fimmtudagur, desember 02, 2004

Reykjavík-Staðarskáli-Varmahlíð-Sauðárkrókur-Borgarnes-Kópavogur.

Var á fundi í gærkvöldi á Sauðárkróki sem hófst kl. 21 og stóð til um hálf tólf. Hljóp í skarðið fyrir góðan vin minn sem stýrir landbúnaðarhópi flokksins sem vinnur að stefnumótun fyrir næsta flokksþing okkar.

Á norðurleiðinni kom það mér á óvart að hægt sé að leggja færðina á Vesturlandsvegi og Holtavörðuheiði að jöfnu, en sú er raunin. Suðaustan éljagangur á hvorum stað, að vísu verð ég að viðurkenna að færið á Holtavörðuhæðinni var eitthvað verra, var dimmt á köflum. Stoppuðum í Staðarskála og í Varmahlíð, mikil framsóknarmenning á hvorum stað. Langidalur ætlaði aldrei að endi taka, enda svarta myrkur, en loks var komið að Húnavöllum og hitastigið snar hækkaði, sælla minninga frá Verslunarmannahelginni 1989.

Verstu svellbúntin á allri leiðinni reyndist vera á gatnamótunum inn á Sauðárkrók, skaut þessu að heimamönnum og var þá bent á að Vinstri Grænir stýrðu þessu sveitarfélagi og ekki orð um það meir.

Það var sært stoltið hjá karldýrinu er hann koma út frá því að greiða fyrir bensínið á Ábæ. Hafði þó undirbúið að vera ofsalega „cool“ á því er á planið væri komið, þar sem ekki hafði enn tekist að finna út hvar ætti að opna bensínlokið, en kúbeinið hafði verið skilið eftir heima. Vonaðist til að afgreiðslumaðurinn myndi finna út úr þessu vandamáli í snarheitum, eftir að hafa kallað „fylla“ á leið inn á afgreiðslu. Sú von brást hrapalega. Ég hafði sem sé ekki með neinu móti fundið enn út hvernig ætti opna þetta „blessaða“ lok, þrátt fyrir fundarhöld innandyra sem utan á vettvangi. Þess ber að gera að ég var á lánsbíl, eina haldbæra afsökunin í stöðunni. Ung afgreiðslustúlka tók að sér að bjarga málum, og benti mér á, eftir að hún var komin inn aftur, að núna myndi ég vita næst hvar ætti að opna „blessað“ bensínlokið, á mjög svo móðurlegan hátt.

Kom ekki heim fyrr en um hálf fjögur í nótt, eftir ákaflega skemmtilegt ferðalag. Meðan ég man, vil hrósa fólki fyrir hversu duglegt það hefur verið við að skreyta síðustu daga, ekki svo mikið sem einn bær án jólaljósa. Gaman af því.

Engin ummæli: