föstudagur, maí 20, 2005

Bresku þingkosningarnar 2005.

Boðið til Englands.
Utanríkisráðuneytið breska bauð í liðinni viku 2.-6. maí fulltrúum erlendra ríkja í fyrstu skipulögðu heimsókn til að fylgjast með þingkosningunum þar í landi. Það var The Electoral Commission sem sá um allt skipulag heimsóknarinnar, það á meðal á fyrirlestrum, heimsóknum og viðtölum við lykilfólk í framkvæmd þingkosninganna.

Það var mér mikil ánægja að sendiráð Bretlands hér á Íslandi skyldi bjóða mér að vera þátttakandi og fá einstakt tækifæri til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Ég er ekki með öllu reynslulaus eftir að hafa verið á vettvangi í síðustu kosningum árið 2001, en þá gerði ég mér m.a. sérstakar ferðir til Brighton og Hove, til Hastings, ásamt yfirferð um Lundúnaborg. Ætli þetta flokkist ekki undir að vera haldinn aðdáun á breskri pólitík.

Það er eitthvað alveg einstakt við þingkosningar í Bretlandi, að t.d. kosið skuli í einmenningskjördæmum, eins eru fjölmiðlarnir með stórkostlega umfjöllun og leggst maður ósjálfrátt í allt að tveggja tíma lestur á dagblöðunum á hverjum degi auk þess að fylgjast með kvöldfréttatímum ITV og BBC. Það verður því að segjast að það er á engan hátt hægt að bera saman breska blaðamennsku saman við þá íslensku, enda er aðstöðumunur þeirra mikill.

Fyrirlestrarnir í utanríkisráðuneytinu.
Öllum þátttakendum var boðið að sitja dags námskeið í Locarno Suite í breska utanríkisráðuneytinu þar sem var farið yfir þá þætti sem ég tek fyrir sérstaklega hér að neðan. Þeir sem fluttu erindin voru: Mr. Sam Younger, Chairman, The Electoral Commission; Mr. Malcolm Rawlings, Department of Constitutional Affairs – Electoral Policy Division; Mr. John Bennett, Head of Assembly Support for London Assembly and Deputy Greater London Returning Officer; Mr. Peter Wardle, Chief Executive, The Electoral Commission; Ms. Kate Sullivan, Head of Electoral Administration, The Electoral, Commission; Mr. Nick Moon, Director, Social and Political – NOP World og Dr. Roger Mortimore, Senior Political Analyst, MORI Social Research Institute.

The Electoral Commission varð til með breyttum kosningalögum í nóvember árið 2000. Stjórnmálaflokkarnir hafa engin áhrif á nefndina. Ef upp kemst um tengsl starfsmanna nefndarinnar við einstaka flokk þá verður viðkomandi starfsmanni vikið frá, hlutleysi er skýlaus krafa. Formaðurinn greindi frá því að sonur hans sem væri 19 ára hafi spurt hann, hvað hann ætli sér að kjósa og að í þeim efnum hafi hann ákveðið að segja honum það ekki. Gæti lekið út, jafnvel frá fjölskyldu hans. Nefndin er tengd beint við þingið. Kosið verður um 646 sæti, sem er fækkun frá síðustu kosningum úr 659 sætum, munar mestu um fækkun sæta í Skotlandi úr 72 í 59, og flokkarnir sem bjóða fram eru um 350 í Bretlandi, en t.d. í Kanada þá eru þeir 11 til 12. Þetta er því í raun hrein martröð. Eru því líkur til að lagt verði til við breska þingið að heimilt verði að þrengja að framboði stjórnmálaflokka, enda mjög rúmar reglur í gildi um framboð stjórnmálaflokka. Í raun dugar að skila upplýsingum um stjórnmálaflokk í a.m.k. í 6 orðum, eða þá með lýsandi orði eins og „Independent“, auk uppáskrift 10 meðmælenda búsettra í kjördæminu.

Kosningarétt hafa þeir sem eru 18 ára og eldri, hafa breskan ríkisborgararétt, eða fullgildir borgarar breska Samveldisins, eða írskir ríkisborgarar búsettir í Bretlandi og hafa óskað eftir því að hafa kosningarétt. Þeir sem geta því ekki kosið eru þeir sem eru undir 18 ára aldri, þeir sem sitja í lávarðardeildinni, fangar (þeir smíða þó kjörklefanna sem notaðir eru) og borgarar sem ekki hafa skráð sig á kjörskrá. Breskir ríkisborgarar sem eru búsettir erlendis hafa heimild til að kjósa, að uppfylltum skilyrðum hér að ofan, í allt að 15 ár frá því þeir fluttu. Á kjörskrá fyrir þessar þingkosningarnar voru 44,28 milljón kjósenda, í samanburði við 44,55 milljón kjósenda í þingkosningunum 2001. Kjörskráin skiptist þannig að í Englandi voru kjósendur 37,04 milljón, í Skotlandi 3,86 milljón, í Wales 2,23 milljónir og á Norður Írlandi 1,15 milljónir kjósenda.

Frambjóðendur verða að vera 21 árs eða eldri. Þeir sem geta ekki boðið sig fram eru þeir sem sitja í lávarðardeildinni, gjaldþrota einstaklingar, starfsmenn konungsdæmisins, fangar og aðilar sem hafa verið uppvísir að kosningasvindli. Framboð verða að vera studd af 10 kjósendum í kjördæminu, það þarf að leggja fram £ 500 sem tryggingu, og fæst sú upphæð ekki endurgreidd fái framboðið minna en 5% heildaratkvæða.

Kjörstaðir á Englandi og Wales eru um 45.000 og eru þeir opnir frá kl. 7:00 til kl. 22:00. Það þarf að sjálfsögðu mikið af starfsfólki í kringum þessa vinnu og á vegum The Electoral Commission einnar eru þetta um 150 starfsmenn, eru þeir staðsettir í London, Edinborg, Cardiff og Belfast. En síðan skipa Returning Officers í hverju kjördæmi annað starfsfólk til að annast framkvæmdina. Þar sem kjörtímabilið í Bretlandi er 5 ár þá eru miklar líkur til að það sé nýtt starfsfólk í hverjum kosningum. The Electoral Commission hefur því talið mjög mikilvægt að setja reglur um ýmis framkvæmdaatriði, gefa út upplýsingabæklinga og að þjálfa starfsfólkið. Kostnaður við framkvæmd þingkosninganna núna, á Englandi og Wales, var áætlaður um £ 71 milljón, en árið 2001 voru það £ 51 milljón og árið 1997 voru það £ 46 milljónir.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur aukist mikið frá árinu 2001, en fyrir þann tíma voru hlutföll þeirra atkvæða um 2%. Frá 2001 hefur þeim fjölgað mikið, ekki síst vega þess að nú þarf ekki að skýra frá því hvers vegna fólk ætli að kjósa utankjörfundar. Í þingkosningunum 2001 þá eru þau 3,9%, voru 8,3% í Evrópusambandskosningunum árið 2004, og bjuggust menn við því að þau yrðu um 15% í kosningunum núna, eða um 6 milljónir atkvæða. Hlutfall utankjörfundaratkvæða getur verið frá um 3,5% til um 50% í einstaka kjördæmum. Þess ber að geta að hægt er að sækja um að kjósa utankjörfundar allt að 6 dögum fyrir kjördag.

Flokkarnir hafa lista yfir fólk sem ætlar að kjósa utankjörfundar, fólk hefur val um að senda atkvæði sitt til flokksins eða yfirvalda. Komi fólk á kjörstað og ætli sér að kjósa að sjálfsögðu, og að í ljós kemur að viðkomandi hafi óskað eftir því að fá sendan kjörseðil sinn heim, þá fær viðkomandi að kjósa með bleikum kjörseðli, sem er haldið til haga þar til að ljóst sé hverju það veldur að viðkomandi hafa verið skráður sem kjósandi utankjörfundar.

Kjörsóknin var með minnsta móti í síðustu kosningum, þ.e. árið 2001, eða um 59,4%. Í þingkosningum fram að árinu 1997 var kjörsókn frá 70 til 77% og var í þingkosningunum 1997 70,9%. Í sveitastjórnarkosningunum er kjörsóknin venjulega frá 30 til 40%. Í síðustu kosningum til Evrópuþingsins, eða árið 2004, var kjörsókn 38,2% og árið 1999 24,1%. The Electoral Commission leggur að sjálfsögðu áherslu á að fá fólk til að skrá sig til kosninganna. Í herferð þeirra var mikil áhersla lögð í að ná til ungra manna 18 til 24 ára. En kannanir sýna að sá aldurshópur hefur sýnt hvað mest skeytingaleysi gagnvart stjórnmálum. Reynt var að svara áleitnum spurningum, eins og um ástæður/tilgang þessa að kjósa og hverju þær í raun skipta einstaklinginn máli. En einmitt þar verður að segjast að sé lykillinn að því að gera stjórnmál áhugaverð, þ.e. með því að stilla þeim upp sem verkfæri til að koma persónulegum skoðunum á framfæri. Afrakstur þessarar herferðar var mældur eftir Evrópuþingskosningarnar 2004 og kom í ljós að 64% aðspurða höfðu séð herferðina, 1/3 hafði kosið vegna hennar, ¼ höfðu rætt um kosningarnar vegna þeirra og aðeins 15% hefðu ekkert aðhafst vegna herferðarinnar. Sett hafði verið upp vefsíða, frír upplýsingasími og auglýsingar á strætó. Í sjónvarpi hafi verið hvatt til að kjósa t.d. vegna umræðu um lokunartíma kráa kl. 23, og hreins lofts. Í útvarpsauglýsingunni hafði t.d. verið talað um bílastæði og leikvöllinn. Síðan var komið fyrir stöndum í verslunarkjörnum, allt í samræmdu útliti. Hringingar í frían síma jukust um 1.200 á hverjum degi og heimsóknir 5.000 til 10.000 fleiri á vefinn á hverjum degi. Uppskeran var jákvæðari umræða um stjórnmál almennt. Það fóru 4 milljónir punda í þetta verkefni árið 2004.

Fjármögnun kosningabaráttunnar er háð skilyrðum og veður t.d. að tilkynna öll fjárframlög sem eru hærri en £ 5.000 til stjórnmálaflokks og þau framlög sem eru hærri en £ 1.000 til flokksfélaga. Stjórnmálaflokkum er gert skylt að skýra vikulega frá þessum framlögum í kosningabaráttunni. Útgjöld eru háð skilyrðum, flokkar sem bjóða fram í öllum kjördæmum mega að hámarki eyða £ 19,38 milljónum eða £ 30.000 í hvert kjördæmi. Upplýsingum um útgjöld verður að skila í síðasta lagi ári eftir kosningar. Frambjóðendurnir mega eyða að grunni til £ 7.150 til kosningabaráttunnar, til viðbótar er heildarfjöldi kjósenda margfaldaður með stuðlinum 0,07 og þannig fæst sú heildarupphæð sem má eyða. Á landsvísu er ekkert hámark á því sem stjórnmálaflokkar mega eyða og er talið að það hafi verið um £ 21. milljón sem var kostað til í síðustu kosningum.

Skoðanakannanir hafa mjög sett svip sinn á umræðuna frá degi til dags í kosningabaráttunni. Í Bretlandi eru það um 7 til 9 aðilar sem sjá um framkvæmd þeirra og eru dagblöðin helstu viðskiptavinir fyrirtækjanna. Í raun eru slíkar kannanir þó aðeins 1% verkefna þeirra hjá MORI. Það fóru um £ 1,5 milljónir hjá stóru flokkunum í að gera kannanir í síðustu kosningum 2001. Það eru engar reglur til um þessa upplýsingaleit en algengast er að beitt sé fókus-hópum og hringingum í fólk. Fyrir síðustu kosningar kom fram 60% þjóðarinnar vildu banna kannanir fyrir kosningar, einnig vildu í raun 50% þjóðarinnar einnig banna umfjöllun almennt um kosningar. Við framkvæmd kannana er mikilvægt að spyrja réttu spurninganna, spyrja rétta hópinn og að fjölmiðlar túlki upplýsingar rétt. Ef eitthver þessara þátta misferst er könnunin ónýt.

Útgönguspár eru framkvæmdar af tveimur aðilum, fulltrúa stjórnmálaflokkana og aðilum frá BBC/ITV; þær eru framkvæmdar á 120 kjörstöðum og eru um 16.500 kjósendur í úrtakinu.

Bristol.
Öllum þátttakendum var skipt upp í hópa til að fylgjast með kosningunum á vettvangi í hinum ýmsu stöðum, s.s. Birmingham, Cambridge og Bristol, mér er ekki kunnugt um hvort að aðrir staðir voru einnig heimsóttir, en veit þetta fyrir víst eftir viðtöl við nokkra þátttakenda í ráðuneytinu. Undirritaður var í hópi með fulltrúum frá Svíþjóð, Slóvakíu, Rúmeníu og Suður-Afríku. Var þetta í alla staði sérlega skemmtileg, það voru 6 þingmenn í hópnum, sem var sérlega skemmtilegt og t.d. mjög gaman að fræðast um stjórnmálin í Suður Afríku.

Í Bristol gafst okkur m.a. tækifæri til að hitta Stuart Hook frá South Gloucester Council og fara yfir ýmsa þætti í framkvæmd kosninganna, en þá sérstaklega utankjörfundaratkvæðin, enda mesti veikleikin í framkvæmdinni almennt. Á kjördag fórum við á kjörstað í Kingwood Civic Centre og fylgdumst með framkvæmdinni. Síðar sama dag sóttum við heim ritstjórnarskrifstofur The Western Daily Press og voru upplýst um verkáætlun þeirra í umfjöllun um kosningarnar og eins hvernig þeir myndu haga vinnulagi sínu fyrir kosninganóttina og útgáfu blaðsins tvisvar þá nóttina. Kosningakvöldið vorum við viðstödd talningu atkvæða og verður að segjast að öll sú umgjörð hafi verið til fyrirmyndar, minnstu smáatriðin úthugsuð.

Veikir hlekkir í framkvæmd kosninganna.
Kosningakerfið Bretlandi á sér langa hefð, byggt á gagnkvæmu trausti og góðri trú á millum kjósenda og framkvæmdaaðila. Komið hafa fram veikleikar í framkvæmd með utankjörfundaratkvæðisseðla, en þeir eru sendir heim til þeirra kjósenda sem óska að kjósa utankjörfundar og það er á þeirra ábyrgð að skila þeim á réttan stað.

Mikið rætt um kosningasvindlið í Birmingham á fundinum í ráðuneytinu. En í síðustu sveitastjórnarkosningum, 2004, var fjöldi kosningabærra manna sagður með heimilisfesti í yfirgefnu pakkhúsi, utankjörfundarseðlar voru sendir á þetta heimilisfang og óprúttnir aðilar fylltu út seðlana og skiluð inn til kjörstjórnar. Þetta dæmi er auðvitað lýsandi fyrir það vandamál að ekki skuli vera til þjóðskrá í landinu, og að hægt væri að mynda kjörskrárstofn frá henni.

Eins kom fram í fjölmiðlum að 5 ára barn fékk sendan kjörseðil, í því tilviki hafa foreldrarnir lagt fram umsókn fyrir hönd þess, enda þarf aðeins að leggja fram nafn og heimilisfang. Það vinnst engin tími fyrir framkvæmdaraðila að sannreyna hvort að viðkomandi hafa kosningarétt áður en seðlar eru sendir út.

Það eru engin nafnskírteini í Bretlandi og því engin þjóðskrá. Umræðan um upptöku slíkrar þjóðskrár er mikið mannréttinda mál að mati Breta. Þó gefa þeir út heilbrigðiskort til allra landsmanna. Eins er það umhugsunarvert í allri þessari mannréttindaumræðu, að daglega nota landsmenn kredit- og debetkort og því raun stórkostleg upplýsingasöfnun í gangi daglega og engin spyr í raun hvernig þær upplýsingar eru meðhöndlaðar.

Engin ummæli: