Frá 20. september s.l. hafa samningsaðilar í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga leitast við að ná saman um kaup og kjör. Krafan um að viðsemjendur nái nú niðurstöðu er skiljanleg, ekki síst fyrst og fremst barnanna vegna. Er réttur þeirra ekki að öllu leyti fyrir borð borin með áframhaldandi stöðu, þ.e. að í dag skuli vera 39. dagur í verkfalli grunnskólakennara. Þær raddir sem spáðu fyrir um löngu verkfalli hafa svo sannarlega haft rétt fyrir sér. Það eru um 4.500 kennarar frá störfum og kennsla legið niðri hjá rúmlega 45 þúsund skólabörnum á aldrinum 6 til 16 ára. Kennarar buðum sveitarfélögunum að skoða þá hugmynd að semja út skólaárið, þ.e. að gerður yrði stuttur samningur með 15 til 16 prósenta raunhækkun, og þar af 6,6 prósenta kauphækkun. Því var hafnað.
Kennarar hafa staðið fastir fyrir í baráttunni, jafnvel gengið það langt að banna aðgang að skólastofum, þannig að ekki sé minnsta smuga á því að sækja þangað nauðsynlegustu námsgögn, sem nemendur hafa jafnvel greitt fyrir. Frá því verður hins vegar ekki litið að jafn langt verkfall er taktlaust, sem bitnar á saklausum aðilum, börnunum, þau eru fórnarlömbin.
Kennarar eiga að hafa góð laun og það yrði mikið fagnaðarefni ef hægt væri að ná saman um kjör fyrir mánudaginn, samningsaðilar verða því að ná saman, líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi er undir. Enda segi í lögum um hlutverk grunnskólans, að í samvinnu við heimilin eigi skólinn að búa nemendur sína undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Auk þess eigi starfshættir skólans að mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi, þar sem temja skuli nemendum víðsýni. Efla eigi skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skuli einnig veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og að þeir temji sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið eigi að leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Þessu mikilvæga hlutverki grunnskólanna má ekki missa sjónir af.
Nýjustu hugmyndirnar í kennaradeilunni um breytt launakerfi kennara hafa fallið í grýttan jarðveg hjá formanni menntamálanefndar Alþingis. Hann metur það svo að afleiðingarnar yrðu kollsteypa fyrir efnahagslífið.
Rök hníga því í þá átt að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé líklegasta lausnin.
fimmtudagur, október 28, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli