Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, hefur lagt fram til kynningar frumvarpsdrög til breytinga á skipulagi samkeppnisyfirvalda og neytendamála. Lagt er til að Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa leggist af í núverandi mynd en að sett verði á stofn Neytendastofa sem skuli starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu, mælifræði og rafmagnsöryggismála. Neytendastofu verður og ætlað að annast framkvæmd laga um órétta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins. Einnig skuli unnið að stefnumótun á sviði neytendamála, auk þess sem stofnunin skal beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á því sviði. Þá skal Neytendastofa annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði neytendamála.
Þá er lagt til að skipuð verði sérstök áfrýjunarnefnd neytendamála, þ.e. úrræði til að áfrýja stjórnvaldsákvörðunum teknum af Neytendastofu. Mikilvægt er að slík úrræði séu áfram heimil, enda geta ákvarðanir Neytendastofu verið íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila, sbr. sambærileg ákvæði í núgildandi lögum um Samkeppnisstofnun. Ákvörðunum Löggildingarstofu, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, er ekki heimilt að skjóta til æðra stjórnvalds samkvæmt núgildandi lögum. Neytendaréttur mun því verða ríkari með ofangreindum hugmyndum viðskiptaráðherra.
Nýmæli í frumvarpsdrögunum lýtur að stofnun embættis „talsmanns neytenda,“ sem hafi það hlutverk að taka við kvörtunum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum. Talsmanni neytenda verður hins vegar ekki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála, né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Sú vinna verður í höndum Neytendastofu. Þó svo að talsmaður neytenda muni starfa í tengslum við starfsemi Neytendastofu þá verður sjálfstæði hans að fullu tryggt og hann mun geta nýtt starfsmenn Neytendastofu sér til aðstoðar við dagleg störf og undirbúning mála.
Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á að vegna vaxandi fákeppni á ýmsum sviðum þurfi að koma til aukin neytendavernd og mun öflugra eftirlit með þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Þessa sér stað í ofangreindum hugmyndum Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra.
Einn af öflugri liðsmönnum Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður, hefur bent á að styrkja þurfi stöðu neytenda á markaði, enda hafi hún verið veik og við áratugum á eftir nágrannaþjóðunum í neytendavernd og í því að tryggja neytendarétt. Það er því ánægjulegt að vita til þess að Samfylkingin ætli sér að flytja þingsályktun er lítur að stofnun talsmanns neytenda, ekki síst í ljósi þess að nokkrum dögum áður kynnti viðskiptaráðherra ofangreint stjórnarfrumvarp sama efnis.
Það verður að teljast mjög fátítt að nokkrum dögum eftir stjórnarmeirihlutinn hefur kynnt brýnt þjóðfélagsmál skuli stjórnarandstaðan kynna nákvæmlega sama mál. Er þá eftir allt saman ekki svo mikill áherslumunur á flokkum í íslenskum stjórnmálum. Þórunn og félagar ættu því að kanna rækilega möguleika á „þjóðstjórn“ við flutning málsins á Alþingi.
fimmtudagur, október 14, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli