Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, mælti í dag á Alþingi, fyrir um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, sem kveða á um að færa ákvæði um stjórnsýslu Fiskiræktarsjóðsins í nútímalegt horf. Ætlunin er að stuðla að skilvirkari innheimtu gjalda í sjóðinn, jafnframt að kveða á um að setja skýrari ákvæði um gjaldstofna þeirra gjalda sem renna í sjóðinn, ekki síst til að tryggja betra samræmi í stjórnsýsluframkvæmd og jafnrétti gjaldenda.
Nefnd á forræði landbúnaðarráðherra skipuð, árið 2001, þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Páli Hreinssyni, lagaprófessor í Háskóla Íslands, og Ingimar Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, er ætlað að semja nýtt frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Það er niðurstaða nefndarinnar að aðkallandi sé að breyta ákvæðum núgildandi laga um Fiskræktarsjóð sem fyrst og er það mat nefndarinnar að ekki ástæðu til að bíða með þær breytingar þar til heildarendurskoðun gildandi laga hefur farið fram.
Meginmarkmið Fiskiræktarsjóðs frá upphafi, árið 1970, hafa verið að efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum. Ísland er í dag eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum. Nágrannar okkar verja nú miklu fé til viðhalds laxastofna og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Er það mat nefndarinnar að fullyrða megi að mikilvægi Fiskræktarsjóðs hafi aukist eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins hafa orðið meiri og því afar þýðingarmikið að lagaumgjörð um starfsemi sjóðsins sé nútímaleg og stuðli að skilvirkri starfsemi hans.
Tekjustofnar Fiskræktarsjóðs hafa frá upphafi verið 2% gjald af hreinum leigutekjum af veiði og 3‰ gjald af vergum tekjum af sölu á raforku. Í upphafi var þar um að ræða sölu á orku til almennings en frá 1998 var hins vegar gerð sú breyting að einnig skyldi greitt sama gjald af sérsamningum til nýrra stórnotenda.
Hér er um gríðarlegt hagsmunamál fyrir veiðimenn, enda verður það hlutverk sjóðsins að efla fiskrækt í ám og vötnum og bæta veiðiaðstöðu með því að veita lán eða styrki til verkefna sem að því stuðla.
Núverandi greiðendur í sjóðinn eru veiðifélög og jarðeigendur sem selja veiðileyfi. Þeirra framlag í sjóðinn nam 16,6 m.kr. árið 2002. Einnig greiða í sjóðinn vinnslufyrirtæki sem selja raforku framleidda með vatnsorku til almenningsveitna og nýrra stórnotenda eftir árið 1998. Þessi fyrirtæki eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða og RARIK. Alls nam sú greiðsla 8 m.kr. árið 2002. Í frumvarpinu er lagt til að greitt verði af allri raforkusölu til almennings og stórnotenda. Gert er ráð fyrir að breiðari tekjustofn geti skilað sjóðnum aukalega 11 m.kr. tekjum árlega en þó ekki fyrr en samningar sem voru gerðir fyrir 1998 renna út eða þeim er sagt upp.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli