Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, mun líklegast gera grein fyrir atkvæði sínu í dag við afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins. Miklar líkur eru til að þar muni hann telja lögin vera brot á stjórnarskrá, ef marka má málflutning hans undanfarnar vikur, og að forseta lýðveldisins sé hollast að undirrita ekki lögin.
Fyrir ekki svo mörgum dögum lagði þessi sami annars ágæti þingmaður til að EES-samningurinn yrði kannaður, ekki síst framkvæmd, þar eð ekki sé lengur við unað hvernig þróun hans hefur orðið. Þar komi einnig til að málið allt hafi verið umdeilt á meðal fræðimanna og að umdeilanlegt sé að samningurinn rúmist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar. Það sorglega er að Össur skyldi ekki skynja að varnaðarorð fræðimanna öllum tímum ber að hafa í huga, einnig þegar viðkomandi er í stjórnarmeirihluta líkt var staðreyndin árið 1992. Hér hefur þingmaðurinn því horfið frá fyrri afstöðu til málsins.
Í nefndum EES-samningi var stigið stórt skref í átt að því markaðshagkerfi sem þjóðfélagið hrærist í í dag, skref sem felur það í sér að ríkið eigi ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og að virk samkeppni sé fyrir hendi. Meginhlutverk ríkisins sé því jafnan að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á viðkomandi sviði og að reglunum sé fylgt. En að þó kunni á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um þætti sem nauðsynlegir eru til að efla atvinnuvegi og að tryggja þjóðfélaginu ákveðin lífsgæði.
Ef ráða ætti Össuri Skaphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, heilt þá fær hann í dag enn einn séns. Hann verður „frjáls“ að lýsa því yfir: „að samþykkt laganna sé nauðsynleg“, enda yfirlýst markmið að varðveita fjölbreytni og hamla gegn neikvæðum áhrifum samþjöppunar á sviði fjölmiðlunar og takamarka áhrif sem eitt fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa getur haft í einni eða fleiri greinum fjölmiðlunar. Þessu getur Össur ekki með góðu móti hallmælt, enda annálaður baráttumaður gegn samþjöppun á öllum sviðum. Spurningin er hvort að grundvallarsjónarmiðum markaðshagkerfisins séu fótum troðin með samþykkt fjölmiðlalaganna. Hvort að ekki einasta „ítalskir bílasalar“ geti fellt sig við jafn stranga löggjöf á einstaka atvinnuveg?
Því er til að svara að hið sérstaka eðli fjölmiðla og mikilvægi þeirra fyrir lýðræðislega umræðu og menningarlega fjölbreytni í þjóðfélaginu er grunnur þeirra lögmætu markmiða sem stjórnvöld geta byggt á aðgerðir sem gera strangari kröfur um eignarhald til aðila á fjölmiðlamarkaði en í annarri starfsemi. Það er viðurkennt að samkeppnislöggjöf eigi að setja strangari skorður við samruna á fjölmiðlamarkaði en í annarri starfsemi. Þess vegna er það frumvarp sem verður að lögum í dag að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í skýrslu nefndar um eignarhald á fjölmiðlum.
En í henni segir: „Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.“
Á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi í dag er sú staða að Norðurljós hf. á Íslenska útvarpsfélagið ehf. sem rekur stöðvar sem hafa 44% af hlustun fyrir hljóðvarp og 37% af áhorfi fyrir sjónvarp. Þá á Norðurljós Frétt ehf. sem gefur út Fréttablaðið sem er útbreiddasta blað landsins með daglegan 69% lestur og DV sem lesið er af 17% landsmanna daglega. Stærsti einstaki hluthafi í Norðurljósum hf. er Baugur Group hf. sem á 29,9%.
Með frumvarpinu er aðeins leitast við að tryggja að við lögbundna og nauðsynlega úthlutun ríkisins á útvarpsleyfum séu þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins um að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði hafðar í heiðri. Lögin munu aðeins ná til þeirra sviða þar sem ríkið hefur nú þegar aðkomu að fjölmiðlamarkaði. Lögin ganga ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni að ná fram hinu lögmæta markmiði og tryggja að sjónarmið um fjölbreytni séu meðal þess sem haft er í huga við úthlutun leyfa.
Það gildir öðru máli um dagblöð en útvarp vegna þess að starfsemi útvarps byggir á nauðsynlegri úthlutun ríkisvaldsins á útvarpsleyfum, sem eru takmörkuð gæði, sem er nú þegar úthlutað til takmarkaðs tíma. Engin úthlutun takmarkaðra gæða á dagblaðamarkaði réttlætir svo víðtæka takmörkun á tjáningarfrelsi (og atvinnufrelsi) eins og fólgin væri í því að setja ákveðin eignarhaldsskilyrði gagnvart eigendum dagblaða. Löng lýðræðishefð er fyrir því að rétturinn til útgáfu dagblaða er ótakmarkaður.
Afstaða Össurar Skarphéðinssonar, og félaga hans, ætti að grundvallast á því að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hérlendis sé komin yfir þau mörk sem talist geta viðunandi þegar miðað er við alþjóðlega mælikvarða. Þessu hefur hann sjálfur haldið fram í þingræðum. Það eru því fullkomlega málefnalegar forsendur fyrir lagasetningu með þessum hætti og skýrri yfirlýsingu af hans hendi að afstaða hans sé að styðja málið.
mánudagur, maí 24, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli