föstudagur, febrúar 24, 2006

Íslensk velmegun og kraftur eru öfundarefni nágrannaþjóða.

Viðbrögð Valgerðar Sverrisdóttur í fréttum í gær voru góð. Þar rakti hún að þeir hlutir sem hafi mjög mikil áhrif á efnahaginn hér og séu grundvallaratriðið væri mikil lántaka viðskiptabankanna og útlán, mikil sala á skuldabréfum í íslenskum krónum og sem sé komin yfir 200 milljarða og frá áramótum einhverjir 70 milljarðar.

Í Kastljósþætti í vikunni kom fram í máli Guðmundur Ólafssonar að það sem valdi mestu um þenslu hér heima, séu lántökur innlánsstofnana erlendis til að lána síðan til húsnæðiskaupa. Þetta væru orðnir um 250-300 milljarðar og því langsamlega stærsti faktorinn. Jafnframt sagði hann að innstreymi í hagkerfið vegna Kárahnjúka séu kannski 12–15 milljarðar á ári á móti hinu öllu.

Guðmundur sagði jafnframt atvinnuvegina ganga mjög vel og við ættum líka náttúruauðlindir sem við gætum nýtt áfram og því sé engin ástæða til þess að fara á límingunum þó einhverjir drengir úti í Bretlandi séu að skrifa einhverjar skrýtlur. Enda eins og Guðmundur sagði hreint út að þetta væru nú mikil jól hjá þeim hagfræðingunum núna. Hann væri búinn að hlusta á eina fimm í fjölmiðlum með öðru eyranu og þeir segðu nú svolítið sitt hvað.

Það er rétt hjá Valgerði að íslensk velmegun og kraftur eru öfundarefni nágrannaþjóða. Ungir Íslendingar sem eru að hasla sér völl á viðskiptasviðinu t.d. í Danmörku segja það blákalt að ungir Danir séu bara latir.

Annað. Halldór Ásgrímsson var í viðtali hjá BBC-WORLD SERVICE í gær. Ekki á hverjum degi sem íslenskur ráðamaður er þar í sviðsljósinu.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Skjálfandi.

Hér horfum við yfir Bakka, Héðinshöfði er tanginn fjær og Lundey fyrir miðri mynd ofarlega.


Héðinshöfði frá öðru sjónarhorni.

Horft yfir Skjálfanda að svokölluðum Víknafjöllum.

Kelduhverfi.

Tekið frá Skúlagarði í Kelduhverfi í átt að Vatnafjallgarði, oftast nefnt Tjörnes.


Lón í Öxarfirði, horfum í átt að Lónsósnum.


Horft yfir Kelduhverfið af útsýnispalli með góðum upplýsingaskiltum sem sjá má í forgrunni.

Öxnadalur.

Eyjafjörðurinn.


Eyjafjörðurinn alltaf glæsilegur.

Húnaver.


Alltaf gaman að mynda Húnaver, enda sérlega góðar minningar sem maður á þaðan.

Skagafjörður.

Hér horfum við út Skagafjörðinn, Sæmundarhlíð og Reykjaströnd blasa við, Tindastóll yfir 1000 metrar skagar hæst.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

„Hálf 5-fréttir“ greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur á bloggi sínu upplýst að á ríkisstjórnarfundi, s.l. föstudag, hafi hann kynnt frumvarp er feli í sér „að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi".

Í fréttum hefur ráðherrann lýst því að slíkri greiningardeild megi líkja við greiningardeildir viðskiptabankanna og að leikfimisæfingar stjórnarandstöðu um að líkja þessu við leyniþjónustu séu með öllu ómálefnalegar.

Ég fagna mjög þessari yfirætlan ráðherrans, að fá fram alvöru spekinga til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan það er af hinu góða og hlakka ég mjög til að gerast áskrifandi að „hálf 5-fréttum" deildarinnar þar sem ég verð upplýstur um kaupin á eyrinni í undirheimum Reykjavíkur. Að vísu hef ég fyrirvara um að dómsmálaráðherra hafi sjálfdæmi um hvaða lögregluembætti hafi með höndum greiningu og mat á áhættu, þarna finnst mér að „Kínamúrarnir" eða „eldveggirnir" haldi ekki að öllu leyti.

En Danna í „greninu", Tobba „túkall" og Bjarna „glæp" verður hér eftir varla hlíft við stöðugum fréttum af markverðum atburðum og á DV-ið sjálfsagt eftir að fölna við hliðina á hálf 5-bloggi greiningardeildir ríkislögreglustjóra. Enda vonast maður til að geta fengið með milliliðalausum hætti greiningu og mat á áhættu að vera nálægt slíkum kumpánum sem og Danna, Tobba og Bjarna glæp.

Hér hefur dómsmálaráðherrann, Björn Bjarnason, hitt naglann á höfuðið, því að hver vill ekki fylgjast með gistináttafjölda hjá lögreglu, innflutningsspá, vaxtamöguleikum og uppgjörstímabilum. Það eru spennandi tímar framundan, það verður enginn sunnudagaskóli í undirheimum Reykjavíkur.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

British Airways hefur áætlunarflug til Íslands.

Breska flugfélagið British Airways (BA) hefur tilkynnt að það muni í lok mars hefja áætlunarflug milli Gatwick og Keflavíkur. Stefnir félagið á að fara í harða samkeppni á Íslandsmarkaðnum og segjast vera komnir til að vera allt árið um kring. BA ætlar að halda úti ferðum fimm daga vikunnar á sumrin og fjóra á veturna.

BA mun ekki reka skrifstofu hér, farmiðarnir verða einungis seldir á vefsíðu þeirra, www.ba.com og þar geta farþegar sjálfir valið sér sæti í vélinni og síðan prentað út brottfararspjald sem flýtir fyrir við innritun í flugið.

Til að kynna sína vöru bjóða BA fyrstu tuttuguþúsund farþegunum helmings afslátt af fargjöldunum sem gildir fyrir flug fram í lok ágúst. „Megnið af viðskiptavinunum verða að öllum líkindum farþegar frá Bretlandi, einfaldlega vegna þess að það er mun stærri markaður,” sagði Sam Heine viðskiptastjóri BA á Norðurlöndum á blaðamannafundi í morgun.

„Við bjóðum upp á fulla þjónustu við okkar farþega, matur og drykkir áfengir og óáfengir eru innifaldir,” sagði Heine. Hann sagði að íslenski markaðurinn væri aðlaðandi fyrir BA því hér væru svo margir nettengdir. „Við erum ekki smeyk við samkeppnina, hún er góð fyrir viðskiptavininn sem fær aukið val á flugum og góð verð,” sagði Heine.

BA notar Boeing 737-400 á flugleiðinni og Heine sagðist fullviss um að margir Íslendingar myndu kjósa að fljúga með BA því þó að verðið væri kannski á svipuðum nótum og hjá öðrum flugfélögum eftir að kynningartilboðinu lýkur þá gætu BA boðið upp á góða þjónustu á vefnum og um borð í vélunum.

Fyrsta vélin lendir klukkan 9.45 þann 26. mars, verð á fari fram og tilbaka eftir að tilboði lýkur verður 22,900 kr. með sköttum. Boðið verður upp á tvö farrými og kostar farið á dýrara farrýminu 67,360 með sköttum.

Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem BA reynir fyrir sér á íslenskum ferðamarkaði því flugfélagið GO reyndi fyrir sér á þessari flugleið fyrir nokkrum árum, hver er munurinn á þessari tilraun? „GO var dótturfélag BA sem var lággjaldaflugfélag sem við reyndar seldum síðan með góðum hagnaði, en BA stefnir á að þjóna þessum markaði allt árið og lítum á það sem ákveðna skuldbindingu,” sagði Heine

Heimild: mbl.is
- - - - -

Verð að segja að þessar fréttir kæta mig mikið, enda um fyrstaflokks flugfélag að ræða. Veit a.m.k. af einni ferð sem ég fer í sumar, jæja svona helmingslíkur á henni vona ég.