„Innganga Íslendinga í Evrópusambandið (ESB) nú, í samanburði við núverandi stuðningskerfi ríkisins við landbúnaðinn, mun m.a. leiða til samdráttar og tekjumissis í landbúnaði og afurðastöðvum. Þessu valda einkum breytingar sem gera má ráð fyrir að verði á markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og innfluttrar.“ ... „Hver áhrifin á framleiðslu búvara verða mun ráðast annars vegar af því hve miklar þessar verðlækkanir verða og hins vegar hvort auknum styrkjum verður beint til landbúnaðarframleiðslu og hvernig þeir dreifast milli framleiðenda.“
Þetta kemur fram í skýrslu hóps frá því í nóvember, er utanríkisráðherra skipaði, vorið 2002, til að fjalla um óvissuþætti varðandi stöðu íslensks landbúnaðar andspænis Evrópusambandinu (ESB) og hugsanlegri aðild Íslands að því, svo og andspænis stefnuákvörðunum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og þróun alþjóðavæðingar almennt. Líkt og sjá má þá var hópnum ætlað að fjalla um landbúnað mjög rúmt og verða það því að teljast nokkur vonbrigði að hópurinn skyldi aftur á móti skilgreina hlutverk sitt mun þrengra, þ.e. að einkum skyldi hópurinn sinna þáttum er lúta að fækkun óvissuþátta sem varða íslenskan landbúnað andspænis landbúnaðarstefnu ESB, að afla upplýsinga um stöðu landbúnaðar í nágrannalöndunum, auk á vettvangi ESB og WTO. Þessar staðreyndir verða að skoðast í því ljósi að um áfangaskýrslu er að ræða og hópnum mun verða ætlað að halda áfram að fylgjast með þróun landbúnaðar í alþjóðlegu samhengi.
Fullyrðingin hér að ofan þarf ekki að koma á óvart því að t.d. er Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) nú þegar drifkraftur í að endurskoða landbúnaðarstefnuna á heimsvísu og þar sem má búast við samningum um minnkandi hindranir gegn innflutningi landbúnaðarafurða og einnig um strangar takmarkanir á ríkisstuðningi við landbúnað. Með aðild að Evrópusambandinu mun landbúnaðarstefna sambandsins hafa grundvallaráhrif á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar, þ.e. hluti af innri markaði ESB með tilheyrandi niðurfellingu tolla. Í 33. gr. Rómarsáttmálans segir að: tryggja viðunandi lífsviðurværi landbúnaðarsamfélaga, auka framleiðni í landbúnaði, tryggja stöðugleika á mörkuðum, tryggja nægt framboð matvæla og tryggja sanngjarnt verð til neytenda. Til þess að ná þessum markmiðum voru settar sameiginlegar samkeppnisreglur um landbúnaðinn, markaðsskipulag var samhæft og sameiginlegum markaði komið á, þ.e. komið á stjórnun sem byggist á tveimur stoðum, markaðsstjórnun og byggðaþróun. Þá tilhögun við framkvæmd markmiða á markaði, með samræmdum reglum, hafa Íslendingar nú reynt í 10 ár með fjórfrelsinu, með samningnum um EES. Evrópusambandið hefur þó ekki, frekar en aðrir landbúnaðarframleiðendur, farið varhluta af offramleiðslu, óhóflegum útgjöldum, óhagræði við framleiðslu og neikvæðum áhrifum á umhverfið. Forysta ESB hefur nýlega lokið áfanga með endurskoðun sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar sinnar og í framhaldi ákveðið að draga mjög úr beinum ríkisstuðningi við búvöruframleiðsluna. ESB ætlar sér að mæta því, auk fækkunar starfa, með auknum stuðningi við byggðaþróun, umhverfisverkefni og aðra nýsköpun á landsbyggðinni.
Íslenskur landbúnaður er undir stöðugum áhrifum frá ytra umhverfi sínu, einkum og sér í lagi í krafti WTO, þar sem afstaða ESB ræður m.a. miklu um framvindu ýmissa hagsmunamála Íslands, þ.m.t. á sviði landbúnaðar. Talið er að líkindum muni stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), koma til framkvæmda eftir 2006. Þær munu líklega breyta öllum viðhorfum í íslenskum landbúnaðarmálum og m.a. verður þá einnig að endurmeta hugsanleg áhrif ESB og aðildar Íslendinga að ESB. Á þessu tímabili mun jafnframt ESB sjálft breytast. Íslenskur landbúnaður nýtur mikillar sérstöðu, hreinleika náttúrunnar og heilbrigði dýra, sem má ekki glatast og framsóknarmenn hafa ávalt lagt áherslu á mikilvægi landbúnaðar fyrir land og þjóð. En Framsóknarflokkurinn verður einnig standa að nauðsynlegum umbótum innann landbúnaðarins; það er nauðsynlegt að laga íslenskan landbúnað að breyttum aðstæðum.
þriðjudagur, desember 16, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli