Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, undirritaði ásamt forsvarsmönnum Skaftárhrepps og Sveitarfélagsins Hornafjarðar, yfirlýsingu sl. sunnudag sem verður stækkun Skaftafellsþjóðgarðs. En ríkisstjórn Íslands hafði nýlega samþykkti tillögu Sivjar Friðleifsdóttur um að fyrsti áfangi í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs verði stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli. Með þessari stækkun verður þjóðgarðurinn í Skaftafelli 4.807 km2 og nær til svæðis sem nemur um 57% af Vatnajökli auk Lakagígasvæðisins. Áfangi þessi markar tímamót á alþjóðavísu, því hér er stærsti þjóðgarður í Evrópu að fæðast.
Framtíðarsýn ráðherrans er að Þjóðgarðurinn Vatnajökull (eða Vatnajökulsþjóðgarður) nái stranda á milli, allt frá Öxarfirði í norðri til sjávar í suðri þar sem jökulhettan sjálf væri hjartað eða kjarninn rétt sunnan við miðjuna. Slíkur þjóðgarður hefði þvílíka sérstöðu, sökum mikilla náttúruverðmæta, að hann færi auðveldlega inn á Heimsminjaskrá UNESCO og yrði einn mikilvægasti og stórfenglegasti þjóðgarður veraldar og tvímælalaust með þeim markverðustu á sviði jarðfræði og landmótunar.
Á vegum umhverfisráðuneytisins verður áfram unnið að því að jökullinn í heild verði innan þjóðgarðs og jafnframt verður unnið að verndun svæða norðan Vatnajökuls í samræmi við tillögur nefndar sem skilað var til ráðuneytisins í maí sl. um verndun svæðisins.
Þar er m.a. lagt til að flokkun verndarsvæðisins með hliðsjón af verndarmarkmiðum og landnýtingu verði ákveðin skv. alþjóðlegum skilgreiningum, þ.e. flokkun Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um vernduð svæði og hafa þegar verið unnin frumdrög að slíkri flokkun fyrir þjóðgarðssvæðið í heild.
Samhliða ákvörðun um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls þarf að ákveða lágmarksuppbyggingu aðstöðu á vegum þjóðgarðsins til þess að mæta umferð gesta um svæðið. Slík uppbygging er forsenda fyrir stofnun þjóðgarðsins. Áætlaður kostnaður við slíka uppbyggingu nemur um 600 milljónum króna. Áætlaður rekstrarkostnaður þjóðgarðs norðan Vatnajökuls er um 130 milljónir króna á ári.
Óháðir aðilar meta það svo að verði farið að tillögum um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og í þá uppbyggingu sem lagt er til megi gera ráð fyrir að lágmarki 1,5 - 2,0% aukningu ferðamanna hingað til lands. Þetta gæti svarað til hækkunar gjaldeyristekna um 1,2 - 1,5 milljarða króna á ári. Þar af mætti ætla að um 700 milljónir kæmu inn á svæðið í auknum tekjum árlega. Ennfremur er því spáð að ferðamönnum muni fjölga um 5% til viðbótar verði stofnaður Vatnajökulsþjóðgarður sem nái til alls jökulsins og svæða norðan og sunnan hans. Þetta gæti þýtt um 32 þúsund fleiri ferðamenn og viðbótargjaldeyristekjur upp á um 4 milljarða króna.
þriðjudagur, september 14, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli