Þann 27. nóvember 2003 féll í Hæstarétti dómur er varðaði stjórnskipulegt gildi laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í því máli var niðurstaða réttarins sú, að þótt í einstökum ákvæðum laga nr. 139/1998 væri ítrekað skírskotað til þess að heilsufarsupplýsingar í gagnagrunni á heilbrigðissviði ættu að vera ópersónugreinanlegar þá skorti mjög á að nægilega tryggt væri, með ákvæðum settra laga, að yfirlýstu markmiði yrði náð. Og að ótvírætt væri að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tæki til slíkra upplýsinga og veitti sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti.
Með rökum má réttilega spyrja hvers vegna þessum lögum hafi ekki verið vísað til þjóðaratkvæðis af forseta Íslands (Ólafi Ragnari Grímssyni) með því að neita að staðfesta jafn umdeild lög. Þess í stað segir Ólafur Ragnar að „skort [hafi] samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.“
Það er rétt er forseti segir í yfirlýsingu sinni 1. júní að lýðræði, frelsi og mannréttindi séu grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar, en þessar forsendur eiga við í öllum þeim málum sem Alþingi stendur að hverju sinni. Þessar grundvallarforsendur áttu við er lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði voru staðfest og þau áttu einnig við er lög um evrópskt efnahagssvæði voru staðfest.
Meginmarkmið laganna, um breytingu á útvarps- og samkeppnislögum, er að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Mikilvægi fjölmiðla lýsir sér í kröfu í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum, eða eins og Ólafur Ragnar segir sjálfur í yfirlýsingunni, að fá traustar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi og að fjölmiðlar skapi fjölþætt tækifæri fyrir þegnanna til að sjá skoðanir sínar og til að meta stefnur og straum. Sé þetta tryggt, má setja fram þá kröfu um að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum.
Á sínum tíma var bullandi ágreiningur um gagnagrunn á heilbrigðissviði og mikil gagnrýni á frumvarpsdrögin frá vísindasamfélaginu hér í landinu. Umræðan um EES-samninginn var ekki síður hörð. Forseti Íslands á þeim tíma, frú Vigdís Fimmbogadóttir, sá þá ástæðu til að gefa yfirlýsingu á ríkisráðsfundi, en forseta höfðu þá borist fjöldi áskorana um að undirrita ekki frumvarpið.
Þegar forsetinn segir í yfirlýsingu sinni að, að undanförnu hafi verið harðar deilur um lagagrundvöll fjölmiðlanna og að ítrekað hafi verið fullyrt að þetta lagafrumvarp muni hvorki standast stjórnarskrá né alþjóðlega samninga; þá verði það dómstóla að meta réttmæti slíkra fullyrðinga.
Ólafur Ragnar hefur nú ákveðið að taka að nokkru til sín þetta mat, hvort að lög standist stjórnskipun, og mat á því hvað sé sátt, um vinnubrögð og niðurstöðu. Ólafur Ragnar hefur tekið í sínar hendur það vald að meta hvort á hafi skort samhljóm og til sé orðin djúp gjá milli þings og þjóðar í mikilvægum málum. Hann sem hefur verið kosin sem sameiningartákn og því hafin yfir dægurþrætur stjórnmálanna, vera óháður og hafin yfir flokkapólitík og flokkadrætti, þ.e. gegn allri sundrungu.
Hvers vegna þetta mál? Þjóðin kallar eftir skýringum frá Ólafi Ragnari sem hefjast á orðunum: "Það er mjög sögulegt og merkilegt að ..." . Þessi sami Ólafur Ragnar sagði árið 1995: „Framsóknarflokkurinn lofaði 12.000 nýjum störfum til aldamóta. Kvöld eftir kvöld komu ungar stúlkur og ungir drengir á sjónvarpsskjáinn í kosningaauglýsingum Framsóknarflokksins og sögðu þjóðinni hvað þau ætluðu að verða. Enginn ætlaði að verða atvinnulaus. 12.000 ný störf til aldamóta voru einkunnarorð Framsóknarflokksins í kosningunum. Kjarninn í því trúnaðarsambandi sem hann bað um milli sín og kjósenda. Þetta helsta kosningaloforð Framsóknarflokkurinn hefur nú gufað upp strax á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar.“ Ólafur Ragnar; störfin urðu 14.000. Hver túlkar með þessum orðum djúpa gjá milli kjósenda og Framsóknarflokksins. Er það hlutlaus stjórnmálamaður?
þriðjudagur, júní 08, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli