Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur á bloggi sínu upplýst að á ríkisstjórnarfundi, s.l. föstudag, hafi hann kynnt frumvarp er feli í sér „að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi".
Í fréttum hefur ráðherrann lýst því að slíkri greiningardeild megi líkja við greiningardeildir viðskiptabankanna og að leikfimisæfingar stjórnarandstöðu um að líkja þessu við leyniþjónustu séu með öllu ómálefnalegar.
Ég fagna mjög þessari yfirætlan ráðherrans, að fá fram alvöru spekinga til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan það er af hinu góða og hlakka ég mjög til að gerast áskrifandi að „hálf 5-fréttum" deildarinnar þar sem ég verð upplýstur um kaupin á eyrinni í undirheimum Reykjavíkur. Að vísu hef ég fyrirvara um að dómsmálaráðherra hafi sjálfdæmi um hvaða lögregluembætti hafi með höndum greiningu og mat á áhættu, þarna finnst mér að „Kínamúrarnir" eða „eldveggirnir" haldi ekki að öllu leyti.
En Danna í „greninu", Tobba „túkall" og Bjarna „glæp" verður hér eftir varla hlíft við stöðugum fréttum af markverðum atburðum og á DV-ið sjálfsagt eftir að fölna við hliðina á hálf 5-bloggi greiningardeildir ríkislögreglustjóra. Enda vonast maður til að geta fengið með milliliðalausum hætti greiningu og mat á áhættu að vera nálægt slíkum kumpánum sem og Danna, Tobba og Bjarna glæp.
Hér hefur dómsmálaráðherrann, Björn Bjarnason, hitt naglann á höfuðið, því að hver vill ekki fylgjast með gistináttafjölda hjá lögreglu, innflutningsspá, vaxtamöguleikum og uppgjörstímabilum. Það eru spennandi tímar framundan, það verður enginn sunnudagaskóli í undirheimum Reykjavíkur.
þriðjudagur, febrúar 07, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli