mánudagur, mars 07, 2005

Tímarit á læknabiðstofum smitvaldar?

Læknar við læknadeild Oslóarháskóla hafa rannsakað hvort tímarit, sem liggja frammi á biðstofum lækna og heilbrigðisstofnana kunni að vera smitvaldar. Niðurstaðan var sú, að engin ástæða sé til að fjarlægja tímarit af biðstofunum.

Skýrst er frá niðurstöðum norsku rannsóknarinnar í blaði breskra heimilislækna. Höfundur greinarinnar segir frá því að tekin hafi verið 15 tímarit á 11 biðstofum lækna og tekin bakteríustrok af forsíðunum. Tekin voru þau tímarit sem lágu efst í bunkanum á hverri stofu en aldur þeirra var frá tveimur upp í níu mánuði.

Það kom engum á óvart að bakteríur fundust á öllum forsíðunum. Hins vegar fundust ekki nema tvö tilvik um sjúkdómsvaldandi bakteríur. Hugsanlegt sé að bakteríurnar hafi ekki lifað af tímann sem leið frá því strokin voru tekin þar til þau voru rannsökuð (6-12 klukkustundir). Það segir höfundur að geti bent til þess að forsíður tímarita bjóði ekki upp á þau lífsskilyrði sem slíkar bakteríur þurfa.

Höfundurinn dregur þá ályktun af rannsókn sinni að engin ástæða sé til að fjarlægja tímarit af biðstofum lækna.

Hins vegar bendir hann á þann annmarka á rannsókninni að hún hafi eingöngu beinst að bakteríum. ─ Eftir sé að kanna hvort á tímaritunum kunni að þrífast sjúkdómsvaldandi veirur.

(Heimild: mbl.is)

Engin ummæli: