu embætta hæstaréttardómara.

Þar segir m.a. í reifun málsins: „ að við val úr hópi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara yrði fyrst og fremst að gera þá kröfu að umsækjandi hefði víðtæka og almenna lögfræðilega menntun og þekkingu þannig að hann gæti, og þá í ljósi starfsferils síns, tekist á við þau verkefni sem Hæstarétti væri falið að lögum að sinna“.

„Umboðsmaður [tekur] fram að ekki yrði fullyrt af sinni hálfu að ráðherra gæti ekki ákveðið að leggja áherslu á þekkingu umsækjenda á ákveðnu réttarsviði við val í embætti hæstaréttardómara.“ Það yrði þó að byggja á traustum grunni enda verið að skipa mann í embætti hjá sjálfstæðum handhafa ríkisvaldsins, sbr. rit Montesquieus „De l´Esprit des Lois“ um kenningar um þrígreiningu ríkisvaldsins er kom út árið 1748 og því verði að gera strangar kröfur til dómsmálaráðherra.

Í reifun á áliti umboðsmanns segir síðan: „[A]ð á dómsmálaráðherra hafi hvílt sú almenna skylda að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara yrði skipaður í það. [...] [A]ð ráðherra hefði tæplega verið unnt að ganga út frá því, þegar hann tók afstöðu til fyrirliggjandi umsókna, að þær ásamt fylgigögnum gæfu heildstæða mynd af þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. [...] [A]ð rétt hefði verið að afla upplýsinga um hvort umsækjendur hefðu sérstaka þekkingu á þessu réttarsviði og eftir atvikum að hvaða marki reynt hefði á slíka þekkingu í störfum þeirra. Það [væri] því afstaða umboðsmanns að málið hefði ekki verið upplýst nægjanlega hvað þetta varðar áður en ákvörðun var tekin um hver yrði skipaður í embættið og málsmeðferðin að þessu leyti hefði því ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. [...] [J]afnframt að á hefði skort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um hvernig staðið var að samanburði milli umsækjenda um önnur atriði sem ætla yrði að dómsmálaráðherra hefði litið til samkvæmt rökstuðningi hans til umsækjenda.“

Um þessa niðurstöðu segir Björn Bjarnason, í Morgunblaðinu í dag: „Nú liggja fyrir fræðilegar vangaveltur og ábendingar á grunni þeirra frá umboðsmanni sem mér finns sjálfsagt að menn velti áfram fyrir sér og ræði.“

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í fyrrnefndu viðtali [20.8. 2003] við fréttamann Sjónvarps að hann hafi tekið „ákvörðunina á málefnanlegum forsendum, þess vegna er hún hafin yfir gagnrýni“. Ákvörðun ráðherrans stendur og hún er lögleg, en málefnalegar forsendur Björns voru brot á lögum, sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarregla) nr. 37/1993.

Af þessu má leiða að gagnrýnin á málefnalegar forsendur sé ekki hafin yfir gagnrýni, heldur hafi gagnrýni á málefnalega forsendu dómsmálaráðherra verið þörf og að dómsmálaráðherra sé nú sjálfur tilbúinn að velta fyrir sér málefnalegri gagnrýni, um málefnalegar forsendur, og ræða hana af hreinskilni. Þessu viðhorfi ráðherrans ber að fagna.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Flogið með Eimskip, sbr. grein í tímaritinu Frjáls verslun, 11. tbl. 1991.

Í allri þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu í dag um samþjöppun, fákeppni og einokun er vert að glöggva m.a. í stjórnarsáttmála fyrsta ráðuneytis Davíðs Oddssonar er innhélt kafla er hljóðaði svo:

Áform ríkisstjórnarinnar um lagasetningu gegn einokun og hringamyndun eiga rætur sínar að rekja til þess að menn hafa ekki kunnað sér hóf í ásókn eftir völdum í nokkrum af álitlegustu fyrirtækjum landsins. Valdasamþjöppun stríðir gegn hugmyndum manna um lýðræðisleg vinnubrögð í atvinnulífi nútímans.

Í svonefndri hvítri bók ríkisstjórnarinnar, sem út kom í október sama haust, sagði: „Ríkisstjórnin mun efla samkeppni og setja lög sem beinast skulu gegn einokun og hringamyndun í viðskiptalífinu.“

Nú er það svo að Alþýðuflokkurinn sat í nefndu stjórnarráði og hefur allt fram að deginum í gær talað fyrir aðgerðum gegn samþjöppun, fákeppni og einokun. Forystumaður Samfylkingarinnar, Össur Skaphéðinsson, hefur jafnframt kallað eftir reglum til handa Samkeppnisstofnun að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækum, og það helst á öllum sviðum.

Þetta er skýr stefna og því mjög eftir því tekið hvernig Samfylkingin heldur á fjölmiðlamálinu í dag og gengur erinda þeirra valdasamþjöppunarafla sem hafa orðið gríðarleg tök á fjölmiðlamarkaðnum.

„Þann 25. apríl sl. birtist grein í Vísbendingu eftir Björn G. Ólafsson hagfræðing þar sem spurt var hvort leyfa eigi hlutafélögum að eiga hlut í öðrum hlutafélögum. Þar vitnaði hann m.a. í skrif Friðriks Ágústs von Hayeks, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þar sem hann leggur til að hlutafélögum verði einfaldlega bannað að eiga hlutafé í öðrum fyrirtækjum nema sem fjárfestingu og þá án atkvæðisréttar“, sbr. Frjáls verslun, 11. tbl. 1991.

Morgunblaðið gerði hana að umtalsefni og birti hana í heilu lagi í Reykjavíkurbréfi 4. maí, nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin var mynduð 1991. Þar sagði:

„Eins og lesendur Reykjavíkurbréfs sjá er Hayek að lýsa í þessari ritgerð, sem skrifuð er fyrir alllöngu, aðstæðum sem nú þegar eru komnar upp á hlutabréfamarkaðinum hér og í viðskiptalífi okkar Íslendinga. Hafi einhverjir talið að skoðanir þeirra sem telja þetta óeðlilega þróun eigi eitthvað skylt við sósíalisma eða vinstrimennsku ættu þeir hinir sömu ekki lengur að velkjast í vafa um að þær spretta þvert á móti upp úr grundvallarlífsviðhorfum borgaralegra afla.“

Morgunblaðið spurði því hvort að ekki væri verið að „koma í veg fyrir misnotkun og afskræmingu […], nauðsynleg til þess að viðhalda eðlilegu jafnvægi í þessu fámenna þjóðfélagi. Slíkt jafnvægi er forsenda þess að sæmilegur friður og sátt ríki meðal hinna ýmsu þjóðfélagshópa. Þess vegna eru þeir aðilar í viðskiptalífinu sem raska þessu jafnvægi að kalla yfir sig afskipti löggjafarvaldsins sem væru óþörf ef menn kynnu sér hóf.“

Það frumvarp sem nú hefur verið lagt fram er að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í skýrslu nefndar um eignarhald á fjölmiðlum.

1. Með frumvarpinu er aðeins leitast við að tryggja að við lögbundna og nauðsynlega úthlutun ríkisins á útvarpsleyfum séu þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins um að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði hafðar í heiðri. Frumvarpið nær sem sé aðeins til þeirra sviða þar sem ríkið hefur nú þegar aðkomu að fjölmiðlamarkaði. Í frumvarpinu ekki gengið lengra en nauðsynlegt er í því skyni að ná fram hinu lögmæta markmiði og tryggja að sjónarmið um fjölbreytni séu meðal þess sem haft er í huga við úthlutun leyfa.

2. Það gildir öðru máli um dagblöð en útvarp vegna þess að starfsemi útvarps byggir á nauðsynlegri úthlutun ríkisvaldsins á útvarpsleyfum, sem eru takmörkuð gæði, sem er nú þegar úthlutað til takmarkaðs tíma. Engin úthlutun takmarkaðra gæða á dagblaðamarkaði réttlætir svo víðtæka takmörkun á tjáningarfrelsi (og atvinnufrelsi) eins og fólgin væri í því að setja ákveðin eignarhaldsskilyrði gagnvart eigendum dagblaða. Löng lýðræðishefð er fyrir því að rétturinn til útgáfu dagblaða er ótakmarkaður.“

Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hérlendis er komin yfir þau mörk sem talist geta viðunandi þegar miðað er við alþjóðlega mælikvarða. Hér er um fullkomlega málefnalegar forsendur fyrir lagasetningu að ræða. Með lagasetningunni er veittur aðlögunartími til þess að tryggja að áhrif hennar séu ekki óþarflega íþyngjandi og brjóti ekki gegn stjórnarskrárákvæðum er vernda atvinnufrelsi og eignarréttindi.

Hvernig er hægt að standa í vegi fyrir áform ríkisstjórnarinnar um lagasetningu sem eiga rætur sínar að rekja til þess að menn hafa ekki kunnað sér hóf í ásókn eftir völdum í nokkrum af álitlegustu fyrirtækjum landsins. Þegar valdasamþjöppun stríðir gegn hugmyndum manna um lýðræðisleg vinnubrögð í atvinnulífi nútímans. Fyrir þessu hefur Jóhanna Sigurðardóttir talað, Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

EN BARA EKKI Í DAG, SEGJA ÞAU ÖLL Í DAG, UM FJÖLMIÐLAFRUMVARÐIÐ SVOKALLAÐA.

Er nema von að spurt sé hvort að málefnaleg afstaða Samfylkingarinnar til frumvarpsins sé nokkur?