laugardagur, október 28, 2006
Bloggað í 3 ár!!
laugardagur, október 07, 2006
Ný íslensk skákstig – fjórða mesta stigahækkunin.
Á nýjum íslenskum skákstigalista er Jóhann Hjartarson sem fyrr stigahæstur. Hannes Hlífar Stefánsson er næstur og Helgi Ólafsson þriðji. Dagur Andri Friðgeirsson hækkaði mest frá síðasta stigalista (mars 2006) eða um 155 skákstig og Sigurður Sigurjónsson er hæstur nýliða á listanum nú með 1785 skákstig.
Það sem snýr að mér persónulega er að ykkar einlægur hækkar um 115 stig á milli lista og er það 4. mesta hækkunin frá því mars. Þarna er ég í góðum hópi efnilegustu skákmanna þjóðarinnar og gamalla refa í bransanum.
10 mestu hækkanir.
Nr. Nafn mism stig
1 Dagur Andri Friðgeirsson 155
2 Daníel Pétursson 135
3 Vilhjálmur Pálmason 125
4 Einar G Einarsson 115
5 Svanberg Már Pálsson 105
6 Kristján Hreinsson 100
7 Hallgerður H Þorsteinsdóttir 90
8 Hjörvar Grétarsson 85
9 Óskar Bjarnason 80
10 Sigurlaug R Friðþjófsdóttir 70
Dagný hættir á þingi.
Mér er minnisstæð fréttin er Dagný sat sína fyrstu þingsetningu, en þar sagði m.a.:
Setning Alþingis einkennist af gömlum hefðum og er með þjóðlegum brag. Dagný Jónsdóttir, nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins, mætti til þings í fyrsta skipti í gær þegar vorþing Alþingis var sett og lét ekki sitt eftir liggja að gera athöfnina sem hátíðlegasta. Dagný klæddist fögrum upphlut sem upphaflega var í eigu langömmu hennar og nöfnu, Dagnýjar Einarsdóttur (1901-1968).
"Dagurinn var frábær og tilfinningin ólýsanleg," segir Dagný.
"Stærsta stundin fannst mér þegar þjóðsöngurinn var sunginn í Dómkirkjunni."
Og í leiðara Morgunblaðsins nokkrum dögum síðar sagði:
"Þjóð, sem á ungan þingmann sem hefur þessa tilfinningu fyrir þinginu og þjóðsöngnum, hefur ekki misst tengslin við uppruna sinn og rætur. Þessi orð Dagnýjar Jónsdóttur hlýjuðu mörgum um hjartarætur og eru vonandi til marks um hverjum augum hennar kynslóð lítur þá arfleifð, sem hún er að byrja að taka við. "
Ég veit að Dagný mun nú takast á við ný og ögrandi verkefni í störfum sínum á nýjum vettvangi að loknum þessum þingvetri. Hún býr nú þegar yfir mikilli reynslu, sem mun nýtast henni til framtíðar.
föstudagur, október 06, 2006
Valgerður ræðir öryggis- og varnarmál á Alþingi.
Meginskylda sérhvers fullvalda ríkis er að ábyrgjast öryggi og varnir þegna sinna og lands. Í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíðarfyrirkomulag varna á Íslandi settu íslensk stjórnvöld sér einkum þrjú markmið:
Í fyrsta lagi að tryggja varnir landsins með viðunandi hætti eftir að
fastri viðveru Bandaríkjahers lyki. Í öðru lagi að semja um skil á svæðum og mannvirkjum og í þriðja lagi að tryggja snurðulausa yfirtöku Íslands á rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík.Nú um stundir er þess minnst að 20 ár eru liðin frá leiðtogafundinum í Höfða, sem segja má að hafi markað upphafið á endalokum kalda stríðsins, og fimm ár frá því að stórfelld hryðjuverkaárás var gerð á Bandaríkin. Lok kalda stríðsins og hryðjuverkaógnin hafa breytt heimsmyndinni og orðið til þess að ríki heims hafa endurskilgreint og endurskoðað varnir sínar og öryggisráðstafanir. Íslensk stjórnvöld hafa ekki látið sitt eftir liggja og má þar nefna aukna þátttöku á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í Atlantshafsbandalaginu og aðgerðum þess. Nýgert samkomulag við Bandaríkin endurspeglar þá breyttu heimsmynd sem við nú stöndum frammi fyrir. Brotthvarf varnarliðsins frá Suðurnesjum markar tímamót í varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin, rúmri 55 ára samfelldri viðveru bandarísks varnarliðs á Íslandi er lokið.
Ef skilgreina á viðmiðanir fyrir öryggi og varnir Íslands þarf að líta til þeirra ógna sem að okkur kunna að steðja og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna.
Öryggis- og varnarstefna Íslands hlýtur að taka mið af legu landsins á miðju norðanverðu Atlantshafi og smæðar þjóðarinnar. Við hljótum að líta til vesturs og rækta samskipti okkar við Bandaríkin. Varnarsamkomulagið veitir okkur rammann til þess á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 sem áfram er í fullu gildi og hefur reynst okkur mjög farsæll á liðnum áratugum. Varnarsamstarf þjóðanna á sér ekki hliðstæðu og ljóst er að margar þjóðir vildu gjarnan njóta þeirrar sérstöku verndar sem varnarsamningurinn veitir okkur. Það verður hins vegar áfram viðfangsefni beggja þjóða að fullmóta og slípa tvíhliða varnarsamstarf á grundvelli þessa nýja samkomulags. Skiptir þar framtíð ratsjárstöðvanna og áframhaldandi rekstur þeirra allra miklu en þær hafa margsannað gildi sitt í áranna rás.
Sem Evrópuþjóð hljótum við að fylgjast grannt með þróun öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins, ESDP, sem þróast hefur hratt undanfarin ár. Þannig var samevrópsk öryggismálastefna samþykkt fyrir hartnær þremur árum og stjórnmála- og öryggismálanefnd sem og hermálanefnd og hermálastarfslið eru nú starfandi innan sambandsins. Hernaðarbolmagn er að aukast og sett hefur verið saman 60 þúsund manna viðbragðslið. Evrópsk varnarmálastofnun var sett á fót árið 2004 og er ætlað að stuðla að samhæfingu og samvinnu á hernaðarsviðinu. Þá var samstöðuákvæði aðildarríkja ESB samþykkt eftir hryðjuverkaárásina í Madrid árið 2004 sem gerir ráð fyrir að aðildarríkin bregðist sameiginlega við ef eitt þetta verður fyrir hryðjuverkaárás. Þó öryggis- og varnarmálastefna ESB sé enn þá ófullburða er hún í örri þróun og til lengri tíma litið skyldi alls ekki útiloka að Ísland geti leitað samstarfs við ESB á sviði öryggismála.
Önnur hlið á Evrópusamstarfinu snýr að Schengen, samstarfi sem við höfum notið góðs af og munum styrkja enn frekar. Þá hljótum við að líta til okkar næstu nágranna, svo sem Noregs, Danmerkur, Færeyja, Bretlands og Kanada, um samstarf á sviði leitar- og björgunarmála.
Síðast en ekki síst hljótum við að líta okkur nær og taka aukna ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Samningaferli það sem nú hefur verið leitt farsællega til lykta, en var okkur ekki auðvelt, þarf að verða okkur áminning um nauðsyn þess að standa vel á verði um öryggishagsmuni okkar. Við þurfum að efla okkar eigin viðbúnað og þekkingu þannig að við getum brugðist við þeim öru breytingum sem eru að verða á umhverfi okkar í öryggis- og varnarmálum. Í því ljósi ber að líta á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stórefla Landhelgisgæslu Íslands og lögreglu, að setja á fót miðstöð um öryggismál innan lands og endurskoða lög um almannavarnir. Í því ljósi ber að líta á samstarfsvettvang fulltrúa stjórnmálaflokkanna til að fjalla um öryggis- og varnarmál.
Áskorunum fylgja tækifæri sem stundum þarf framsýni og þrótt til að greina og grípa. Reynsla erlendis frá, til að mynda í Þýskalandi, þar sem töluvert hefur verið um lokun herstöðva, sýnir að með góðu skipulagi, ásetningi og samvinnu ríkis og sveitarfélaga má vinna mjög vel úr slíkum viðfangsefnum. Nú þegar hefur náðst mjög góður árangur í þeim efnum og hefur stór hluti af þeim starfsmönnum varnarliðsins sem sagt hefur verið upp störfum fundið ný störf. Það skiptir mestu að nú þegar hafa um 150 fyrrum starfsmenn varnarliðsins verið ráðnir til að starfa hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli við ýmis störf sem varða rekstur alþjóðaflugvallarins.
Ákvörðun Bandaríkjastjórnar þann 15. mars um að kalla varnarliðið af landi brott kom illa við íslensk stjórnvöld, enda stóð þá yfir samningaferli um kostnaðarskiptingu á rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Engu að síður ákvað ríkisstjórn Íslands að láta reyna á frekari samninga við Bandaríkjamenn. Það reyndist farsæl ákvörðun. Með varnarsamkomulaginu við Bandaríkin, frekari samvinnu við aðra bandamenn og nágrannaþjóðir og uppbyggingu eigin getu í öryggismálum hafa íslensk stjórnvöld uppfyllt þá frumskyldu sína að ábyrgjast öryggi þegna sinna og varnir landsins.