mánudagur, ágúst 16, 2004

Á grænu ljósi, allstaðar.

Átti mjög ánægilegan laugardag í sumarferð framsóknarmanna um Hvalfjörð, Borgarfjörð, Reykholt, Húsafell, Barnafossa, Kaldadal, Þingvelli og loks Nesjavelli. Var mér sérstaklega komið á óvart með merkri sögu er Hvalfjörður hefur að geyma. Hef ég í raun aldrei leitt hugann að því að eitt sinn hafi allt að 30.000 manns búið í Hvalfirði á sama tíma. Forvitnilegt, ekki satt!!

90% lánin.
Það er ágætt yfirlit yfir úrskurð eftirlitsstofnunar EFTA(ESA) í fasteignablaði Morgunblaðsins í morgun. En úrskurður ESA gengur út á að starfsskilyrði Íbúðalánasjóðs brjóti ekki geng ákvæðum EES-samningsins og að hækkun hámarkslánhlutfalls í allt að 90% er innan ramma samningsins.

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafa kvartað yfir starfsskilyrðum Íbúðalánasjóðs til ESA, sem hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag íbúðalána Íbúðalánasjóðs feli í sér almannaþjónustu sem sé heimil samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Þessari staðreynd er vert að halda til haga í áframhaldandi árásum forsvarsmanna þessara samtaka.

Áformað er að leggja drög að frumvarpi til laga um hækkun í 90% fyrir ríkistjórn í næstu vikum, er yrði síðan lagt fram á Alþingi í byrjun október.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Veðrið og verðið!!

Undirritaður hefur notið gríðarlegra forréttinda að eigin mati síðustu dag. En að geta skroppið austur yfir fjall í sveitasetrið, flatmagað á veröndinni, með drykk, í svona líka ofboðslega góðu veðri.

Ætla mér í sumarferð á laugardag, heilsdagsferð um Hvalfjörð, Borgarfjörð, Kaldadal og Þingvelli. Framsóknartengd sumarferð, sbr. hugtakið menningartengd ferðaþjónusta, og um þar næstu helgi er spurning um að vera við Lagarfljót, síðsumarsmót framsóknarmanna í NA-kjördæmi. Gaman af þessu.

Olíuverð var áfram hátt á heimsmarkaði í morgun samkvæmt fréttum. Brent Norðursjávarolíu var 41,82 dalir tunnan þegar opnað var fyrir viðskipti á markaði í Lundúnum og hefur olíuverð aldrei verið hærra. Í gær var verðið í Lundúnum 41,57 dalir tunnan. Í New York lækkaði verð um 6 sent tunnan í rafrænum viðskiptum í morgun og var 44,74 dalir en verðið komst í 45,04 dali á þriðjudag. Þess ber að geta að verðið á lítranum á Selfossi er um 103 kr., fullyrði að finnist ekki lægra verð á öðru byggðu bóli hér á landinu í dag.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Sumarið er komið, aftur!!

Það er ekki nokkur spurning, vinnutímaskyldunni verður eingöngu skilað í dag, ekki klukkustund meir. Það verður brunað austur að sveitasetrinu og slakað á í dýrlegu veðri, væntanlega, má ekki bregðast er líður á daginn.

Siv, afmælisbarn dagsins, mætti með köku á skrifstofuna og vil ég færa henni mínar bestu þakkir. Gaman af þessu.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Hvað mun sjóða í pottunum?

Verð að mæta í pottakynningu í kvöld!! Það verður víst eldaður mjög góður matur og því ástæðulaust að láta sig vanta. Enda valmöguleikar fáir er það vantar eldabuskuna heima hjá mér. Áhugasamir lesendur síðunnar eru beðnir um láta vita af áhuga sínum á að taka þátt, það vantar tilfinnanlega fleiri með.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Fimleikafélag Hafnarfjarðar á sigurbraut.

FH-ingar unnu öruggan sigur á Íslandsmeisturum KR, 3-1, í Vesturbænum, í gær, í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Það er ekkert annað en gaman af þessu. KR þurfa ekkert lengur að velta fyrir sér einhverjum undirbúningi gegn FH-ingum, þar mæta þeir einfaldlega ofjörlum sínum. En samt KR-ingar, KOMA SVO!!

FH-ingar eru efstir í deildinni, eiga heimaleik gegn Víkingum á sunnudag og viku síðar ÍBV í Vestmannaeyjum. Góð úrslit í þessum leikjum skipta máli, t.d. yrðu 4 stig í lagi, í samræmi við niðurstöðuna úr fyrrihelming Íslandsmótsins.

Það yrði nú ofsalega gaman að taka þetta tvöfalt í sumar, taka Íslandsmeistara-dolluna, í fyrsta sinn og bikarinn einnig.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Skattar.

Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2004 var 229.665 og hafði þeim fjölgað um 1,4% frá fyrra ári. Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 129,2 milljörðum króna og hækkar um 6,3% frá fyrra ári.

Tekjuskattar til ríkissjóðs, þ.e. almennur tekjuskattur, sérstakur tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur, nema alls 66,2 milljörðum króna og hækka um 7,5% milli ára.

Almennan tekjuskatt greiða 65% framteljenda, eða liðlega 148 þúsund einstaklingar og fjölgaði þeim um 3,8% milli ára. Þeir greiða samtals 58,4 milljarða í almennan tekjuskatt og hefur skattgreiðsla á hvern gjaldanda vaxið um 1,9% milli ára. Meðalskatthlutfall er 12% að teknu tilliti til persónuafsláttar og er nær óbreytt milli ára.

Sérstakan tekjuskatt (hátekjuskatt) greiða 14.896 gjaldendur. Álagður sérstakur tekjuskattur nemur samtals 1.358 m. kr. samanborið við 1.773 m.kr. árið 2003. Um er að ræða lækkun milli ára enda var skatturinn lækkaður úr 7% í 5% af tekjum umfram viðmiðunarmörk.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 6,4 milljörðum króna og hækkar um meira en 40% milli ára. Skýringa þessarar hækkunar er að leita í auknum arðgreiðslum og söluhagnaði hlutabréfa, meðal annars af erlendum hlutabréfum, en skattskyldur arður af þeim nær tvöfaldast milli ára. Þá fjölgar gjaldendum hans á ný, eða um liðlega 3% og eru þeir nú nær 77 þúsund.

Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 63 milljörðum króna og hækkar um 5,1% milli ára. Gjaldendur útsvars eru 221.814, eða nær 97% allra á grunnskrá framteljenda. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 3,4% milli ára. Meðalútsvar á tekjur síðasta árs nemur 13%.

Gjaldstofn tekjuskatts og útsvars nam 483,3 milljörðum króna og hafði vaxið um 4,8% frá fyrra ári. Framteljendum með tekjur fjölgaði um 1,3% milli ára og því hækkaði gjaldstofninn að meðaltali um 3,5% á mann. Til samanburðar hækkaði launavísitalan um 5,6% milli 2002 og 2003. Skýringa á því að framtaldar tekjur á framteljanda hækka minna en launavísitala er m.a. að leita í styttri vinnutíma, minni atvinnuþátttöku en jafnframt meira atvinnuleysi en var árið áður.

Framteljendum sem skattyfirvöld þurfa að áætla tekjur á fækkar um 13% milli ára. Enn þarf þó að áætla tekjur rúmlega 10 þúsund framteljenda.

Framtaldar eignir heimilanna námu 1.669 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 11,6% frá fyrra ári. Fasteignir eru 70% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 13,3% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 2,7%. Þeim sem telja fram skuldir vegna íbúðarkaupa fjölgaði enn meira eða um 3,6%. Skuldir heimilanna námu alls 656,8 milljörðum króna í árslok 2003 og höfðu þær vaxið um 12% frá fyrra ári. Skuldir vegna íbúðarkaupa nema ? af heildarskuldum. Álagður eignarskattur nemur 2,2 milljörðum króna og hækkar um 20% milli ára, en þá hækkun má einkum rekja til hækkandi fasteignaverðs. Gjaldendum eignarskatts fjölgar um 6,6%.

Barnabætur nema 5,1 milljarði króna og aukast um 2,6% milli ára. Þeim sem þeirra njóta fjölgar um 0,5%. Vaxtabætur nema 5,2 milljörðum og lækka um 3,7%. Vaxtabætur voru lækkaðar um 10% milli ára en framteljendum sem þeirra njóta fjölgar um 3,1% og eru þeir nær 58 þúsund. Af úthlutuðum vaxta- og barnabótum koma um 5 milljarðar til útborgunar nú um mánaðarmótin eftir skuldajöfnum á móti ógreiddum sköttum. Til viðbótar verður greidd út ofgreidd staðgreiðsla af tekjum síðasta árs, samtals 2,4 milljarðar króna. (Heimild: Fjármálaráðuneytið.)

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Góð helgi á sveitasetrinu.

Þá er enn ein verslunarmannahelgin liðin og að því er virðist stóráfallalaust, utan hræðilegt bílslys fyrir austan fjall í gærdag. Það verður að teljast ótvírætt að áróðurinn sem var rekin viknuna fyrir helgina skilaði miklum árangri.

Undirritaður varði mestum tíma á sveitasetrinu, en tíma var jafnframt varið í nokkra reiðtúra um nálægðarsveitir í Sunnlendingafjórðungi.