Það er ekki laust við að forysta Samfylkingarinnar hafi hvatt hugsjónir sýnar og tekið upp á sína arma lausnir frjálshyggjunnar, lausnir félaga dr. Hannesar H. Gissurarsonar, ef dæma á fréttaflutninginn af landsfundi fylkingarinnar. Formaðurinn hvetur hirðina til að fylgja sér djúpt niður í fen markaðsaflanna, ferð sem mun hugnast frjálshyggjuliðinu, en varla megin þorra kjósenda.
Fréttin í ræðu formannsins er: Hvers vegna komu þessar áherslur ekki fram í kosningunum í vor? Sváfu allir er formaðurinn minntist á heilbrigðismál í vor? Eða sofnaði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir kosningar og vaknaði óvænt í Hafnarfirði hálfu ári síðar í Frjálshyggjuflokknum, sem mun þó hugsanlega ekki bjóða fram fyrr en í kosningum árið 2007. Vandséð er í hvaða ferðalag formaðurinn er að fara með hugsjónir fylkingarinnar, en hans er vitaskuld valdið.
Á óvart kemur ef ekki neinn af hinum sjálfskipuðu forystumönnum Samfylkingarinnar muni ekki með óbragð í munni reyna að kyngja þessum súra grauti Össurar Skarphéðinssonar. Það verður spennandi að sjá hvernig formaður framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, muni höndla þessar tillögur Össurar. Það skyldi þó ekki vera að hér sé komið kjörið tækifæri til handa Ingibjörgu, til að klekkja á formanninum, þ.e. leiða hópinn sem mun ekki geta með nokkru móti sætt sig við ofangreindar frjálshyggjulausnir. Upp væri komin togstreita þeirra á millum, þar sem málefnið er aðalatriðið, ekki persónurnar. Þessa stöðu hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki náð að þvinga fram áður, en hér gefst henni væntanlega einstakt tækifæri.
Sá annars ágæti varaþingmaður, hefur ekki enn náð að skáka öllum samherjum sínum, enn er ljón á veginum (Össur formaður), væntanleg barátta hennar mun þó skila sér að lokum og mátturinn verða hennar.
mánudagur, nóvember 03, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli