miðvikudagur, september 22, 2004

Samræðustjórnmál, upphaf nýrra hugmynda.

Viðskiptaráðuneytið hvetur til þess í fréttatilkynningu frá því í gær að ég og þú, fyrirtæki og stofnanir sendi ráðuneytinu umsögn um drög að frumvörpum um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Drögin segja þeir í samræmi við skýrslu nefndarinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi.

Í drögunum koma m.a. fram hugmyndir stjórnvalda að binda í lög reglur um starfskjör stjórnenda. Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart er hafður er huga frægur föstudagur í nóvember mánuði í fyrra. Þá var dagskipunin að út af bankabókum skyldu allar eignir landsmanna í Kaupþingi-Búnaðarbanka. Það voru nákvæmlega kaupréttarsamningar tveggja lykilmanna hjá Kaupþingi-Búnaðarbankans, starfandi stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lýsti þá þegar yfir að skoðað verði hvort að mögulegt sé að setja reglur um viðmið sem farið sé eftir við gerð ráðningarsamninga æðstu stjórnenda fyrirtækja á markaði.

Í drögunum er m.a. lagt er til að stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en fjóra hluthafa verði skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Jafnframt er mælt með því að starfskjarastefnan verði leiðbeinandi fyrir stjórnir, en þeim verði skylt að greina frá því ef vikið er frá stefnunni og rökstyðja ástæður þess. Starfskjarastefnan sé rædd á aðalfundi ár hvert og skulu hluthafar upplýstir um stefnuna eða helstu atriði hennar, sem og áætlaðan kostnað vegna kaupréttaráætlana sem samþykkja skal á fundinum. Á aðalfundi skal stjórn einnig gera hluthöfum grein fyrir starfskjörum þeirra stjórnenda sem hún ræður.

En í sjálfu sér má spyrja hvort að ekki hefði verið nauðsynlegt að efna til samræðu um t.d. þennan þátt, þ.e. starfskjarastefnu, í frumvarpsdrögunum, við gerð skýrslunnar. Starfskjarastefna fyrir stjórnendur sem á að vera rædd á aðalfundi, árlega og vera leiðbeinandi, mun verða miðmið a.m.k. innan fyrirtækisins, ef ekki víðar, sbr. fámennið hér á landi. Hefðu t.d. landssamtök eins og Heimili og skóli ekki áhuga á því að koma að þessari umræðu, og hefði ekki verið þörf á því að hleypa öðrum slíkum aðilum að samræðunni er skýrslan var í vinnslu.

En okkur gefst þó nú tími til 5. október nk. að senda umsagnir um drögin að frumvörpum um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Og er ástæða til að hvetja alla til að taka þátt í þeirri samræðu, hver veit nema að nýjar hugmyndir komi fram.

Engin ummæli: