miðvikudagur, nóvember 11, 2009

Icesave

Icesave var spariþjónusta í eigu Landsbankans sem starfaði á Bretlandi og Hollandi. Fyrirtækið var í starfsemi frá 2006 til 2008, og hrundi með efnahagskreppunni árið 2008 þegar Landsbanki hrundi líka. Spariþjónustan hefur valdið deilu á milli Íslands og Bretlands og Hollands. Um það bil 400.000 manns á Englandi og Hollandi gat ekki fengið aðgang að reikningi sínum í 6–8 vikur.

Icesave-reikningar voru reikningar hjá Landsbankanum í London og Amsterdam.

Þeir sem voru stjórnendur í Landsbankanum á tímabilinu þegar Icesave varð að veruleika, voru þau: Sigurjón Þ. Árnason, Halldór Kristjánsson, Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson og Þór Kristjánsson. Einnig Þorgeir Baldursson, forstjóri Odda og einn af eigendum Þórsmarkar ehf (sem er eigandi Árvaks sem gefur út Morgunblaðið) [1] og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hélt því fram í Fréttablaðinu þann 21. ágúst 2009 að ríkið ætti að láta stjórnendur sæta ábyrgð og krefja þá til að borga upp í Icesave skuldirnar úr eigin vasa.

Fréttablaðið sagði frá því þann 11. október 2006 að Landsbankinn hefði deginum áður kynnt, það sem þeir kölluðu, nýja innlánsvöru í Bretlandi. Um væri að ræða sérsniðna sparnaðarleið ætlaða breskum almenningi sem eingöngu væri aðgengilegur á netinu. Lágmarksinnistæða á Icesave-reikningi var 250 pund og hámarksinnistæða ein miljón pund. Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við þetta tækifæri að þetta væri liður í því markmiði bankans að breyta samsetningu heildarfjármögnunar bankans og auka vægi innlána þar. Hann bætti svo við:

Það sem er sérstakt við Icesave er að við lofum föstum lágmarksviðmiðunum allt til ársins 2009 miðað við ákveðna grunnvexti sem breski seðlabankinn ákvarðar og verðu þar að auki í hærri enda þeirra vaxta sem er verið að bjóða hér.
Landsbankinn hafði þá verið á breska innlánsmarkaðnum í þrjú ár og heildarinnlán þar námu um 200 milljörðum króna, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum.

Í byrjun júli 2008 spáði Bert Heemskerk, bankastjóri Rabobank, eins stærsta banka í Hollandi, því að Landsbankinn færi á hausinn og að þeir Hollendingar sem lagt höfðu peninga sína inn Icesave-reikning bankans myndu líklega aldrei sjá þá aftur. Þessi orð lét hann falla í umræðuþætti í ríkissjónvarpi Hollands. Hann líkti Landsbankanum við tyrkneska banka, sem njóta ekki trausts í Hollandi. Þann 8. júlí sagðist Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, ekki skilja hvað Heemskerk gengi til með orðum sínum. Pláss væri fyrir alla á markaðnum. Hann teldi þó að Heemskerk væri að tala um litlu bankana sem hefðu að undanförnu komið sterkir inn á innlánamarkaðinn í Hollandi og ógnuðu ef til vill stöðu Rabobank. Heemskerk var harðlega gagnrýndur fyrir orð sín heima fyrir og sögðu sérfræðingar að hann væri hræddur við þá samkeppni sem framundan væri á markaði.

Vanhugsuð stefnuskrá Samfylkingarinnar

Eygló Harðardóttir, alþingismaður, kom inn á mjög athyglisverða staðreynd á þingi í dag um viðurkenningu Samfylkingarinnar á vanhugsaðri kosningastefnuskrá fylkingarinnar. Hún sagði m.a.:

„Það er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni hérna þar sem hrunaflokkarnir virðast kallast á og kalla hvor annan lýðskrumara.

Hins vegar er það þannig að þó að Samfylkingin vilji ekki kannast við veru sína í ríkisstjórn síðustu 2–3 árin vona ég svo sannarlega að hún kannist við kosningastefnuskrána sína frá því í vor, það er nú aðeins styttra síðan. Í henni var megináherslan á hina svokölluðu velferðarbrú og það átti fyrst og fremst að létta greiðslubyrði heimilanna tímabundið. Þetta átti að gera með hækkun vaxtabóta, lengingu lána og sambærilegum úrræðum, og þau heimili sem ættu í mestum vanda ættu að geta fengið greiðsluaðlögun auk þess sem vinna ætti að eðlilegri verðmyndun á fasteignamarkaði.

Við framsóknarmenn, eins og fólk hefur kannski tekið eftir, töldum þessar tillögur alls ekki ganga nógu langt og höfum þrisvar sinnum lagt fram tillögur um varanlega niðurfærslu á höfuðstól lána og án þess að hafa fengið neinar sérstakar undirtektir frá Samfylkingunni varðandi það — þar til núna um helgina. Þá tók Kristrún Heimisdóttir, tímabundinn aðstoðarmaður félagsmálaráðherra um skuldavanda heimilanna, sig til og sagði í Silfri Egils að hún væri þeirrar skoðunar að kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar hvað varðar skuldir heimilanna hefði verið vanhugsuð og þess vegna væri algjörlega nauðsynlegt að fara í nýjar aðgerðir. Hún kom að þessu máli í byrjun ágúst og hefur verið þeirra skoðunar allan tímann að það væri algjörlega nauðsynlegt að fara í afskriftir eins og hægt væri að gera.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur líka sagt að það væri svigrúm til afskrifta á skuldum heimilanna upp á allt að 600 milljarða kr., það þurfi að gera og að ekki sé hægt að túlka greiðslujöfnun sem skuldaleiðréttingu eða -niðurfærslu þó að það gæti hins vegar hugsast að einstaka heimili fengju einhverja niðurfærslu eftir 20–40 ár.

Því vil ég spyrja þingflokksformann Samfylkingarinnar hvort hann sé sammála aðstoðarmanni félagsmálaráðherra um að kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar hafi verið vanhugsuð hvað varðar skuldir heimilanna og einnig hvort og þá hvernig ætlunin sé að afskrifa þessa 600 milljarða kr. sem bankakerfið hefur metið nauðsynlegt að afskrifa af heimilum landsins.“