mánudagur, október 24, 2005

Áfram stelpur.


Lagið „Áfram stelpur“ hljómaði í útvarpinu kl. 7 að morgni 24. október 1975. Platan „Áfram stelpur“ var ekki komin til landsins en aðstandendur höfðu fengið afrit í hendur og komið í útvarpið. Sönghópur Rauðsokka söng „Áfram stelpur“ ásamt öðrum lögum á Lækjartorgi síðar um daginn og það hefur síðan verið táknrænn söngur þessa dags.

Áfram stelpur

Lag: Gunnar Edander
Texti: Dagný Kristjánsdóttir og Kristján Jónsson


Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.

Og seinna börnin segja:
sko mömmu, hún hreinsaði til.
Já seinna börnin segja:
þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.

(Viðlag)

Áfram stelpur standa á fætur
slítum allar gamlar rætur
þúsund ára kvennakúgunar.
Ef einstaklingurinn er virkur
verður fjöldinn okkar styrkur
og við gerum breytingar.
Atkvæði eigum við í hrönnum
komum pólitíkinni í lag
sköpum jafnrétti og bræðralag.

Áfram stelpur, hér er höndin
hnýtum saman vinaböndin
verum ekki deigar dansinn í.
Byggjum nýjan heim með höndum
hraustra kvenna í öllum löndum
látum enga linku vera í því.
Börnin eignast alla okkar reynslu,
sýnum með eigin einingu,
aflið í fjöldasamstöðu.

Stelpur horfið ögn til baka
á allt sem hefur konur þjakað
stelpur horfið bálreiðar um öxl.
Ef baráttu að baki áttu
berðu höfuð hátt og láttu
efann hverfa 'unnist hefur margt.
Þó er mörgu ekki svarað enn:
því ekki er jafnréttið mikið í raun,
hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun?
(Fyrsta vísa endurtekin)

föstudagur, október 21, 2005

Er Cameron næsti leiðtogi íhaldsmanna?


Áfram að forystuleit íhaldsmanna í Bretlandi, þeir David Cameron og David Davis munu kljást um hylli 300.000 félagsmanna Íhaldsflokksins í póstkosningu, eftir úrslit annarrar umferðar innann þingflokks þeirra. Atkvæði féllu þannig að Cameron fékk 90 (56) atkvæði, Davis 57 (62) og Fox 51 (42) atkvæði. Innan sviga hef ég hér niðurstöðuna frá því í fyrstu umferð.

Verður ekki annað ályktað en að stuðningsmenn Clarke hafi farið yfir til Cameron, enda er sú tilhneiging í samræmi við yfirlýsingar Clarke, eftir fyrstu umferð, að flokkurinn sé líklega að leita að yngri manni til að leiða flokkinn í kosningunum 2009.

Póstkosningin mun hefjast 4. nóvember n.k. og standa yfir þar til úrslit verða tilkynnt 6. desember. Áætlað er að fram fari að a.m.k. 11 sameiginlegir framboðsfundi. Það er því spennandi barátta framundan og margt sem á eftir að koma á óvart.

fimmtudagur, október 20, 2005

Árni á ársfundi Alþýðusambands Íslands.


Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, flutti gott ávarp á ársfund Alþýðusambands Íslands í dag. Þar sagði hann m.a. að mótast hafi „almenn samstaða um að gefa heildarsamtökum atvinnurekenda og launafólks nokkuð mikið svigrúm til að semja sín á milli um kaup og kjör á vinnumarkaði.“ Niðurstaðan sé sú að stjórnmálamenn séu ekki eins miklir gerendur við gerð þeirra. Ráðuneytið sé, að hans mati, t.d. ráðuneyti beggja aðila, bæði atvinnurekenda og launafólks, þ.e. í hlutverki sáttasemjara.

Hann nefndi sem dæmi erfið mál er hafa komið inn á borð ráðherra svo sem reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga, starfsemi starfsmannaleiga og fullgildingu alþjóðasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

Ráðuneytið hafi í þessum málum sem öðrum „fylgt þeirri stefnu að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti, reynt að skapa gagnkvæmt traust á milli aðila og freistað þess að beita á jákvæðan hátt áhrifum sínum til að niðurstaða fáist sem dragi úr ágreiningi, skapi forsendur fyrir því að vél samfélagsins gangi sem snurðulausast og starfsfólk búi við gott vinnuumhverfi.“

Jafnframt kom Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, inn á staðreyndir sem vert er að halda til haga:

„Í síðasta mánuði var skráð atvinnuleysi 1,4% af vinnuaflinu. Þetta eru mikil umskipti á síðast liðnum tveimur árum svo að ekki sé talað um ástandið eins og það var árið 1995 þegar núverandi stjórnarsamstarf hófst en þá mældist atvinnuleysið fimm prósent.

Hagvöxtur hefur verið mikill og verður ekki lát á næsta ári. Á árinu 2004 var hann hvorki meira né minna en 6,2%, á þessu ári er gert ráð fyrir að hann verði 6 % en eitthvað minni á árinu 2006.

Það sem hlýtur að skipta launafólk miklu er að þrátt fyrir meiri verðbólgu hefur kaupmáttur launa haldið áfram að aukast. Á tímabilinu júlí 2004 til júlí 2005 hækkaði launavísitalan um 6,6% og kaupmáttur launa um 2,9% á þessum tíma.

Útlán Íbúðalánasjóðs á síðastliðnu ári eru eitthvað nálægt 70-80 milljörðum króna, sem er í ágætum takti við þau útlán sem hafa verið hjá sjóðnum á undanförnum árum. Á sama tíma hafa útlán bankanna vegna húsnæðislána verið um 280 milljarðar króna.“

miðvikudagur, október 19, 2005

Leiðtogakjör breska Íhaldsflokksins II. hluti.

Það var þá Ken Clarke sem féll úr leik í leiðtogakjörinu í fyrstu umferð. Clarke var í þriðja skipti að reyna að verða leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru 198 þingmenn sem greiddu atkvæði í kjörinu í dag og fékk David Davis flest atkvæði, 62 talsins, David Cameron 56 atkvæði, Liam Fox 42 og Clarke 38 atkvæði.

Skammarleg framkoma Árna Mathiesen.


Siv Friðleifsdóttir gerði vel á mánudaginn er hún varði Framsóknarflokkinn í kattarþvotti Árna Mathiesen á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi. Ný munstraður fjármálaráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, sagði blákalt að allar hugmyndir um niðurfellingu bensínstyrksins væru Jóns Kristjánssonar, punktur.

Með þessu var annars sá ágæti maður Árni Mathiesen að víkja sér undan ábyrgð á eigin fjárlagafrumvarpi, annars sá ágæti maður Árni Mathiesen gerði ekki tilraun til að skýra það að heilbrigðisráðherra hafði boðað þá þegar fulltrúa öryrkja til fundar við sig til að ræða þetta mál. Annars sá ágæti maður Árni Mathiesen gerði ekki tilraun til að segja frá því að þessi fundur hefði þegar farið fram, né reyndi annars sá ágæti maður Árni Mathiesen að segja frá því að heilbrigðisráðherra væri að vinna í því að fara yfir þessi mál í ráðuneyti sínu.

Siv benti jafnframt annars þeim ágæta manni Árna Mathiesen á að framsóknarmenn væru seinþreyttir til vandræða og að við sýndum samstöðu í viðkvæmum málum. Það er heldur snautleg frammistaða að benda á bls. 362 í 2. hefti fjárlagafrumvarpsins og segja að þar sé gerð grein fyrir því hvernig þessum málum sé háttað, hvernig eigi að færa þessa fjármuni til og í hvaða tilgangi. En hafandi deginum áður veifað geislabaug á borð fyrir samflokksmenn og segja í raun ekki benda á mig.

Árni verður að svara því hvort hann sé tilbúinn til að falla frá sparnaðarkröfu á heilbrigðisráðuneytið og halda eigi bensínstyrknum inni? Það verður vandlega fylgst með næstu skrefum Árna Mathiesen í þessu máli.

þriðjudagur, október 18, 2005

Leiðtogakjör breska Íhaldsflokksins I. hluti.

Fjórir eru í framboði í fyrstu umferð leiðtogakjörs Íhaldsflokksins í Bretlandi sem fram fer í dag. Þeir þrír sem flest atkvæði hljóta alda áfram í aðra umferð á fimmtudaginn. Telja fréttaskýrendur að Kenneth Clarke og Liam Fox muni berjast um þriðja sætið, en David Davis og David Cameron séu öruggir áfram.

Liam Fox og David Davis voru strax nefndir sem hugsanlegir arftakar Michael Howard, eftir að hann óvænt sagði af sér leiðtogaembættinu í Íhaldsflokknum daginn eftir kosningarnar í vor.

David Cameron er í dag talin líklegastur til að hreppa leiðtogaembættið en þess ber að geta að það eru þingmenn Íhaldsflokksins sem kjósa nú í dag og á fimmtudaginn. Í annarri umferðinni fellur þriðji frambjóðandinn út og allir félagsmenn í Íhaldsflokknum, alls um 300.000, munu síðan kjósa á milli þeirra tveggja sem eftir eru.

mánudagur, október 17, 2005

Útvíkkun Evrópska efnahagssvæðisins formlega tekin gildi.

Var að lesa á mbl.is að útvíkkun Evrópska efnahagssvæðisins hafi nú formlega tekið gildi. En Ítalía var síðasta landið til að fullgilda samninginn og því er EES nú sameiginlegt efnahagssvæði 28 Evrópuríkja með yfir 450 milljónir íbúa.

Stækkunarviðræðurnar sem hófust árið 2003 beindu sjónummanna í Evrópusambandinu í auknum mæli að EES-samstarfinu á ný og máti greina að mati embættismanna greinilegur vilji allra aðildarríkja til að tryggja áframhald samstarfsins í stækkuðu Evrópusambandi. Í stækkunarviðræðunum var m.a. samþykkt að koma á fót nýjum þróunarsjóði EFTA. Sjóðurinn er m.a. talin bjóða upp á aukin tækifæri fyrir samvinnuverkefni íslensks atvinnulífs.

Þessa sér stað nú þegar, en Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fer nú fyrir sendinefnd á leið til Póllands og sækir þar meðal annars ráðstefnu um Þróunarsjóð EFTA . Styrkir sjóðsins til verkefna í Póllandi verða á ári um 55 miljónir evra, eða sem svarar til liðlega 4 miljarða íslenskra króna. Fulltrúar 20 fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana héðan eru í för með ráðherra.

... síðan síðast.

Varla hægt að fara yfir sviðið frá síðustu færslu, enda viðburðaríkir mánuðir að baki og ætla ég ekki lesendum of mikla þolinmæði.

Ferðalögin öll hafa gefið mér mikið, t.d. var einstaklega gaman að dvelja fyrir vestan snemma í haust. Gott veður allan tímann og kom mér á óvart hversu góðir vegirnir eru orðnir. Ykkur að segja hef ég ekki komið í Djúpið síðan árið1992 og Strandirnar ekki heldur. En þessu var öllu kippt í liðin í sumar og haust.

Er enda strax farin að hlakka til næsta sumars, og þá ætla ég mér að endurnýja kynninn við hálendið. Spurning um að fjárfesta í svo sem einu stykki Jeep áður.

En hér eftir verða færslur tíðari og a.m.k. ein í viku, af nægu að taka í þjóðfélagsumræðunni.