Mikil umræða í þjóðfélaginu um bráðbirgðalög þau sem ríkisstjórnin setti í sumar hefur ekki farið framhjá neinum. Gífuryrði og ómálefnaleg framganga andstæðinga staðfestingu laganna eru að keyra úr hófi, þá er staður og stund fyrir venjulega dauðlega menn að setjast niður og greina málið.
Ísland hafði undanþága frá innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og afurða þeirra til 30. júní 2002, en þá rann hún út án þess að frekari framlengingar fengjust. Í sumar var gripið til viðskiptaaðgerða af hálfu ríkja ESB sem hindruðu útflutning á íslenskum fiskeldisdýrum og afurðum þeirra sökum þess að Ísland uppfyllti ekki tilskilin skilyrði á sviði dýraheilbrigðis. Var það skýlaus krafa Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) nú í sumar að þessar skuldbindingar yrðu uppfylltar svo forsendur mættu skapast fyrir því að innleiðing Íslands á fyrrnefndri tilskipun fengist viðurkennd.
Á Alþingi í vor voru lögð fram frumvörp frá sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra sem miðuðu að því að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 91/67/EBE. Frumvarp sjávarútvegráðherra fékkst samþykkt, en frumvarp landbúnaðarráðherra dagaði upp í nefnd á milli fyrstu og annarrar umræðu. Hafa ber í huga að með lögum um eldi nytjastofna sjávar, var staðfest að málaflokkurinn félli undir sjávarútvegsráðherra, en eldi ferskvatnsdýra er á verksviði landbúnaðarráðherra.
Hafa ber í huga ákvörðunarferlið innan EES grundvallast á því að ESB hefur frumkvæði að nýmælum í löggjöf EES sem varðar fjórfrelsið (frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga). Alþingi hefur 6 mánuði til að samþykkja löggjöf frá ESB. Synji Alþingi staðfestingar réttargerða ESB er í raun staðið í vegi fyrir öflugu og einsleitnu EES, með sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, líkt og fram kemur í inngangsorðum EES-samningsins.
Ríkistjórnin ákvað því að setja títtnefnd bráðbirgðalög til að tryggja framgang þjóðréttarlegrar skuldbindingar Íslands með innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE. Bráðabirgðalög eru sett af forseta á ábyrgð og með atbeina ráðherra ef brýna nauðsyn ber til. Forsendurnar fyrir lögunum voru að stjórnvöld í Skotlandi og á Írlandi lögðu bann við innflutningi eldisdýra og afurða þeirra héðan með skírskotun til þess að Ísland og fiskeldisstöðvar hér á landi hafi ekki sambærilegar viðbótartryggingar fyrir heilbrigðisástandi eldisdýra og giltu í þessum löndum. Kom það til af því að Eftirlitsstofnun EFTA hafði ekki talið sér heimilt að gefa út slíkar tryggingar fyrir Ísland, þar sem lög hefðu ekki verið aðlögum ákvæðum tilskipunar nr. 91/67/EBE, um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra.
Það er hægt að deila lengi um verndun laxastofnsins, en eitt verður að hafa í huga, að hinn villti íslenski laxastofn býr ekki við einangrun og hefur ekki gert svo áratugum skiptir. Sem dæmi, þá var kynbættum Kollafjarðarlax t.a.m. skipulega dreift í fjölmargar laxveiðiár þar til slíkt var bannað með lögum fyrir fáeinum árum síðan.
Veruleg áhætta væri tekin verði bráðabirgðalögin ekki staðfest fyrir 12. nóvember, líkt og rakið var hér að ofan. Víst má telja að íslenskum stjórnvöldum verði stefnt fyrir EFTA-dómstólnum fyrir brot á samningsskuldbindingum sínum. Tapist málið fyrir dómstólnum mun hluti EES-samningsins falla úr gildi gagnvart Íslandi og samkeppnisstaða okkar versna gífurlega.
föstudagur, október 31, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli