föstudagur, október 31, 2003

Alþingi Íslendinga, EES og bráðabirgðalög.

Mikil umræða í þjóðfélaginu um bráðbirgðalög þau sem ríkisstjórnin setti í sumar hefur ekki farið framhjá neinum. Gífuryrði og ómálefnaleg framganga andstæðinga staðfestingu laganna eru að keyra úr hófi, þá er staður og stund fyrir venjulega dauðlega menn að setjast niður og greina málið.

Ísland hafði undanþága frá innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og afurða þeirra til 30. júní 2002, en þá rann hún út án þess að frekari framlengingar fengjust. Í sumar var gripið til viðskiptaaðgerða af hálfu ríkja ESB sem hindruðu útflutning á íslenskum fiskeldisdýrum og afurðum þeirra sökum þess að Ísland uppfyllti ekki tilskilin skilyrði á sviði dýraheilbrigðis. Var það skýlaus krafa Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) nú í sumar að þessar skuldbindingar yrðu uppfylltar svo forsendur mættu skapast fyrir því að innleiðing Íslands á fyrrnefndri tilskipun fengist viðurkennd.

Á Alþingi í vor voru lögð fram frumvörp frá sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra sem miðuðu að því að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 91/67/EBE. Frumvarp sjávarútvegráðherra fékkst samþykkt, en frumvarp landbúnaðarráðherra dagaði upp í nefnd á milli fyrstu og annarrar umræðu. Hafa ber í huga að með lögum um eldi nytjastofna sjávar, var staðfest að málaflokkurinn félli undir sjávarútvegsráðherra, en eldi ferskvatnsdýra er á verksviði landbúnaðarráðherra.

Hafa ber í huga ákvörðunarferlið innan EES grundvallast á því að ESB hefur frumkvæði að nýmælum í löggjöf EES sem varðar fjórfrelsið (frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga). Alþingi hefur 6 mánuði til að samþykkja löggjöf frá ESB. Synji Alþingi staðfestingar réttargerða ESB er í raun staðið í vegi fyrir öflugu og einsleitnu EES, með sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, líkt og fram kemur í inngangsorðum EES-samningsins.

Ríkistjórnin ákvað því að setja títtnefnd bráðbirgðalög til að tryggja framgang þjóðréttarlegrar skuldbindingar Íslands með innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE. Bráðabirgðalög eru sett af forseta á ábyrgð og með atbeina ráðherra ef brýna nauðsyn ber til. Forsendurnar fyrir lögunum voru að stjórnvöld í Skotlandi og á Írlandi lögðu bann við innflutningi eldisdýra og afurða þeirra héðan með skírskotun til þess að Ísland og fiskeldisstöðvar hér á landi hafi ekki sambærilegar viðbótartryggingar fyrir heilbrigðisástandi eldisdýra og giltu í þessum löndum. Kom það til af því að Eftirlitsstofnun EFTA hafði ekki talið sér heimilt að gefa út slíkar tryggingar fyrir Ísland, þar sem lög hefðu ekki verið aðlögum ákvæðum tilskipunar nr. 91/67/EBE, um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra.

Það er hægt að deila lengi um verndun laxastofnsins, en eitt verður að hafa í huga, að hinn villti íslenski laxastofn býr ekki við einangrun og hefur ekki gert svo áratugum skiptir. Sem dæmi, þá var kynbættum Kollafjarðarlax t.a.m. skipulega dreift í fjölmargar laxveiðiár þar til slíkt var bannað með lögum fyrir fáeinum árum síðan.

Veruleg áhætta væri tekin verði bráðabirgðalögin ekki staðfest fyrir 12. nóvember, líkt og rakið var hér að ofan. Víst má telja að íslenskum stjórnvöldum verði stefnt fyrir EFTA-dómstólnum fyrir brot á samningsskuldbindingum sínum. Tapist málið fyrir dómstólnum mun hluti EES-samningsins falla úr gildi gagnvart Íslandi og samkeppnisstaða okkar versna gífurlega.

fimmtudagur, október 30, 2003

Framsóknarmenn framkvæma

Í pólitískri rökræðu er stjórnarandstaðan gjörn á að telja öll verkefni ríkisstjórnarinnar vart til þess verð að hafa orð á, kastljósið sé sjaldnast á málefnunum. Er þá ekki rétt að blaða aðeins í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, ætlar sér að hækka framlög til sjúkrahúsa um kr. 840 millj., af því fara um kr. 500 millj. til Landsspítala–háskólasjúkrahúss og um kr. 100 millj. til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þetta eru auk þess einu hátækni- og háskólaspítalar á landinu. Aukið framlag til þjónustu við geðsjúka nemur kr. 227 millj. en ætlunin er m.a. að taka til notkunar nýja lokaða deild fyrir alvarlega geðsjúka seint á árinu 2004. Ákveðið hefur verið að skipa sérstakan verkefnisstjóra sem mun samræma aðgerðir til að þjónusta sem best einstaklinga sem glíma til geðraskanir. Til uppbyggingar öldrunarþjónustu verður veitt einum milljarði, þar af munu um kr. 500 millj. veittar til stofnkostnaðar nýrra hjúkrunar- og dagvistunarrýma. Hækkun lífeyris til ungra öryrkja mun nema einum milljarði og er þar er verið að koma sérstaklega til móts við fólk sem verður fyrir örorku snemma á lífsleiðinni. Rekstrarframlög til heilsugæslunar munu hækka um kr. 440 millj. og verða teknar í notkun þrjár nýjar heilsugæslustöðvar.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, ætlar sér að hækka fjárveitingar til málefna fatlaðra á næsta ári um kr. 353,2 millj. Það munu kr. 188,3 millj. fara til launa- og verðlagsbóta, raunaukning til málaflokksins mun því nema kr. 165 millj. Áætlanir félagsmálaráðherra ganga út að stytta biðlista eftir þjónustu við fatlaða. Gert er ráð fyrir að opna fjögur ný sambýli í Reykjavík og á Reykjanesi og eitt sambýli á Suðurlandi og efla jafnframt dagvistun þar.

Framsóknarmenn framkvæma og skyldi það nú ekki vera að sama gamla þreytta stjórnarandstaðan með sömu „alltaf á móti stefnuna“, gamla kommastefnan þar sem alger fylgispekt og undirgefni er við „að lifa við sult og seyru“ er leiðarljós, telji ofangreind framfaramál, skref afturábak.

þriðjudagur, október 28, 2003

Styrkveitingar til eldis sjávardýra

Kristján L. Möller, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um styrkveitingar til eldis sjávardýra.

Orðrétt hljóðar fyrirspurnin svo: „Hverjir hafa fengið styrki til eldis sjávardýra frá því að styrkveitingar hófust? — Skriflegt svar óskast.“

Þetta hlýtur að teljast með tímamóta fyrirspurnum, hjá Kristjáni. Varla verður það á hendi eins manns að hrista þetta svar fram úr erminni, menn munu þurfa leita allt aftur til landnáms, glugga í lagaverk eins og Jónsbók, Grágás og jafnvel allt aftur til Úlfljótslaga, varðandi valdheimildir fjárveitingavaldsins til styrkveitinga. Jafnframt mun þurfa að skoða þjóðsögur því í þeim eru heimildir um að menn hafi alið marbendil, öfugugga, hafmeyjar og önnur sjávardýr.

Vart verður annað ráðið, en að margra ára verkefni sé nú fengið í hendur sjávarútvegsráðherra, sem hefur tæpast, hvort sem er, neitt annað að gera þessa stundina, hvað þá undirmenn hans. Alþingi mun síðan sjálfsagt kalla eftir skýrslu um málið, að kröfu Kristjáns Möller, verði svarið rýrt í roði.

Sá annars ágæti þingmaður, mun nú jafnframt í annarri og þriðju umræðu fjárlaga leggja til auknar fjárveitingar til rannsókna „um styrkveitingar til eldis sjávardýra“, annað verður svik við kjósendur, ekki síst á landsbyggðinni.

Þá er að hefjast handa

Mun bloggið verða fyrir skaða eða er þetta ágætis byrjun.