föstudagur, janúar 27, 2006

Afmælis Mozarts fagnað

Mikil hátíðahöld eru í Salzborg í Austurríki í dag þegar þess er minnst að í dag eru 250 ár liðin frá því að tónsnillingurinn Wolfgang Amadus Mozart fæddist. Borgaryfirvöld hafa eytt hundruðum miljóna króna í að gera upp söfn borgarinnar, í sýningar og viðamikið tónleikahald. Mozarthátíðin á að standa í eitt ár.

Í tilefni dagsins hafa fjölmargar sjónvarpsstöðvar sameinast um útsendingu helgaða tónskáldinu. Útsendingin varir í 24 tíma og hófst í Sjónvarpinu nú klukkan 7. Sjónvarpið sendir út frá hátíðinni til klukkan 15 í dag, og svo aftur frá miðnætti til morguns. Klukkan tólf á hádegi verður bein útsending frá tónleikum sem fara fram í Forboðnu borginni í Peking. (Heimild: ruv.is)

Hér fylgir einnig með texti á ensku sem er með tengingar á mjög góðar upplýsingasíður.

Wolfgang Amadeus Mozart, the genius musician, was born 250 years ago today and the world is celebrating his birth and his music. In Salzburg, where he was born, dignitaries from around the globe will attend a giant birthday bash this evening. Over the next year, Salzburg will host 260 all-Mozart concerts and 55 Masses devoted to his sacred music. In New York this evening, the Philharmonic will debut a three-week "Magic of Mozart" tribute, and the Metropolitan Opera will present a production of The Magic Flute.

föstudagur, janúar 20, 2006

HJÓLREIÐABRAUT!!

„Frábært! Vonandi er þetta upphaf að nýjum áherslum í borginni. Hún er 96 metra löng, rétt lögð einstefnubraut, með litlum hellusteinum sem lagðir eru í tígul á ferðastefnu. Það er því lítil hætt á því að hjólreiðamaður missi stjórn á hjóli sínu þó steinarnir gangi til, sígi eða lyftist. Brautin er þráðbein og liggur milli akvegar og gangstéttar. Kantar eru lágir svo þeir skapa ekki verulega slysahættu. Þeir gagnast vel til að bægja frá skít sem stafar af vetrarumferð bíla. Hjólreiðafólk þarf því væntanlega ekki að vaða þykkt tjöru- og drullulag á hjólabrautinni.

En hönnunin er ekki gallalaus. Einhverra hluta vegna fékk hjólreiðabrautin ekki áberandi litaða steina eins og tíðkast víða erlendis. Þvert á móti þeir eru svartir. Í Danmörku og Noregi eru hjólreiðabrautir bláar en rauðar í Þýskalandi og Hollandi. Litað malbik í stað steina hefði verið mun betri kostur. Hér á landi myndi rautt henta vel. En borgaryfirvöld hafa svo sem ekki haft áhuga á því að ræða þessa hluti. Hér á landi virðast rauðir steinar vera notaðir til skrauts, eða í tilfelli Laugavegs til að afmarka einhverskonar gangbraut sem öllum börnum er vanalega kennt að sé „sebrabraut“ með hvítum lit!

Já, hvar er „sebrabrautin“ sem ætti að vera við enda hjólabrautarinnar, í raun skírt og greinilega yfir bæði hjóla- og gangbrautina? Er það kannski alræði bílana sem svífur yfir strætum Laugavegs eins og annars staðar í Reykjavík? Tengingin við Snorrabraut er ákaflega klúðursleg en það var ekki gerður flái á gangstéttina fyrir þá hjólaumferð sem kemur frá Hlemmi. Hugsanlega áttu hönnuðirnir í erfiðleikum með að tvinna þrennt saman, akandi, gangandi og hjólandi. Íslenska forgangsreglan í umferðinni við hönnun umferðarmannvirkja er einföld og hljómar svona: Bílar hafa ætíð forgang. Gangandi eiga alltaf að passa sig (svokölluð „varúðarregla“) og hjólreiðamenn eiga ekki að þvælast fyrir, hvorki gangandi né akandi. Myndin fyrir ofan sannar þessa reglu.

Þess ber þó að geta að eftirlitsaðilinn með þessari framkvæmd var frá Línuhönnun. Ekki töldu þeir rétt að hafa sebrabraut á þeim stað sem áður er getið. „Ofnotkun á gangbrautum og gangbrautir á röngum stöðum getur beinlínis verið hættulegt. Laugavegurinn er slík gata að betra er að stuðla að eðlilegu samspili milli mismunandi ferðamáta líkt og hefur tíðkast lengi á Laugaveginum.“
Merkingin á brautinni er farin að láta á sjá. Merkingin er því annað hvort ónýt eða hjólabrautin mikið notuð.“

(Heimild: hjol.org)

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Stefnuskrá Tímans.

Undirritaður átti gott samtal við fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins fyrir síðustu helgi, og var erindið tengt máli er hefði getað fallið undir störf hans sem ráðherra á sínum tíma. Í framhaldi spannst upp skemmtilegt spjall og rifjaðist eitt og annað upp frá gamalli tíð.

Í framhaldi af þessu samtali hef ég svona til gamans skrifað hér upp stefnuskrá Tímans og mun bæta við hana þegar stund gefst til. Það er gaman að geta grúskað aðeins og t.d. að rifja upp gömul og góð gullkorn úr sögunni. Njótið vel. E.G.E.


Tíminn, Reykjavík, 17. mars 1917. 1. tbl. 1. árg.

Inngangur.

Um nokkur undarfarin misseri hafa verið á döfinni samtök allmargra eldri og yngri manna af ýmsum stéttum víðsvegar um land, sem stefnt hafa að því, að íslenska þjóðin skiptist framvegis fremur en hingað til í flokka eftir því, hvort menn væru framsæknir eða íhaldssamir í skoðunum. Þessir menn voru óánægðir með árangurinn af gömlu flokkaskiptingunni. Þeir sáu menn sem verið höfðu samherjar í gær, verða fjendur í dag. Og þegar til athafna kom í þinginu, gekk illa að halda þessum flokksbrotum saman um ákveðin mál. Í innanlands málum a.m.k. var ekki hægt að greina nokkurn verulegan stefnumun.

Af þessu öllu hefir mjög dvínað trúin á lífsgildi gömlu flokkanna. Og svo mjög hefir kveðið að þessu trúleysi, að tvö nafnkenndustu stjórnmálablöð landsins, hafa eigi alls fyrir löngu viðurkennt, að gamla flokkaskipunin væri úrelt og eigi til frambúðar.

En þjóð sem býr við þingræði getur ekki án flokka verið. Og stjórnarhættir og framkvæmdir í þingræðislöndum fara mjög eftir því, hvort flokkarnir eru sterkir og heilbrigðir, eða sjúkir og sjálfum sér sundurþykkir. Þar sem flokkarnir eru reikulir og óútreiknanlegir, eins og roksandur á eyðimörk, verða framkvæmdirnar litlar og skipulagslausar. Því að hver höndin er þar upp á móti annarri. Heilbrigð flokkaskipun hlýtur að byggjast á því, að flokksbræðurnir séu andlega skyldir, séu samhuga um mörg mál en ekki aðeins eitt, og það þau málin sem mestu skipta í hverju landi.

Erlendis hefur reynslan orðið sú í flestum þingræðislöndunum, að þjóðirnar skiptast í tvo höfuðflokka framsóknarmenn og íhaldsmenn. Að vísu gætir alla jafna nokkurrar undirskiptingar, en þó marka þessir tveir skoðunarhættir aðallínurnar. Og svo þarf einnig að vera hér á landi, ef stjórnarform það sem þjóðin býr við, á að verða sæmilega hagstætt landsfólkinu.

Þetta blað mun eftir föngum beitast fyrir heilbrigðri framfarastefnu í landsmálunum. Þar þarf að gæta samræmis, hvorki hlynna um of að einum atvinnuveginum á kostnað annars, né hefja einn bæ eða eitt hérað á kostnað annarra landshluta, því að takmarkið er framför alls landsins og allrar þjóðarinnar.

Að þessu sinni verður ekki farið ítarlega út í einstök stefnuatriði, en aðeins bent á fjögur mál sem blaðið mun láta til sín taka, og lítur það svo á, að heppileg úrlausn þeirra geti verið hin besta undirstaða allra annarra framfara.

Er þar fyrst að nefna bankamálin, sem eru og hafa verið í ólagi, svo megnu að seðlaútgáfurétturinn hefir af þinginu verið athentur erlendu gróðafélagi. Í því máli ber þrenns að gæta:

  1. Að ekki verði gengið lengra en orðið er í því, að veita hlutabankanum sérréttindi.
  2. Að bankarnir hafi í náinni framtíð nægilegt veltufé handa landsmönnum.
  3. Að fyrirkomulag bankanna sé heilbrigt, og að allar stéttir og allir landshlutar eigi jafn hægt með að hagnýta sér veltufé þeirra.

Um samgöngumálin verður spyrnt á móti því að nokkurt félag, innlent eða útlent, fái einkarétt til að eiga samgöngutæki hér á landi. Hefir áður borið á þeirri hættu, og á orði að sá draugur muni endurvakinn nú með vorinu. Hins vegar verður lögð áhersla á að koma samgöngunum á sjó í viðunarlegt horf, og að jafnframt verði samgöngurnar á landi bættar svo sem efni þjóðarinnar frekast leyfa.

Í verslunarmálum, mun blaðið fylgja fram samvinnustefnunni til hins ýtrasta, og gera sér far um að benda á hvar og með hverjum hætti sú hreyfing geti orðið þjóðinni til mestra nota.

Að því er snertir andlegar framfarir mun verða lögð stund á að banda á hverjir þættir séu sterkir og lífvænlegir í íslenskri menningu, og haldið fram máli þeirra manna sem vilja nema af öðrum þjóðum, þar sem þær standa Íslendingum framar, og þá kostað kapps um, að numið sé á hverju sviði af þeim, sem færastir eru og lengst á veg komnir.

En meðan hverskonar hættur og ófarnaður vofir þjóðinni af völdum heimsstyrjaldarinnar, mun blaðið leggja meiri áherslu á að ræða bjargráð yfirstandandi stundar, fremur en framtíðarmálin.

Er þar einkum tveggja hluta að gæta, fyrst að einskis sé látið ófreistað til þess að tryggja landinu nægilegan skipakost, og í öðru lagi að matvöruaðdrættir frá útlöndum og skipting matvælanna hér á landi, verði framkvæmd með þeirri réttvísi og hagsýni, sem frekast verður við komið.

Einmitt þessar sérstöku ástæður eru þess valdandi, að blaðið hefur göngu sína nokkru fyrr en ætlað var upphaflega, og áður en sá maður, sem búist er við að verði framtíðarritstjóri þess, getur flust hingað til bæjarins. Fyrir því stýri því nú í byrjun einn af eigendum þess, Guðbrandur Magnússon bóndi frá Holti undir Eyjafjöllum, þótt eigi geti hann sinnt því starfi nema skamma stund.

Nafnið á blaðinu þarf naumast skýringar við. Þó má taka það fram, að eins og það er ekki eins nútíð og framtíð, heldur einnig fortíðin sem felst í hugtakinu tíminn, þannig mun og blaðið hafa það fyrir augum sem læra má af liðinni þjóðarævi, til leiðbeiningar í nútíð og framtíð.

Visindavefurinn.

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands og ritstjóri Vísindavefsins, hefur verið tilnefndur til Descartes-verðlauna Evrópusambandsins fyrir vísindamiðlun árið 2005. Er hann í hópi með 23 öðrum sem tilnefndir hafa verið verið. Menntamálaráðuneytið hafði bent á Þorstein vegna verðlaunanna en það færði honum sérstakt heiðursskjal nýverið í tilefni af fimm ára afmæli Vísindavefsins.

Í tilkynningu frá HÍ kemur fram að tilnefningin sé mikill heiður fyrir Þorstein og það starf sem unnið er á Vísindavef Háskóla Íslands. Þorsteinn hafi í áratugi lagt sig fram um að miðla vísindum til almennings og barna á áhugaverðan og aðgengilegan máta. Velgengni Vísindavefsins ber þess ótvíræðan vott að áhugi á vísindum meðal almennings er mun meiri en margir halda, segir í tilkynningunni.

Heimild: mbl.is

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Og enduðu í drápi!!

Ég geri pistil Hjálmars Árnasonar, alþingismanns, að mínum og birti hann hér:

OG ENDUÐU Í DRÁPI!

Þann 9. febrúar 2004 setti ég pistil inn á þessa síðu og tilkynnti að fjölskyldan vildi ekki lengur fá DV inn á heimilið. Tilefnin voru svo sem mörg en þann dag fengum við einfaldlega nóg – nóg af ærumeiðingum og mannorðsmorðum þeirrar blaðamennsku er þá hafði haldið innreið sína í blaðið.

Tekið skal fram að fjölskylda mín hafði í sjálfu sér sloppið við illkvittni ritstjórnarstefnunnar en okkur blöskraði hvernig veist var að fólki dag eftir dag með svívirðilegum hætti. Með dylgjum, hæpnum fullyrðingum og þar sem blaðið vék lögum og dómstólum til hliðar en settist sjálft í sæti þeirra. Nokkru síðar hætti ég að svara spurningum blaðamanna DV – af sömu ástæðu. Þrátt fyrir nokkrar pillur í refsingarskyni af hálfu blaðsins hef ég haldið fast við báðar ákvarðanir enda létt að fylgja samvisku sinni.

Við eldhúsborðið höfum við annað slagið velt upp þeim áhrifum sem þessi ógeðslega blaðamennska kynni að hafa á einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Flestir kannast ugglaust við sorgleg dæmi um slíkan harmleik af völdum blaðsins. Í dag gengu þeir þó endanlega fyrir björg.

Ég tek undir með þeim sem fullyrða að blaðið hafi drepið mann – í bókstaflegri merkingu þess orðs. Myndbirting á forsíðu af GRUNUÐUM manni með viðeigandi fullyrðingum reyndist að þessu sinni vera dauðadómur án réttarmeðferðar eða laga. DV fór yfir strikið og ekki einasta greip til mannorðsmorðs heldur morðs í eiginlegri merkingu. Og það er stórt orð en ekki verður séð annað en full innistæða sé þar að baki. Þyngra er en tárum taki að lýsa samúð með ástvinum hins myrta. Þeirra skaði verður aldrei bættur. En atvik þetta hlýtur að vekja upp nokkrar spurningar.

1. Hvernig hyggst ritstjórinn axla sína ábyrgð?
2. Hvernig hyggjast eigendur blaðsins axla sína ábyrgð?
3. Hvernig hyggjast auglýsendur og kaupendur blaðsins axla sína ábyrgð?
4. Hvernig hyggjast íslenskir neytendur bregðast við gagnvart þeim er ábyrgð bera?
5. Hvernig hyggst blaðamannastéttin bregðast við?
6. Getur verið að DV hafi teygt viðurkennd velsæmismörk íslenskrar blaðamennsku lengra en góðu hófi gegnir og þannig haft bein/óbein áhrif á þau mörk í öðrum fjölmiðlum?
7. Er ástæða til að leggja fram formlega kæru gagnvart gjörningsmönnum og láta dómstóla meta sekt þeirra?

Svör við þessum spurningum hljóta að birtast á næstu dögum og vikum. Sjálfur mun ég gefa mér góðan tíma til að leita þeirra – þegar og ef mér rennur reiðin.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

„Minning þess víst skal þó vaka.“

Gleðilegt árið. Í mínum huga er ekki nokkur spurning að árið 2005 hefur að geyma merka atburði, enda hvað er mikilvægara en það sem maður sjálfur er að sýsla hverju sinni.

Í hversdagslífi:
1. Ekki lengur ungur maður, sbr. lagaboð 2.6.
2. Átakið sem fór í vaskinn, eins og ég var nú ...
3. Þátttaka í PolitikenCup í júlí.
4. Sjúkrahúsvist í tvær nætur á JÓLUNUM!!
5. Reyna að byrja aftur í átakinu.

Í pólitíkinni:
1. Flokksþing framsóknarmanna í lok febrúar á Hotel Nordica.
2. Kosningaferð til London og Bristol í byrjun maí.
3. Plottfundur með ónefndum þingmanni, stóð yfir á fimmtu klst.
4. Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.
5. Plottfundur með sendiherra ónefnds ríkis, klst. langur fundur.