Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, ásamt tindátum sínum í þingflokknum, ætlar sér á næstu dögum að mæla fyrir þingsályktun um könnun á framkvæmd samningsins um evrópskt efnahagssvæði. Það á sem sé að skipa nefnd sérfræðinga til að kanna hvort að framkvæmd samningsins rúmist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar, henda hafi málið allt verið umdeilt á meðal fræðimanna og þróunin, ásamt allri framkvæmd, orðið á þann veg að ekki sé lengur við unað. Alþingi skal því hlutast fyrir rannsókn á málinu, enda lýðveldið undir að mati flutningsmanna. Í samningnum er gert ráð fyrir að taka yfir 80% af öllum reglum Evrópusambandsins, og það hefur í sjálfu sér ekki breyst, en Össur fullyrðir að allt umfang sé orðið mun meira en hann hafi gert ráð fyrir í upphafi. Einnig telur Össur í dag neitunarvald vera óvirkt, pólitískt sé ógerlegt að neita að staðfesta gerðir frá ESB, enda þýðir það í raun uppsögn á EES-samningnum á því sviði. Jafnframt telur Össur að dómstólar hafi gengið lengra en góðu hófi gengur og að grundvallarsjónarmið um fullveldi Íslands séu í hættu.
Öflugur liðsmaður í liði Össurar á sínum tíma var Jón Baldvin Hannibalsson og er eftir honum haft daginn sem samningurinn var undirritaður í Óportó í Portúgal þann 2. maí 1992: „Ég átti alltaf von á því að menn yrðu tortryggnir og fullir efasemda til að byrja með en ég hef gert ráð fyrir því að þeim efasemdum verði eytt, alveg eins og gerðist þegar við gerðumst aðilar að EFTA árið 1970. Þá voru höfð uppi stór orð um að þetta væru endalok íslensks sjálfstæðis en það var að sjálfsögðu allt á misskilningi byggt. Það mun einnig koma á daginn hvað varðar þennan samning.“ Jafnframt sagði Jón Baldvin að samningurinn væri svo víðtækur að hann auðveldar ríkjum samningsgerð um það sem eftir er við ESB. — Hvað hefur nú breyst í kolli Össurar fyrst að ljóst var í upphafi að samningurinn „væri svo víðtækur,“ en að öllum „efasemdum verði eytt“ og að „endalok íslensks sjálfstæðis“ væri misskilningur einn.
Fjórmenningarnefnd fræðimanna sem var skipuð að Jóni Baldvin í apríl mánuði 1992 skilaði niðurstöðum sínum 7. júlí sama ár og komst að þeirra niðurstöðu að Óportó samningurinn í engu bryti gegn stjórnarskrá, hvorki ein sér né saman og því engin þörf á að breyta henni fyrir lögfestingu samningsins. Í engu gæti heldur, mat fjórmenninganna, dómstólar taldir ósjálfstæðir enda fordæmi fyrir að á takmörkuðum sviðum sé lagt til að grundvallar það sem er ákveðið af erlendum stjórnvöldum eða dómstólum, slíkar undanþágur rúmuðust innan 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi niðurstaða var gagnrýnd m.a. af dr. Guðmundi Alfreðssyni er sagði að „þótt góðir menn hafi setið í sérfræðinganefndinni geta þeir ekki búið til ný stjórnarskrárákvæði eða lagað til önnur, þannig að þau henti niðurstöðunum. [...] og svo um útvíkkunina á 2. gr. stjórnarskrárinnar, þannig að hún nái til yfirþjóðlegra framkvæmdavaldshafa og dómstóla. Þessar kenningar þeirra eru athyglisverðar, en þær eiga sér engar stoðir í stjórnarskránni sjálfri, í framkvæmd hennar til þessa eða í ritum fræðimanna um íslenskan stjórnskipunarrétt. Það þarf að breyta stjórnarskránni til þess að koma þeim í framkvæmd.“
Það er íhugunarefni hvort að Össur hafi komið þessari gagnrýni á þeim tíma fyrir á öskuhögum sögunnar með gamla Alþýðuflokknum, en með nýrri kennitölu og nýju nafni, Fylkingin, sé nú hægt að koma fram sem hrein mey, án fortíðar. Getur stjórnmálaafl verið trúverðugt, sem kemur fram með mál fyrir Alþingi Íslendinga líkt og hér að ofan greinir og telur núna allt í voða. Niðurstaðan var að „engir þættir samningsins á sviði löggjafarvalds, dómsvalds eða framkvæmdavalds brjóti í bága við stjórnarskrána. Í því fellst raunar að ekki er um að ræða neinar óheimilar eða ólöglegar takmarkanir á fullveldi landsins,“ að mati fjórmenninganefndarinnar.
Þeirri spurningu hvort að ástæða sé til „að kanna hvort að framkvæmd samningsins rúmist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar, henda hafi málið allt verið umdeilt á meðal fræðimanna og þróunin, ásamt allri framkvæmd, orðið á þann veg að ekki sé lengur við unað,“ var svarað af Þór Vilhjálmssyni, einum fjórmenninganna, 7. júlí 1992: „Það er engin ástæða til þess, að því er ég tel, að vefengja störf manna, sem vinna sem sérfræðingar að svona máli.“ Allt málið var því talið afgreitt af stjórnvöldum, sem Össur var fulltrúi fyrir, og niðurstaða fjórmenninganna fullnægjandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli