þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Að standa við gefin loforð – látum verkin tala.

Ræðan sem aldrei var flutt, eða því sem næst.

Hvernig hefur Framsóknarflokknum miðað við að ná fram raunhæfum markmiðum sínum. Eru kosningaloforðin öll svikin líkt og andstæðingarnir segja í hverri tækifærisræðunni á eftir annarri. Eða getum við getum borið höfuðið hátt er litið er til þess árangurs sem náðst hefur. Spyrja andstæðingarnir í dag, hvað með 12.000 ný störf, spyrja þeir í dag, hvað með foreldraorlofsmálið og spyrja þeir í dag, hvað með 90% lánin. Við framsóknarmenn eigum að vera duglegri í því að minna pólitíska andstæðinga okkar á, hverju við höfum náð fram í landsstjórninni, enda er sá árangur glæsilegur sem við getum verið stolt af.

12.000 ný störf.
Við framsóknarmenn l0fuðum að setja atvinnumálin á oddinn og auka verðmætasköpun í landinu. Við lofuðum að skapa 12.000 ný störf fyrir aldamót. Á kjörtímabilinu 1995 til 1999 var mikil hagvöxtur og stórfelld fjölgun starfa sem bar vitni um þá áherslu sem lögð var á atvinnumálin og aukna verðmætasköpun. Niðurstaðan varð að störfum fjölgaði um 14.000. Landsframleiðslan jókst um 22% og sem svaraði 1.600.000 kr. á hverju fjögurra manna fjölskyldu. Fjölgun starfanna tengdist fyrst og fremst hugbúnaðargerð og öðrum þekkingargreinum, almennum smáiðnaði, fjárfestingu í orkufrekum iðnaði og ýmsum þjónustugreinum.

Foreldraorlofið.
Við framsóknarmenn lofuðum að jafna rétt mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs. Fæðingarorlofið var lengt úr sex í níu mánuði og tryggt var um leið samvistir barns bæði við föður og móður, þannig varð ábyrgð þeirra beggja jöfn gagnvart barninu. Við framsóknarmenn lögðum áherslu á að taka sérstakt tillit til fjölskyldunnar, þar er samræming fjölskyldu- og atvinnulífs mikilvægt úrlausnarefni, í nútímaþjóðfélagi og að því vinnum við framsóknarmenn.

90% lánin.
Við framsóknarmenn lofuðum að lánshlutfall almennra íbúðarlána verði hækkað í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp þessa efnis. Við gildistöku þessa lagafrumvarps er gert ráð fyrir að hámarkslánið verði 13 millj. kr. en það hækki síðan áfram í áföngum á kjörtímabilinu. Við framsóknarmenn stöndum vörð um að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum sé sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
Við framsóknarmenn lofuðum að endurgreiðsla LÍN verði lækkuð til samræmis við eldri lánaflokk. Enda er leggjum við höfuð áherslu á að menntun sé fyrir alla, óháð efnahag, búsetu og stöðu. Í samræmi við þessa stefnu okkar liggur fyrir Alþingi frumvarp um að árlegt endurgreiðsluhlutfall námslána verði lækkað úr 4,75% í 3,75%. Lánþegum með eldri námslán verður gefin kostur á skuldbreytingu, þannig að endurgreiðsla af lánum þeirra verði í samræmi við nýja endurgreiðsluskilmála. Þessi breyting á reglum lánasjóðsins mun gefa fleirum einstaklingum tækifæri á því að fara í nám og stuðla þannig að arðbærra menntuðu fólki í þjóðfélaginu. Samhliða þessari breytingu er mikilvægt að skoða kosti og galla þess, að taka upp styrktarkerfi líkt og gerist á hinum Norðurlöndunum.

Skattalækkanir.
Við framsóknarmenn lofuðum að lækka skatta. Tekjuskattur einstaklinga mun lækka um 4% í þremur áföngum, til ársins 2007, samkvæmt tillögum sem ríkistjórnin hefur kynnt. Eignarskattar verða afnumdir frá og með áramótum. Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og vaxtabóta mun hækka um 3% á árinu 2005. Þá verður persónuafsláttur hækkaður til næstu þriggja ára í samræmi við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði, þ.e. um 3% nú um áramót, 2,5% árið 2006 og 2,25% árið 2007. Auk þessa er vinna hafin við hækkun barnabóta sem mun koma til framkvæmda í tveimur áföngum, á árunum 2006 og 2007.

Af þessari upptalningum sést að við framsóknarmenn gleymum ekki loforðum okkar, heldur efnum við þau. Þjóðin treystir okkur til að vinna af ábyrgð að velferð sinni, undir því trausti ætlum við framsóknarmenn að standa.

Engin ummæli: