Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirra niðurstöðu í kvörtun þriggja umsækjanda um stöðu hæstaréttardómara að annmarki hafi verið á undirbúningi og meðferð skipaninni og því sé það niðurstaða umboðsmanns að af hálfu dómsmálaráðherra hefði ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara 19. ágúst 2003.
Í viðtali við fréttastofu Sjóvarps 2o. ágúst 2003, sagði Björn Bjarnason: Ja ég lagði nú sama sjónarmið til grundvallar og Hæstiréttur. Ég taldi heppilegast að við Hæstarétt kæmi maður með meistarapróf í Evrópurétti og samkeppnisrétti eins og Ólafur Börkur hefur og það var mitt mat að það væri gott fyrir réttinn að fá slíkan mann og ég taldi það heppilegast.
[Fréttamaðurinn]: En þeir töldu það nú ekki sjálfir að það skipti öllu máli?
Björn Bjarnason: Nei þeir eiga að gefa mér álit um hæfi mannanna og gerðu það og síðan taka þeir tvo einstaklinga og nefna þá frá sínum bæjardyrum séð að það sé heppilegast. Það er mjög sjaldgæft að Hæstiréttur geri þetta og það má rannsaka það kannski sérstaklega hve oft hann hefur farið þessa leið.“
Síðar í viðtalinu segir Björn: „Ég legg mitt mat á hlutina á þeim forsendum sem ég geri og ég komst að þessari niðurstöðu.
[Fréttamaðurinn]: En fékkstu einhverja sérfræðinga þér til aðstoðar?
Björn Bjarnason: Nei ég þarf ekki sérfræðinga í þessu tilliti, Hæstiréttur er sá sérfræðiaðili sem á að segja mér hvort að umsækjendur séu hæfir eða ekki. Síðan er undir mati mínu komið hvern ég vel úr þessum hópi hæfra umsækjenda.
[Fréttamaðurinn]: En þú fórst sem sagt ekki eftir því sem að þeir töldu að væri heppilegast?
Björn Bjarnason: Nei, af því að ég taldi heppilegast að maðurinn hefði þekkingu á Evrópurétti og það var einn umsækjenda sem er með meistarapróf í Evrópurétti og það var það sem ég taldi heppilegast fyrir Hæstarétt.“
Það var því mat Björns Bjarnasonar að Evrópuréttur „setji æ meiri svip á kennslu í lagadeildum og hann skipti sífellt meira máli fyrir Íslendinga og aðra sem nærri koma Evrópusamstarfinu“.
Björn var síðan spurður í viðtalinu hvort það skipti einhverju máli við þessa ákvörðun að umsækjandinn Ólafur Börkur væri frændi forsætisráðherrans?
„Björn Bjarnason: Það eru ómálefnanlegar ástæður, það er ómálefnanlegt af þér að spyrja á þessum forsendum og það væri ómálefnanlegt af mér að taka ákvörðun um það á þessum forsendum. Ég tók ákvörðunina á málefnanlegum forsendum, þess vegna er hún hafin yfir gagnrýni.“
Umboðsmaður Alþingis beinir þeim tilmælum til ráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst væri í álitinu við undirbúning og veitingu embætta hæstaréttardómara.
Þar segir m.a. í reifun málsins: „ að við val úr hópi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara yrði fyrst og fremst að gera þá kröfu að umsækjandi hefði víðtæka og almenna lögfræðilega menntun og þekkingu þannig að hann gæti, og þá í ljósi starfsferils síns, tekist á við þau verkefni sem Hæstarétti væri falið að lögum að sinna“.
„Umboðsmaður [tekur] fram að ekki yrði fullyrt af sinni hálfu að ráðherra gæti ekki ákveðið að leggja áherslu á þekkingu umsækjenda á ákveðnu réttarsviði við val í embætti hæstaréttardómara.“ Það yrði þó að byggja á traustum grunni enda verið að skipa mann í embætti hjá sjálfstæðum handhafa ríkisvaldsins, sbr. rit Montesquieus „De l´Esprit des Lois“ um kenningar um þrígreiningu ríkisvaldsins er kom út árið 1748 og því verði að gera strangar kröfur til dómsmálaráðherra.
Í reifun á áliti umboðsmanns segir síðan: „[A]ð á dómsmálaráðherra hafi hvílt sú almenna skylda að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara yrði skipaður í það. [...] [A]ð ráðherra hefði tæplega verið unnt að ganga út frá því, þegar hann tók afstöðu til fyrirliggjandi umsókna, að þær ásamt fylgigögnum gæfu heildstæða mynd af þekkingu umsækjenda á Evrópurétti. [...] [A]ð rétt hefði verið að afla upplýsinga um hvort umsækjendur hefðu sérstaka þekkingu á þessu réttarsviði og eftir atvikum að hvaða marki reynt hefði á slíka þekkingu í störfum þeirra. Það [væri] því afstaða umboðsmanns að málið hefði ekki verið upplýst nægjanlega hvað þetta varðar áður en ákvörðun var tekin um hver yrði skipaður í embættið og málsmeðferðin að þessu leyti hefði því ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. [...] [J]afnframt að á hefði skort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um hvernig staðið var að samanburði milli umsækjenda um önnur atriði sem ætla yrði að dómsmálaráðherra hefði litið til samkvæmt rökstuðningi hans til umsækjenda.“
Um þessa niðurstöðu segir Björn Bjarnason, í Morgunblaðinu í dag: „Nú liggja fyrir fræðilegar vangaveltur og ábendingar á grunni þeirra frá umboðsmanni sem mér finns sjálfsagt að menn velti áfram fyrir sér og ræði.“
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í fyrrnefndu viðtali [20.8. 2003] við fréttamann Sjónvarps að hann hafi tekið „ákvörðunina á málefnanlegum forsendum, þess vegna er hún hafin yfir gagnrýni“. Ákvörðun ráðherrans stendur og hún er lögleg, en málefnalegar forsendur Björns voru brot á lögum, sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarregla) nr. 37/1993.
Af þessu má leiða að gagnrýnin á málefnalegar forsendur sé ekki hafin yfir gagnrýni, heldur hafi gagnrýni á málefnalega forsendu dómsmálaráðherra verið þörf og að dómsmálaráðherra sé nú sjálfur tilbúinn að velta fyrir sér málefnalegri gagnrýni, um málefnalegar forsendur, og ræða hana af hreinskilni. Þessu viðhorfi ráðherrans ber að fagna.
miðvikudagur, maí 05, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli