Á þriðjahundrað manns urðu vitni að rífandi stemmingu á hraðskákmóti Skáksambands Íslands í Ráðhúsinu í gær. Eftir að um annað hundruð skákmenn höfðu att kappi í fyrradag, var komið að úrslitaeinvígi Magnúsar Carlsen og Hannesar Hlífars Stefánssonar. Spennustigið var í hámarki í Tjarnarsalnum, eftirlæti margra, Magnús og einn af sonum Íslands Hannes Hlífar voru sestir við háborðið. Skákdómari tilkynnti að hefja skyldi taflið og áhorfendur þögnuðuð.
Úrslit urðu á þann veg að Magnús vann báðar skákirnar og því óumdeildur sigurvegari mótsins, sem hann var mjög vel kominn af. Hafði hann m.a. unnið heimsmeistarann í hraðskák, Viswanathan Anand. Eftir það einvígi var gaman að fylgjast með litlu systur Magnúsar, er hún sýndi með báðum þumalfingrum velþóknun sína á afreki stóra bróður og uppskar breitt bros hans. Þau taka greinilega þátt í þessu með honum af lífi og sál.
Þátttöku undirritaðs lauk fyrri dag keppninnar, hefði orðið að lenda 60 sætum ofar til að komast í 64-manna úrslit, þannig að maður var langt frá sínum villtustu draumum, enda sumir draumar varla raunhæfir!
Andstæðingur minn í 1. umferð komst þó nokkuð langt, enda minnir mig að hann sé fyrrum ólympíufari fyrir Íslands hönd, Jón Garðar Viðarsson. Í 64-manna úrslitum tefldi hann gegn Inna Gaponenko, stórmeistara kvenna, og vann 1½-½. Í 32-manna úrslitum tefldi hann gegn stórmeistaranum Pentala Harikrishna sá er 19 ára frá Indlandi og feikilegt efni í ofurstórmeistara. Það reyndist of hár veggur að klífa.
Mér á vinstri hönd einmitt í þessari 1. umferð var ung skákkona Turkan Mamedjarova frá Azerbaijan, fædd 1989 og er alþjóðlegur meistari kvenna. Hún komst í 32-manna úrslit og tefli þá gegn sterkustu skákkonu heims, Judit Polgar. En það reyndist henni um megn. Hafði Guðfríður Lilja, forseti Skáksambandsins, hent gaman af því að Judit hefði núna 2 heila, enda komin 5 mánuði á leið!
Mamedjarova þessi á eldri bróður, Shakhriyar Mamedyarov. Sá er núna í 15. sæti á Fide-listanum, fæddur árið 1985, eða sama ár og Kasparov varð heimsmeistari í fyrsta sinn. Verður spennandi að fylgjast með þeim systkinunum. Í framhjáhlaupi má geta þess að ég horfði á Mamedyarov tefla gegn Nataf, frönskum stórmeistara, með aðeins 30 sekúndur gegn 4 mínútum Frakkans og vinna samt!!
Að lokum skal stjórn Skáksambandsins þökkuð frábær skemmtan.
föstudagur, mars 17, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli