mánudagur, nóvember 07, 2005

Mannanöfn og fellibyljir.


Fellibyljum eru gefin mannanöfn til að auðvelda umræðu um þá. Nafngift er auk þess talin draga úr líkum á misskilningi við miðlun viðvarana ef margir fellibyljir eru samtímis á ferð.

Fyrr á tímum var algengt að fellibyljir væru nefndir eftir dýrlingum, en heimildir eru um kvenmannsnöfn frá 19. öld. Árið 1953 hóf Bandaríska veðurstofan að gefa fellibyljum kvenmannsnöfn og síðar tók Alþjóða veðurfræðistofnunin við útgáfu nafnalista fyrir fellibylji. Á 8. áratugnum þótti ekki lengur viðeigandi að nefna fellibylji einungis eftir konum og 1978-1979 voru karlmannsnöfn tekin upp til jafns við kvenmannsnöfn.

Í gangi eru 6 listar með nöfnum yfir fellibylji á Atlantshafinu sem notaðir eru til skiptis. Þannig er listinn sem notaður er árið 2005 sá sami og notaður var árið 1999 og verður notaður aftur 2011. Nöfnum á þessum listum er aðeins breytt ef fellibylur hefur valdið stórfeldu eignartjóni eða mannskaða þannig að ekki þyki við hæfi að nota það aftur. Dæmi um nöfn sem lögð hafa verið af eru „Andrew“ en hann gekk yfir Bahamaeyjar, Suður-Flórída og Louisíana árið 1992, og „Mitch“ sem gekk yfir Mið-Ameríku árið 1998. Ólíklegt verður að telja að nafnið „Katrina“ verði haft áfram á listanum eftir það mikla tjón sem hún olli í lok ágúst 2005. Á heimasíðu Bandarísku fellibyljastofnunarinnar er hægt að skoða þessa lista.“ – Af vísindavefnum.

Engin ummæli: