fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Er Seðlabankinn að bregðast?


Ungum framsóknarmönnum kemur ekki á óvart sú hugmynd Þórólfs Matthíassonar, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, að leggja til að Seðlabankinn athugi hvort ekki eigi að hækka bindiskyldu viðskiptabankanna og draga þannig úr útlánum þeirra.

Í ályktun, á fundi miðstjórnar Sambands ungra framsóknarmanna, að Bifröst í Borgarfirði 8. október 2005 s.l., segir „að Seðlabankinn eigi að nýta öll vopn sín í hagstjórninni en ekki bara stýrivaxtabreytingar. Stjórnun efnahagslífsins með stýrivöxtunum er takmarkað tæki til að hafa áhrif á gengi og peningaflæði. Ungir framsóknarmenn leggja til að Seðlabankinn nýti í auknum mæli heimild sína til að aðlaga bindiskyldu bankanna að aðstæðum á markaði hverju sinni. Sú útlánaaukning er að kynda undir efnahagslífinu um þessar mundir er að miklum hluta til komin vegna aukinna útlána viðskiptabankanna. Er því eðlilegt að Seðlabankinn hafi áhrif á hana með því að auka eða minnka bindiskyldu bankanna auk þess að bregðast við sveiflum í gengi krónunnar með gjaldeyrisviðskiptum.“

En Þórólfur telur að Seðlabankinn geti gert sitt til að ná verðbólgunni niður, og á þá ekki bara við enn frekari stýrivaxtahækkanir, sem leggi alla ábyrgðina á útflutningsgreinarnar, sem eigi í nægum vanda vegna hás gengis krónunnar. Þórólfur segist vilja sjá Seðlabankann athuga hvort ekki væri hægt að hækka bindiskyldu og draga þannig úr útlánum bankanna því þau hafi aukist mjög á mikið á undanförnu ári. Útgáfa skuldabréfa í krónum erlendis hefur aukist um ellefu milljarða króna á nokkrum dögum. og 111 milljörðum alls. Dollarinn er nú kominn undir 60 krónur og Evran í 72 krónur og hefur ekki verið ódýrari síðan í júní árið 2000.

Í vegvísi Landsbankans má lesa að síðast í gær stækkaði „Austurríska ríkið skuldabréfaflokk sinn í íslenskum krónum sem gefinn er út til eins árs um 8 ma.kr. í morgun. Stærð flokksins er nú 20 ma.kr. og er hann þar með stærri en ríkisbréfaflokkurinn RB10. Austurríska ríkið er næst stærsti útgefandi erlendra skuldabréfa í íslenskum krónum, en Rabobank í Hollandi hefur gefið út 21 ma.kr. Útgáfa Rabobank er í tveimur skuldabréfaflokkum, 15 ma.kr. til 1½ árs og 6 ma.kr. til eins árs.

Útgáfa Austurríkis í [gær] er stærsta einstaka útgáfan erlendis á skuldabréfum í íslenskum krónum, en fram til þessa hafði ekki verið tilkynnt um meira en 3 ma.kr. í einu. Þessar útgáfur hófust í lok ágúst þegar að Eksportfinans í Noregi tilkynnti um 3 ma.kr. útgáfu sem var síðan stækkuð í 6 ma.kr. síðar um daginn og í 9 ma.kr. nokkrum dögum síðar.“

Engin ummæli: