fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Líffæragjöf.

Mér var send í gær ályktun frá Sambandi ungra framsóknarmanna, þar sem segir:

„Skorað er á Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, að skoða í samstarfi við aðra ráðherra sem málið heyrir undir, hvort ekki sé hægt að útbúa upplýst samþykki landsmanna fyrir líffæragjöf. Í þessu sambandi mætti t.d. líta til þeirrar framkvæmdar sem tíðkast í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna en þar er tekið fram á ökuskírteini viðkomandi hvort líffæragjöf er samþykkt.“

Það er þarft að ungt fólk myndi sér skoðun á þessu máli.

Það var ánægjulegt að lesa í FRÉTTABLAÐINU um bata ungrar konu, Írisar Arnlaugsdóttur, en hún var 16 ára þegar hún fór að finna fyrir versnandi sjón, sem við rannsóknir reyndist vera af völdum augnsjúkdóms sem er arfgengur og landlægur hér.

Tíu árum síðar var skipt um hornhimnu í öðru auga hennar. Þá var sjónin komin niður fyrir 20%. Í dag stundar hún háskólanám, er algjör lestrarhestur og sér „meira að segja í lit,“ eins og hún orðar það.

Á öðrum stað er fjallað um mikinn skort á gjafaaugum hér á landi, svo hægt sé að framkvæma nauðsynlegar hornhimnuaðgerðir á ungu fólki sem þjáist af ættgengum sjúkdómi sem leiðir til blindu. Sem hugsanlega skýringu er nefnt að það geti að hluta til stafað af því að á líffæragjafakortum, sem Landlæknisembættið gefur út og fólk getur gefið ýmsa líkamshluta að sér látnu, er ekki getið um augu.

Af þessu má sjá að hér þarf úrbóta við.

Engin ummæli: