Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Ég held að flestum Íslendingum sé ljós sú þróun sem verið hefur hér á undanförnum missirum. Við sjáum að fólki af erlendu bergi brotnu hefur fjölgað mjög hratt á Íslandi og það er þess vegna sem ég kem upp í dag, virðulegi forseti, með utandagskrárumræðu þar sem ég vil fá að setja í gang umræðu um fjölgun útlendinga á Íslandi.
Það var þannig, virðulegi forseti, að fram til 1. maí sl. var sæmilega góð stjórn á þessu öllu saman. Þótt við upplifðum þenslutíma, uppbyggingartíma, höfðum við Íslendingar þokkalega góða stjórn á þessu vil ég meina, þ.e. stjórnvöld gáfu út atvinnuleyfi og dvalarleyfi til útlendinga sem hingað vildu koma í vinnuleit og það var ekki gert nema sýnt og sannað þótti að Íslendingar fengjust ekki í störfin. En á lokadögum apríl síðastliðins kom allt í einu frumvarp inn í þingið frá hæstv. félagsmálaráðherra, þ.e. forvera þess sem nú er, og það var mælst til þess að tekið yrði upp frjálst flæði vinnuafls frá löndum sem gengu inn í Evrópusambandið árið 2004, Austur-Evrópuríkjum, mjög fjölmennum, þar sem víða er mikið atvinnuleysi og fátækt. Þessi lönd höfðu gengið í Evrópusambandið og samkvæmt skilmálum evrópska efnahagssamningsins bar okkur að taka upp frjálst flæði vinnuafls frá þessum löndum.
Hins vegar, og gleymum því alls ekki, gátum við fengið frest til aðlögunar til 2009, jafnvel alla leið til 2011. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum völdu ríkisstjórnarflokkarnir ekki að fara þessa leið, þrátt fyrir að allir sem skoðuðu málin af raunsæi og yfirvegun sæju að við værum ekki reiðubúin til að taka á móti þeim fjölda sem hingað mundi eflaust streyma. Stjórnsýslan, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið, og eftirlitsstofnanir voru ekki í stakk búin til þess.
Við höfðum líka séð ljót dæmi um að brotið hafði verið á erlenda vinnuafli sem hafði komið hingað af sumum atvinnurekendum. Verkalýðsfélögin höfðu sýnt okkur mörg dæmi um þetta og sum þeirra voru ansi ljót. En þetta varð hins vegar að veruleika. Frumvarpið var keyrt í gegnum þingið á einni viku, hneykslanlegar aðferðir og þinginu til skammar, verð ég að segja, að þetta skuli hafa verið gert með þessum hætti. Okkur þingmönnum var stillt upp við vegg og við fengum val um að samþykkja þetta ellegar mundum við lenda í vandræðum, sem var auðvitað tóm blekking. Við hefðum getað farið fram á þessa fresti en það var ekki gert.
1. maí árið 2006 var svartur dagur í sögu þjóðarinnar og það voru sendar sennilega köldustu kveðjur sem verkalýðshreyfingin og launþegar í landinu höfðu nokkru sinni fengið því það sem gerst hefur eftir þetta er að erlent vinnuafl hefur flætt inn í landið sem aldrei fyrr. Sennilega eru komin hingað í kringum 10 þúsund manns frá áramótum. Við vitum ekki nákvæma tölu. Það eru vísbendingar um að fjölmargir séu hér jafnvel án þess að vera með kennitölur. Svart vinnuafl sem í raun og veru er hvergi til.
Nýjustu tölur sem við höfum séð eru frá því í júní. Hvað gerðist í júlí, ágúst og september eða október vitum við lítið um. Þetta er stjórnlaust ástand og þetta er mjög alvarlegt ástand. Það hefur sýnt sig að stjórnvöld hafa ekki staðið við fyrirheit sem þau gáfu til að mynda í vor um að fara í vinnu við að marka stefnumótun fyrir innflytjendur hér á landi. Enn bíður félagsmálanefnd eftir því að fá kynnta þessi stefnumótun sem henni var lofað að yrði kynnt þar fyrir 1. október. Það bólar hvergi á henni. Frá starfshópi sem átti að fjalla um þessi mál og skila af sér niðurstöðum 1. nóvember hefur ekkert heyrst heldur. Hins vegar sjáum við ótal vandamál úti í þjóðfélaginu. Við sjáum jafnvel merki um að Íslendingar eru farnir að missa vinnuna núna vegna þess að þeir eru ekki samkeppnisfærir við erlent vinnuafl sem er reiðubúið til að vinna hér á lágmarkstöxtum og jafnvel undir lágmarkstöxtum. Stjórnvöld virðast ekkert ráða við ástandið. Við hljótum öll að sjá, ef við skoðum málið bara kalt og raunsætt og víkjum til hliðar pólitískum rétttrúnaði, að hér stefnir í óefni. Það sjá allir skynsamir menn að hér stefnir í óefni. Því hvað gerum við síðan þegar hægist á, þegar fer að kólna í hagkerfinu? Hvað gerum við þá? Þá verður Íslendingum sennilega boðin vinna á mörgum stöðum á strípuðum lágmarkstöxtum og vilji þeir ekki þiggja vinnuna er þeim einfaldlega sagt að hypja sig vegna þess (Forseti hringir.) að það er svo auðvelt að fá erlent vinnuafl.
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson):
Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að hvetja til þess að gætt sé fyllstu virðingar í umræðum um þessi mál. Ég vil hvetja hv. þingmenn sérstaklega til að vera öðrum góð fyrirmynd í umræðum um þau mál sem við ræðum hér í dag. Okkar ábyrgð er mikil. Það er öllum ljóst.
Ég hef gert mér grein fyrir því og vil undirstrika í upphafi að geysilega mikil vinna hefur verið lögð í mál sem varða erlent vinnuafl og innflytjendamál undanfarin missiri. Að þeirri vinnu hafa margir komið, enda er það grundvallaratriði þegar unnið er að málum eins og þessum, málum sem varða allt samfélagið. Málum sem varða okkur öll, fólk um allt land. Ég geri mér mjög vel grein fyrir þessu og get fullvissað þingheim um að vel er fylgst með framvindu mála.
Þær upplýsingar sem ég hef að byggja á sem félagsmálaráðherra í dag eru fengnar frá ýmsum aðilum, þar á meðal frá fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Ég átti í gær fund með Alþýðusambandi Íslands og í morgun með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Þar lýstu þeir áhyggjum af þeim farvegi sem umræðan hefur verið í undanfarna daga. Þessir sömu aðilar tóku þátt í að semja frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Þeir komu með okkur að undirbúningi fyrir 1. maí síðastliðinn og koma nú með okkur að gerð frumvarpa sem eiga enn frekar að styrkja innviði vinnumarkaðarins.
Ég segi það hér og hef alltaf sagt að við verðum að vera vel vakandi og gera okkur grein fyrir því að hér bera allir ábyrgð, stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og samfélagið í heild.
Hv. þingmaður talar eins og hér hafi skollið á flóðbylgja útlendinga eftir 1. maí síðastliðinn vegna tilkomu frjálsrar farar launafólks frá nýjum aðildarríkjum að samningnum við Evrópska efnahagssvæðið og kerfið hafi ekki verið viðbúið þeim fjölda. Líkt og hér hafi ekki áður starfað útlendingar á íslenskum vinnumarkaði. Það er mál manna sem fylgjast best með að ráðningar erlends vinnuafls hafi færst til betra horfs, ég undirstrika, til betra horfs en var fyrir 1. maí síðastliðinn. Þá var starfsmannaleiguformið allsráðandi en eftir 1. maí hefur orðið breyting á.
Nú eru erlendir starfsmenn fyrst og fremst ráðnir með beinum hætti með ráðningarsamningum sem byggjast á íslenskum kjarasamningum. Þannig viljum við hafa það og það var meginástæða þess að Alþýðusamband Íslands, eins og Samtök atvinnulífsins studdu opnunina 1. maí síðastliðinn. Þeir vildu ekki sjá hér erlenda starfsmenn fyrst og fremst starfandi á vegum starfsmannaleigna eða sem þjónustuveitendur án tengsla við íslenska kjarasamninga. Þetta var afstaða þeirra sem gerst þekkja til á vinnumarkaði og á henni byggðu stjórnvöld sína ákvörðun.
Það er ekki svo að ríkisborgarar nýju aðildarríkjanna geti komið hingað í tugatali og valsað hér um eins og hv. þingmaður hefur lagt að í máli sínu á opinberum vettvangi um þessi mál. Ég tel að hv. þingmaður ætti að vita betur. Ríkisborgarar innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins þurfa að sjálfsögðu að hlíta ákveðnum leikreglum.
Það er sérstaða þeirra erlendu ríkisborgara sem til Íslands koma að þeir koma hingað til að vinna. Þeir eru mikilvægt framlag á vinnumarkaði þegar atvinnuleysið mælist jafnvel undir 1% í vissum landshlutum.
Vinnumarkaður okkar Íslendinga hefur afar marga kosti og það vil ég undirstrika. Óvenjuhátt hlutfall beggja kynja eru virk á vinnumarkaði og við Íslendingar vinnum lengur fram eftir aldri en flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Við höfum þörf fyrir þetta vinnuafl. Við erum aðilar að EES-samningnum og höfum notið kosta hans í svo ótalmörgu tilliti.
Hæstv. forseti. Ég vil undirstrika það, að sú umræða sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur haft uppi undanfarna daga endurspeglar alls ekki hlutverk erlends vinnuafls hér á landi í dag og framlag þess til uppbyggingar í samfélagi okkar og efnahagslífsins í heild. Viljum við frekar að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til annarra landa? Ég segi nei. Höldum mikilli uppbyggingu á atvinnustarfsemi áfram hér á landi.
Við hv. þingmann vil ég segja þetta og tala skýrt: Ég vil í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins auka sýnilegt eftirlit með kjörum og aðbúnaði erlends vinnuafls og að því vinn ég. Ég vil í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sjá til þess að lögin okkar varðveiti íslenskan vinnumarkað og að því vinn ég. Ég vil að þeir sem hingað koma bjóðist vandaðar upplýsingar um okkar samfélag og íslenskukennsla. Að því er unnið. Ég vil að þessu fólki sé sýnd virðing og það verður að tryggja með margvíslegum hætti. Það get ég fullyrt. Að því koma fjölmargir sem hafa langa og góða reynslu af fólki sem er af erlendu bergi brotið, svo sem Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem þjónar öllu samfélaginu. Hið sama gerir Alþjóðahús sem ég hef nýlega gert samning við um tiltekið verkefni og mun eiga frekara samstarf við á næstunni.
Ég vil ekki nota þennan stutta tíma sem ég hef hér til að telja upp allt sem hefur verið gert. Nei. Ég vil segja við ykkur hvað við ætlum okkur að gera. Ég hef nú í haust átt samráð við aðila vinnumarkaðarins og rætt við ýmsa og undirbúið afstöðu Íslands til þess hvort íslenskur vinnumarkaður verði opnaður þann 1. janúar fyrir vinnuafli frá Búlgaríu og Rúmeníu. Ég tók málið upp í ríkisstjórn í morgun og að höfðu samráði við forsætisráðherra lýsi ég því hér með yfir að íslensk stjórnvöld munu gera hið sama gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu og gert var vorið 2004 gagnvart þeim ríkjum sem þá gerðust aðilar að EES-samningnum.
Við höfum þannig ákveðið að nýta okkur fyrstu tvö árin til að sjá hver þörf verður fyrir vinnuafl hér á landi og hver ásóknin verður og (Forseti hringir.) taka yfirvegaða ákvörðun í framhaldi af því fyrir 1. janúar 2009.
Steingrímur J. Sigfússon:
Frú forseti. Það er skiljanlegt að mönnum bregði í brún þegar tölur birtast um mjög snögga og mikla fjölgun fólks af erlendum uppruna sem flutt hefur til landsins eða dvelur hér tímabundið vegna vinnu. Snöggir og miklir búferlaflutningar hvort sem er innan lands eða milli landa valda alltaf í eðli sínu ákveðnu umróti.
En það er afar margt sem menn þurfa að vanda sig við í þessari umræðu og forðast ber allar alhæfingar og að blanda ólíkum hlutum saman. Það er t.d. mikill munur á fjölskyldufólki sem hingað flyst erlendis frá til varanlegrar búsetu og erlendum farandverkamönnum sem hingað koma án fjölskyldu til tímabundinnar vinnu.
Margir verða eflaust til að segja að umræðan sé í öllu falli þörf og af hinu góða. Ekki skal ég draga úr því, enda sé hún á hófstilltum og uppbyggilegum nótum og fjalli yfirvegað um það vandamál sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Hún verði ekki til þess að æsa upp útlendingaandúð og aðgreiningarhyggju. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar því að ræða þessi mál á þeim nótum.
Það er mikilvægast að átta sig á því að það er ekki, ég endurtek, ekki, við fólkið að sakast sem hingað kemur og fer í störf sem því standa til boða eða það er beinlínis fengið hingað til að vinna. Það voru ekki pólskir eða kínverskir verkamenn sem tóku ákvörðun um að byggja Kárahnjúkavirkjun. Það eru þær aðstæður í hagkerfinu sem hér hafa skapast sem soga til sín þetta fólk.
Við skulum ekki gleyma að fyrir 14 árum var sú ákvörðun tekin að Ísland skyldi verða aðili að hinum samevrópska opna vinnumarkaði. Við vöruðum við því þegar ákveðið var að ráðast í stóriðjuframkvæmdirnar að þær mundu valda jafnvægisleysi á íslenskum vinnumarkaði. Fáir tóku undir með okkur þá. En við höfnum því hins vegar að ræða þessi mál nú eins og vandamálið sé það fólk sem er hingað komið fyrir tilverknað okkar Íslendinga sjálfra og er hér á okkar ábyrgð. Við höfnum allri aðgreiningarhugsun í þessum efnum. Við höfnum því að þetta séu þau og við.
Sæunn Stefánsdóttir:
Virðulegi forseti. Við höfum upplifað miklar breytingar á íslensku samfélagi á skömmum tíma. Ein þeirra er sú að hér á landi hefur innflytjendum fjölgað mjög hratt og það á skömmum tíma. Hliðar umræðunnar um málefni innflytjenda eru margar og á þeim tíma sem okkur er gefinn hér getur maður einungis komið inn á nokkrar þeirra.
Við megum ekki gleyma því hvað hefur drifið þessar breytingar en það hefur auðvitað verið hið góða atvinnuástand og hin mikla eftirspurn eftir fólki, eftir fleiri vinnandi höndum og fleiri skapandi hugum og það var þess vegna sem stjórnvöld féllust á breytingarnar sem gerðar voru í maí síðastliðnum. Þeir útlendingar sem hingað hafa komið hafa verið virkir atvinnuþegar frá fyrsta degi og ég held því fram að þeir hafi breytt þenslu í hagvöxt og það er mikilvægt að halda því til haga.
Þróunin hefur auðvitað orðið hröð og það er ekkert skrýtið að sumir staldri við og það er auðvitað full ástæða til að fylgjast enn grannt með þróun mála, rétt eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á í máli sínu áðan. Við eigum auðvitað að þora að ræða þessi mál og þora að horfast í augu við breytingarnar. Við megum auðvitað ekki stimpla hvert annað eða stimpla okkur út úr umræðunni, hún verður að vera byggð á rökum, vera málefnaleg og yfirveguð og mér finnst að tónninn á áherslum Frjálslynda flokksins hafi breyst bara nú á síðustu tveim dögum, sem sýnir að umræðan kallar ýmislegt fram.
Frú forseti. Auðvitað horfum við til reynslu nágrannaþjóða okkar hvað þetta varðar. En það er mjög mikilvægt að halda til haga sérstöðu Íslands. Hér er atvinnuþátttaka útlendinga 86% meðan Danir eru að reyna að ná því hlutfalli upp í 50%. Það gefur okkur allt önnur færi á því að aðlögun útlendinga gangi vel hér á landi. Stofnanirnar þurfa auðvitað að taka sig á eins og við höfum verið að fara yfir og ég get ekki látið hjá líða að ræða um fjármálin og peninga til málaflokksins. Það er mikilvægt að við sem höfum fjárlagafrumvarpið til umræðu förum vandlega yfir það og veitum meira fjármagn til þessara mála. Við verðum að búa svo um hnútana að innflytjendur eigi þess kost að læra íslensku en tungan er lykillinn að þátttöku í samfélaginu og samskiptunum sem við þurfum að eiga. (Forseti hringir.) Án tungumálsins tapar orðtakið „maður er manns gaman“ merkingu sinni. Við sem samfélag, einstaklingarnir sjálfir sem hingað kjósa að koma, (Forseti hringir.) eða atvinnurekendurnir, við verðum öll saman að bera ábyrgð á því að aðlögun útlendinga takist.