Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, fékk samþykkt á Alþingi s.l. laugardag sem lög hækkun á atvinnuleysisbótum, sem er í samræmi við yfirlýsingu ríkistjórnarinnar frá 7. mars við undirritun kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins. Yfirlýsingin hljóðaði svo: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars 2004 kr. 88.767 en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007.“
Í frumvarpinu er lagt til að hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skuli nema 4.096 kr. á dag frá og með 1. mars 2004. Þessi hækkun felur í sér 11,3% hækkun á hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og eykur útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 330 m.kr. á árinu 2004, en um 400 m.kr. miðað við heilt ár.
Árni Magnússon lét þess getið í flutningsræðu á Alþingi að hann hafi ákveðið að beita mér fyrir endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Enda væri tímabært að þetta kerfi yrði tekið til endurskoðunar, ekki síst vegna reynslunnar á það kerfi sem tekið var í notkun fyrir tæpum sex árum. Markmiðið með endurskoðuninni nú verði fyrst og fremst að bæta stöðu og öryggi fólks sem er án atvinnu sem og að tryggja gæði vinnumarkaðsaðgerða og auka skilvirkni kerfisins almennt. Þá sé ætlunin að meta árangur vinnumarkaðsaðgerða síðustu ára og hverju þær hafa skilað fólkinu sem nýtt hefur sér þjónustuna.
Þá kom fram í ræðu Árna að samhliða kjarasamningsgerðinni í mars sl. hefði verið gert samkomulag um eflingu starfsmenntasjóða atvinnulífsins um samtals 400 millj. kr. á samningstímanum. Þetta væri gífurlega mikilvægt mál sem hafi það að markmiði að gera starfsmönnum kleift að laga sig að breyttum aðstæðum í atvinnulífinu hvort sem það er á vinnustaðnum eða að takast á við ný og ögrandi verkefni.
mánudagur, maí 17, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli