miðvikudagur, júní 02, 2004

Skattalækkanir.

Í fréttum hefur mátt greina einhverja óánægju í þingliði sjálfstæðismanna með að tillögur um skattalækkanir skyldu ekki hafa verið lagðar fram á Alþingi fyrir þinglok. Þingmennirnir; Gunnar Birgisson, Pétur Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson, hafa gengið svo langt að telja þetta jaðra við brot á stjórnarsáttmálanum, eins að framsóknarmenn munu ekki ná sínum málum hindrunarlaust í gegn vegna þessa. Það má með sönnu greina reiði í þessu viðbrögðum þingmanna að skattalækkunartillögur sjálfstæðismenn sem þeir höfðu bundið miklar vonir við að yrðu lagðar fram fyrir þinglok, litu ekki dagsins ljós. Og halda mætti að Gunnar Birgisson sé hreinlega illur er hann segir: „Það er ljóst að það er Framsóknarflokkurinn sem stoppar þetta mál. Hann lagðist gegn skattalækkunum af ótrúlega mikilli hörku. Annaðhvort eru þeir búnir að gleyma því hvað þeir sögðu fyrir síðustu kosningar - þetta stendur klárt og kvitt í ríkisstjórnarsáttmálanum - eða þá hitt, að þeir eru að niðurlægja Sjálfstæðisflokkinn, og veit ekki á gott með samstarf flokkanna í áframhaldinu.“

Í kosningabaráttunni voru skattamál og kjarabætur mjög ofarlega á loforðalista stjórnamálaflokkanna. Við framsóknarmenn sögðum að við teldum að mjög gott svigrúm verði á næsta kjörtímabili til verulegra skattalækkana. Lögðum við til að lækka skattaprósentuna í 35,2% og stórhækka ótekjutengdar barnabætur þannig að þær verði kr. 36.500 fyrir öll börn en helmingi hærri fyrir börn að 7 ára aldri. Og að með þessum aðgerðum væri kaupmáttur fjölskyldufólks aukinn mest og þá sérstaklega þeirra sem væru með yngstu börnin. Það okkar mati er afar mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minnst hafa og lögðum til að lækka skattprósentuna yfir línuna, draga úr jaðaráhrifum í skattkerfinu og leggja mesta áherslu á hækkun lægstu launa í kjarasamningum líkt og gert var á árinu 1997.

Fyrir kosningar mátum við framsóknarmenn skattalækkanir á rúma 16 milljarða króna, hvert prósentustig í tekjuskatti kostar 4,2 milljarða og hækkun persónuafsláttar um 1000 krónur um 2,2 milljarða. Það sýnir best hvað millitekjurnar skipta miklu máli í skattkerfinu að hvert prósent í hátekjuskatti gefur aðeins 300 milljónir króna í ríkissjóð. Út frá því geta menn séð hvað mikið þarf að hækka skatta á hæstu tekjum til að ná verulegri lækkun á þá lægstu. Við álytum einnig á sínum tíma að ef áform Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir væru reiknuð með sambærilegum hætti kæmi í ljós að þær munu kosta ríkissjóð ekki langt frá 30 milljörðum og skattalækkanir Samfylkingarinnar milli 17 og 18 milljarða.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að tekjuskattsprósenta á einstaklinga verði lækkuð um allt að 4%, eignarskattur felldur niður, að erfðafjárskattur verði samræmdur og lækkaður. Auk þess að virðisaukaskattkerfið verði tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings. Það er einnig orðið gríðarlega mikilvægt að brúa það bil sem er orðið á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga og Framsóknarflokknum er einum flokka treystandi til að leysa það mál.

Í Viðskiptablaðinu var fyrir síðustu kosningar farið all ýtarlega yfir nauðsyn skattalækkana. Þar var m.a. reifað að rétta tímasetningin til skattalækkana sé á samdráttartímum þegar nauðsyn beri til að hvetja áfram neyslu almennings og að forsvaranlegt sé að reka ríkissjóð með halla til þess að hvetja efnahagslífið áfram. Það eiga sér stað miklar framkvæmdir í dag, ekki aðeins tengdar virkjunum og álverum, heldur og einnig jarðgöngum og ýmsum öðrum framkvæmdum. Það liggi augljóslega mikið við að aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera við þessar aðstæður, m.a. með því að lækka ekki skatta og halda aftur af ríkisútgjöldum. Þetta leiðir af því að fjármál ríkisins eru eðli sínu langtímaviðfangsefni, þar sem tekjur og gjöld ættu að fara eftir vel skilgreindum markmiðum. Síðan er auðvitað undir stjórnmálamönnunum komið hvort að þeir móti pólitíska stefnu er taki mið af skynsemisrökum. Allar ákvarðanir fela í sér ábyrgð og afleiðingar. Með stofnun álbræðslu fyrir austan og stækkun álbræðsluna í Hvalfirði gerir kröfu um mikinn afgang í ríkisfjármálum. Þetta er grundvallaratriði í hagstjórn sem ætti að vera hafið yfir allar pólitískar þrætur að mati hagfræðinga.

Niðurstaðan er því að: Kárahnjúkavirkjun hlýtur að tefja fyrir skattalækkunum um nokkur ár að minnsta kosti, jafnvel fram á næsta kjörtímabil. — Aftur á móti eiga skattalækkanir á samdráttartímum eiga vel við þegar hægt er að tengja þær við kjarasamninga og auka þannig ráðstöfunartekjur launþega án launahækkana.

Engin ummæli: