Séra Flóki hefur upplýst að jólasveininn sé ekki til. Þetta átti sér stað við kirkjulegri athöfn með 6 ára börnum í sókn prestsins. Hann hefur sjálfsagt ekki haft hjarta í sér að færa staðreyndir mála í einhvern felubúning, fengið einhverja beinskeytta spurningu og orðið að svara í samræmi við sannleikann.
Í Konungsbréfi frá 1736 er kveðið á um barna confirmation og innvígsla, samkvæmt því er börnum séra Flóka gert að gangast undir opinberlegt examen og klerki hefur fundist tími til komin að uppfræða, því margir foreldrar gleyma fyrst og oft sinni skyldu í því að láta uppfræða sín börn í tíma, svo að ekkert manngreinarálit orsaki hina minnstu misklíð í samkundunni.
Séra Flóki tekur störf sín alvarlega, þetta vita landsmenn enda ógleymanleg misklíð í Langholtssöfnuði. Þar var landsþekktur organisti orðin frekur á svigrúm og andrími til handa klerki og orðið þröngt um að sóknarbörn væru uppfrædd í sérlegustu kristindómsins höfuðgreinum. Eða eins og segir í lögbók: „koma til sín í sitt hús, til að undirvísa þeim í þeirra kristindómi, með þeim hætti, að þau ei einasta fái skilning á meiningunni, eftir bókstafnum, í þeim nauðsynlegustu trúarinnar greinum, heldur og einnig verði upphvött til að ná þar af lifandi þekkingu og iðkast þar í, svo að börnin undireins og guðs sannindi verða þeim kröftuglega og alvarlega fyrir sjónir sett og innrætt, uppvekist til að gefa rúm sannleikanum og fái sannan smekk og andlega reynslu til að eftirfylgja honum í þeirra líferni og framferði, í einu orði að segja, komist til sannrar hjartans og sinnisins umvendunar.“
Þetta er eins skýrt og hugsast getur þegar segir „uppvekist til að gefa rúm sannleikanum og fái sannan smekk og andlega reynslu til að eftirfylgja honum í þeirra líferni og framferði.“
Er nema von að séra Flóki spyrji: Hvað er trú á Jólasveininn?
Sú skylda hvílir jú á klerkum að „viti hann til hverra synda eitt eða annað barn er hneigt og hvernig fyrir því er ástatt í einhverjum sérlegum kringumstæðum, skal hann af meðaumkunarsömum kærleika setja sama barni fyrir sjónir þess sálar eymdarlegt ásigkomulag og annaðhvort sýna því og gefa tækifæri til sannrar umvendunar.“ Forsómi á hér ekkert í og hana nú.
þriðjudagur, desember 20, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli