Undirritaður átti gott samtal við fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins fyrir síðustu helgi, og var erindið tengt máli er hefði getað fallið undir störf hans sem ráðherra á sínum tíma. Í framhaldi spannst upp skemmtilegt spjall og rifjaðist eitt og annað upp frá gamalli tíð.
Í framhaldi af þessu samtali hef ég svona til gamans skrifað hér upp stefnuskrá Tímans og mun bæta við hana þegar stund gefst til. Það er gaman að geta grúskað aðeins og t.d. að rifja upp gömul og góð gullkorn úr sögunni. Njótið vel. E.G.E.
Tíminn, Reykjavík, 17. mars 1917. 1. tbl. 1. árg.
Inngangur.
Um nokkur undarfarin misseri hafa verið á döfinni samtök allmargra eldri og yngri manna af ýmsum stéttum víðsvegar um land, sem stefnt hafa að því, að íslenska þjóðin skiptist framvegis fremur en hingað til í flokka eftir því, hvort menn væru framsæknir eða íhaldssamir í skoðunum. Þessir menn voru óánægðir með árangurinn af gömlu flokkaskiptingunni. Þeir sáu menn sem verið höfðu samherjar í gær, verða fjendur í dag. Og þegar til athafna kom í þinginu, gekk illa að halda þessum flokksbrotum saman um ákveðin mál. Í innanlands málum a.m.k. var ekki hægt að greina nokkurn verulegan stefnumun.
Af þessu öllu hefir mjög dvínað trúin á lífsgildi gömlu flokkanna. Og svo mjög hefir kveðið að þessu trúleysi, að tvö nafnkenndustu stjórnmálablöð landsins, hafa eigi alls fyrir löngu viðurkennt, að gamla flokkaskipunin væri úrelt og eigi til frambúðar.
En þjóð sem býr við þingræði getur ekki án flokka verið. Og stjórnarhættir og framkvæmdir í þingræðislöndum fara mjög eftir því, hvort flokkarnir eru sterkir og heilbrigðir, eða sjúkir og sjálfum sér sundurþykkir. Þar sem flokkarnir eru reikulir og óútreiknanlegir, eins og roksandur á eyðimörk, verða framkvæmdirnar litlar og skipulagslausar. Því að hver höndin er þar upp á móti annarri. Heilbrigð flokkaskipun hlýtur að byggjast á því, að flokksbræðurnir séu andlega skyldir, séu samhuga um mörg mál en ekki aðeins eitt, og það þau málin sem mestu skipta í hverju landi.
Erlendis hefur reynslan orðið sú í flestum þingræðislöndunum, að þjóðirnar skiptast í tvo höfuðflokka framsóknarmenn og íhaldsmenn. Að vísu gætir alla jafna nokkurrar undirskiptingar, en þó marka þessir tveir skoðunarhættir aðallínurnar. Og svo þarf einnig að vera hér á landi, ef stjórnarform það sem þjóðin býr við, á að verða sæmilega hagstætt landsfólkinu.
Þetta blað mun eftir föngum beitast fyrir heilbrigðri framfarastefnu í landsmálunum. Þar þarf að gæta samræmis, hvorki hlynna um of að einum atvinnuveginum á kostnað annars, né hefja einn bæ eða eitt hérað á kostnað annarra landshluta, því að takmarkið er framför alls landsins og allrar þjóðarinnar.
Að þessu sinni verður ekki farið ítarlega út í einstök stefnuatriði, en aðeins bent á fjögur mál sem blaðið mun láta til sín taka, og lítur það svo á, að heppileg úrlausn þeirra geti verið hin besta undirstaða allra annarra framfara.
Er þar fyrst að nefna bankamálin, sem eru og hafa verið í ólagi, svo megnu að seðlaútgáfurétturinn hefir af þinginu verið athentur erlendu gróðafélagi. Í því máli ber þrenns að gæta:
- Að ekki verði gengið lengra en orðið er í því, að veita hlutabankanum sérréttindi.
- Að bankarnir hafi í náinni framtíð nægilegt veltufé handa landsmönnum.
- Að fyrirkomulag bankanna sé heilbrigt, og að allar stéttir og allir landshlutar eigi jafn hægt með að hagnýta sér veltufé þeirra.
Um samgöngumálin verður spyrnt á móti því að nokkurt félag, innlent eða útlent, fái einkarétt til að eiga samgöngutæki hér á landi. Hefir áður borið á þeirri hættu, og á orði að sá draugur muni endurvakinn nú með vorinu. Hins vegar verður lögð áhersla á að koma samgöngunum á sjó í viðunarlegt horf, og að jafnframt verði samgöngurnar á landi bættar svo sem efni þjóðarinnar frekast leyfa.
Í verslunarmálum, mun blaðið fylgja fram samvinnustefnunni til hins ýtrasta, og gera sér far um að benda á hvar og með hverjum hætti sú hreyfing geti orðið þjóðinni til mestra nota.
Að því er snertir andlegar framfarir mun verða lögð stund á að banda á hverjir þættir séu sterkir og lífvænlegir í íslenskri menningu, og haldið fram máli þeirra manna sem vilja nema af öðrum þjóðum, þar sem þær standa Íslendingum framar, og þá kostað kapps um, að numið sé á hverju sviði af þeim, sem færastir eru og lengst á veg komnir.
En meðan hverskonar hættur og ófarnaður vofir þjóðinni af völdum heimsstyrjaldarinnar, mun blaðið leggja meiri áherslu á að ræða bjargráð yfirstandandi stundar, fremur en framtíðarmálin.
Er þar einkum tveggja hluta að gæta, fyrst að einskis sé látið ófreistað til þess að tryggja landinu nægilegan skipakost, og í öðru lagi að matvöruaðdrættir frá útlöndum og skipting matvælanna hér á landi, verði framkvæmd með þeirri réttvísi og hagsýni, sem frekast verður við komið.
Einmitt þessar sérstöku ástæður eru þess valdandi, að blaðið hefur göngu sína nokkru fyrr en ætlað var upphaflega, og áður en sá maður, sem búist er við að verði framtíðarritstjóri þess, getur flust hingað til bæjarins. Fyrir því stýri því nú í byrjun einn af eigendum þess, Guðbrandur Magnússon bóndi frá Holti undir Eyjafjöllum, þótt eigi geti hann sinnt því starfi nema skamma stund.
Nafnið á blaðinu þarf naumast skýringar við. Þó má taka það fram, að eins og það er ekki eins nútíð og framtíð, heldur einnig fortíðin sem felst í hugtakinu tíminn, þannig mun og blaðið hafa það fyrir augum sem læra má af liðinni þjóðarævi, til leiðbeiningar í nútíð og framtíð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli