Í fréttabréfi um húsaleigubætur, sem félagsmálaráðuneytið er nýhafið að gefa út, kemur fram að allt frá því að húsaleigubætur voru fyrst greiddar hefur verið töluverð aukning milli ára, en gríðarleg aukning varð milli áranna 2001 og 2002 í kjölfar breytinga á lögum um húsaleigubætur þar sem bótaréttur var aukinn. Enn er mikil aukning milli ára og er áætlað að um 25,8% raunaukning verði á greiddum bótum milli áranna 2002 og 2003.
Á sínum tíma þá mat Þjóðhagsstofnun að húsaleigubætur, fyrir upphafsárið 1995, kæmu þær til með að kosta ríki og sveitarfélög samtals um kr. 650 millj. Fjöldi bótaþega var áætlaður um 5.500 er myndi skiptast þannig að um 750 hjón fengju bætur, 1.400 einstæðir foreldrar og 3.300 einstaklingar. Áætlað var að um 22% hjóna á almennum leigumarkaði kæmu til með að fá bætur, 73% einstæðra foreldra og 58% einstaklinga. Þá taldi stofnunin að bætur kæmu til með að hækka tekjur hjóna og einhleypra að meðaltali um 10% og einstæðra foreldra um 17%.
Útborgun húsaleigubóta árin 1995 og 1996 varð lægri en áætlanir Þjóðhagsstofnunar höfðu gert ráð fyrir, en greiðslur fyrsta árið námu kr. 215 millj. Haft skal í huga að erfitt var að áætla nákvæmlega útborgun húsaleigubóta þar sem mikilvægar forsendur, eins og afkoma heimilanna, atvinnuþátttaka og atvinnuleysi, geta verið breytilegar frá einum tíma til annars. Sú staðreynd er einnig þekkt að af ýmsum ástæðum nýta ekki allir sér rétt til bóta; um getur verið að ræða vanþekkingu, ákveðið val eða viðkomandi hafi ekki til þess möguleika þegar leigusali hafnar þinglýsingu leigusamninga.
Húsaleigubótum er ætlað það tvíþætta hlutverk að koma á niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði hjá tekjulágum einstaklingum og jafnframt að draga úr þeim aðstöðumun sem í dag ríkir með tilliti til þess hvort um er að ræða eigendur eða leigjendur að íbúðarhúsnæði. Þannig er ætlað að stuðla að því að einstaklingar eigi meira val milli eignar og leigu og veita einstaklingum svigrúm til þess að vera á leigumarkaði á meðan verið er að byggja upp eigin sparnað til fasteignakaupa. Leigjendur eru sá hópur í þjóðfélaginu sem er að jafnaði tekjulægstur og eignalítill.
Í fyrstu lögum um húsaleigubætur var kveðið á um atriði sem girtu fyrir rétt til húsaleigubóta, þar var m.a. kveðið á um að réttur til bóta væri ekki fyrir hendi ef leiguíbúð væri í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags. Sá réttur er ekki lengur undanskilinn í lögunum.
Þegar litið er á flokkun húsnæðis þeirra er njóta húsaleigubóta kemur í ljós að stærsti hluti bótaþega býr í almennu leiguhúsnæði, eða um 49,5%, rúm 38% eru í félagslegum íbúðum, rúm 10% á námsgörðum eða heimavist og 2,5% á sambýlum.
Á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2003 hafa sveitarfélögin greitt um kr. 888 millj. í húsaleigubætur. Í endurskoðuðum greiðsluáætlunum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að greiddar verði um kr. 305 millj. á fjórða ársfjórðungi 2003. Í heildina er því gert ráð fyrir að greiddar verði um kr. 1.193 millj. í húsaleigubætur á árinu en í byrjun árs var gert ráð fyrir að um 1.164 m.kr. yrðu greiddar út. Húsaleigubætur hafa því stórhækkað og ekki síst eftir að þær urðu skattfrjálsar frá ársbyrjun 2002.
Í haust var kynnt mjög viðamikil könnun, framkvæmd af Gallup, um stöðu á húsnæðismarkaði í dag, þar kom m.a. fram að rúm 11% landsmanna er í leiguhúsnæði og eru það yngstu aldurshóparnir, 20 til 34 ára, þar fjölmennastir, eða rúm 20%. Jafnframt kom fram að 49% leigjanda telur sig vera í tímabundinni leigu og 41,5% telur sig vera leigjanda af nauðsyn.
Að frumkvæði stjórnvalda var hafið sérstakt átak til að auka framboð leiguhúsnæðis á árinu 2001, gert var rammasamkomulag um að byggðar yrðu 600 leiguíbúðir næstu fjögur árin til viðbótar almennum heilmildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða og var lögð áhersla á að auka framboð minni íbúða. Þessar heimildir Íbúðalánasjóðs hafa allar verið nýttar að fullu um land allt. Einnig var gert samkomulag við húsnæðissamvinnufélagið Búseta um byggingu og rekstur 300 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Rúmum 100 íbúðum hefur verið ráðstaf af þeirri heimild.
Öflugur leigumarkaður er því mikilvægur þáttur í heildstæðri húsnæðisstefnu og ekki síst mikilvægur unga fólkinu. Stjórnvöld eru enn að vinna að úrbótum að auknu framboði leiguhúsnæðis og hefur verið ákveðið að yfirfara stöðu leigumarkaðarins og leigjenda og framkvæma einnig greiningu á biðlistum hjá félagasamtökum og sveitafélögum eftir leiguhúsnæði.
Löngun og vilji til að búa í eigin húsnæði hefur verið rík, sem má sjá af því að 93% þátttakenda í könnun Gallup vilja frekar búa í eigin húsnæði en að velja að vera á leigumarkaði. Það eru síðan 92% þátttakenda sem eru ánægðir með það húsnæði sem það býr í í dag.
Allra mikilvægast er samt sem áður að ná að draga úr skörpum andstæðum á milli kynslóða í húsnæðismálum og gera leigumarkað að viðurkenndum kost í húsnæðismálum.
mánudagur, desember 15, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli