fimmtudagur, desember 16, 2004

Framsókn í 88 ár.

Framsóknarflokkurinn var stofnaður á Alþingi 16. desember árið 1916. Fyrstu árin starfaði hann eingöngu sem þingflokkur en uppúr 1930 var honum breytt í formlega fjöldahreyfingu með flokksfélög sem grunneiningar. Uppruna flokksins má rekja til tveggja hreyfinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á fyrstu árum aldarinnar þ.e. samvinnuhreyfingarinnar og ungmennafélaganna. Þessi samtök börðust m.a. fyrir almennum framförum og umbótum í landinu, aukinni menntun og atvinnurekstri sem tryggði mönnum sannvirði fyrir vöru og vinnu. Þessi hugsjónalegi bakgrunnur hafði mikil áhrif á stefnu flokksins og gerir enn í dag.

Stefnan
Allt frá upphafi hefur Framsóknarflokkurinn verið frjálslyndur umbótaflokkur svo sem uppruni hans og stefnuyfirlýsingar í gegnum tíðina bera með sér. Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á. Þessu viðhorfi var lýst þannig af Hermanni Jónassyni formanni flokksins 1944-62 að stefna flokksins væri hvorki til hægri né vinstri heldur beint áfram. Vegna frjálslyndis síns er hann umburðarlyndur gagnvart skoðunum annarra. Hann vill að allir þeir sem hafa eitthvað fram að færa í sambandi við lausn þjóðfélagsmála fái tækifæri til að tjá sig, túlka skoðun sína og reyna að vinna henni fylgi áður en ákvarðanir eru teknar.

Sem umbótaflokkur hefur flokkurinn í starfi sínu lagt höfuðáherslu á að hver kynslóð leitist við að skila þeirri næstu betra þjóðfélagi en hún tók við, betra lífi, fleiri tækifærum og ríkari menningu. Þjóðfélagi þar sem manngildið er metið meira en auðgildi og vinnan, þekkingin og framtakið látið vega meira en auðdýrkun og fésýsla.

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001

(Heimild: framsokn.is)

fimmtudagur, desember 02, 2004

Reykjavík-Staðarskáli-Varmahlíð-Sauðárkrókur-Borgarnes-Kópavogur.

Var á fundi í gærkvöldi á Sauðárkróki sem hófst kl. 21 og stóð til um hálf tólf. Hljóp í skarðið fyrir góðan vin minn sem stýrir landbúnaðarhópi flokksins sem vinnur að stefnumótun fyrir næsta flokksþing okkar.

Á norðurleiðinni kom það mér á óvart að hægt sé að leggja færðina á Vesturlandsvegi og Holtavörðuheiði að jöfnu, en sú er raunin. Suðaustan éljagangur á hvorum stað, að vísu verð ég að viðurkenna að færið á Holtavörðuhæðinni var eitthvað verra, var dimmt á köflum. Stoppuðum í Staðarskála og í Varmahlíð, mikil framsóknarmenning á hvorum stað. Langidalur ætlaði aldrei að endi taka, enda svarta myrkur, en loks var komið að Húnavöllum og hitastigið snar hækkaði, sælla minninga frá Verslunarmannahelginni 1989.

Verstu svellbúntin á allri leiðinni reyndist vera á gatnamótunum inn á Sauðárkrók, skaut þessu að heimamönnum og var þá bent á að Vinstri Grænir stýrðu þessu sveitarfélagi og ekki orð um það meir.

Það var sært stoltið hjá karldýrinu er hann koma út frá því að greiða fyrir bensínið á Ábæ. Hafði þó undirbúið að vera ofsalega „cool“ á því er á planið væri komið, þar sem ekki hafði enn tekist að finna út hvar ætti að opna bensínlokið, en kúbeinið hafði verið skilið eftir heima. Vonaðist til að afgreiðslumaðurinn myndi finna út úr þessu vandamáli í snarheitum, eftir að hafa kallað „fylla“ á leið inn á afgreiðslu. Sú von brást hrapalega. Ég hafði sem sé ekki með neinu móti fundið enn út hvernig ætti opna þetta „blessaða“ lok, þrátt fyrir fundarhöld innandyra sem utan á vettvangi. Þess ber að gera að ég var á lánsbíl, eina haldbæra afsökunin í stöðunni. Ung afgreiðslustúlka tók að sér að bjarga málum, og benti mér á, eftir að hún var komin inn aftur, að núna myndi ég vita næst hvar ætti að opna „blessað“ bensínlokið, á mjög svo móðurlegan hátt.

Kom ekki heim fyrr en um hálf fjögur í nótt, eftir ákaflega skemmtilegt ferðalag. Meðan ég man, vil hrósa fólki fyrir hversu duglegt það hefur verið við að skreyta síðustu daga, ekki svo mikið sem einn bær án jólaljósa. Gaman af því.