föstudagur, janúar 20, 2006

HJÓLREIÐABRAUT!!

„Frábært! Vonandi er þetta upphaf að nýjum áherslum í borginni. Hún er 96 metra löng, rétt lögð einstefnubraut, með litlum hellusteinum sem lagðir eru í tígul á ferðastefnu. Það er því lítil hætt á því að hjólreiðamaður missi stjórn á hjóli sínu þó steinarnir gangi til, sígi eða lyftist. Brautin er þráðbein og liggur milli akvegar og gangstéttar. Kantar eru lágir svo þeir skapa ekki verulega slysahættu. Þeir gagnast vel til að bægja frá skít sem stafar af vetrarumferð bíla. Hjólreiðafólk þarf því væntanlega ekki að vaða þykkt tjöru- og drullulag á hjólabrautinni.

En hönnunin er ekki gallalaus. Einhverra hluta vegna fékk hjólreiðabrautin ekki áberandi litaða steina eins og tíðkast víða erlendis. Þvert á móti þeir eru svartir. Í Danmörku og Noregi eru hjólreiðabrautir bláar en rauðar í Þýskalandi og Hollandi. Litað malbik í stað steina hefði verið mun betri kostur. Hér á landi myndi rautt henta vel. En borgaryfirvöld hafa svo sem ekki haft áhuga á því að ræða þessa hluti. Hér á landi virðast rauðir steinar vera notaðir til skrauts, eða í tilfelli Laugavegs til að afmarka einhverskonar gangbraut sem öllum börnum er vanalega kennt að sé „sebrabraut“ með hvítum lit!

Já, hvar er „sebrabrautin“ sem ætti að vera við enda hjólabrautarinnar, í raun skírt og greinilega yfir bæði hjóla- og gangbrautina? Er það kannski alræði bílana sem svífur yfir strætum Laugavegs eins og annars staðar í Reykjavík? Tengingin við Snorrabraut er ákaflega klúðursleg en það var ekki gerður flái á gangstéttina fyrir þá hjólaumferð sem kemur frá Hlemmi. Hugsanlega áttu hönnuðirnir í erfiðleikum með að tvinna þrennt saman, akandi, gangandi og hjólandi. Íslenska forgangsreglan í umferðinni við hönnun umferðarmannvirkja er einföld og hljómar svona: Bílar hafa ætíð forgang. Gangandi eiga alltaf að passa sig (svokölluð „varúðarregla“) og hjólreiðamenn eiga ekki að þvælast fyrir, hvorki gangandi né akandi. Myndin fyrir ofan sannar þessa reglu.

Þess ber þó að geta að eftirlitsaðilinn með þessari framkvæmd var frá Línuhönnun. Ekki töldu þeir rétt að hafa sebrabraut á þeim stað sem áður er getið. „Ofnotkun á gangbrautum og gangbrautir á röngum stöðum getur beinlínis verið hættulegt. Laugavegurinn er slík gata að betra er að stuðla að eðlilegu samspili milli mismunandi ferðamáta líkt og hefur tíðkast lengi á Laugaveginum.“
Merkingin á brautinni er farin að láta á sjá. Merkingin er því annað hvort ónýt eða hjólabrautin mikið notuð.“

(Heimild: hjol.org)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæli með fleirum hjólabrautum ekki bara í borginni heldur allstaðar alveg nauðsynlegt annars er maður hvergi velkominn gangrbrautir eru fyrir gangandi en ekki hjólafólk....

Einar Gunnar sagði...

Ég er hjartanlega sammála þessu hjá þér. Ég hef kynnst því sjálfur að það eru fínar hjólabrautir meðfram strandlengju Kópavogs og Reykjavíkur, en ef farið er inn í hverfin þá eru engar lausnir að sjá. Það þarf því virkilega að taka á þessum málum inni í hverfunum sjálfum.

Hef séð lausnir sem eru fyrir hjólreiðafólk í Danmörku og Hollandi, við ættum tvímælalaust að horfa til þeirra.