Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, hefur kynnt í ríkistjórn frumvarp um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Vegna endurskoðunar laga um friðun Þingvalla sem eru frá 1928 og stækkun þess landsvæðis var álitið nauðsynlegt að tryggja verndun vatnasviðs Þingvallavatns og vatnsins sjálfs, en þar er um að ræða stærstu grunnvatnsauðlind á Íslandi. Þar sem hér á landi hafa ekki enn verið sett almenn lög um verndun grunnvatns eða annars nytjavatns er farin sú leið að kveða á um verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess í sérstökum lögum. Það er ekki einsdæmi hér á landi, sbr. t.d. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, og um vernd Breiðafjarðar. Við setningu almennra laga um vatnsvernd væri kostur á að fella þær lagareglur sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir inn í almenn lög um vatnsvernd.
Lagt til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði og falli þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum. Frumvarpið var samið undir forsjá Þingvallanefndar og er með því og frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum leitast við að móta verndarstefnu á þessu svæði til frambúðar. Talið er að á Þingvalla- og Brúarársvæðinu ofan við Brúarfoss, sem alls er um 1.260 ferkílómetrar, sé um þriðjungur af öllu lindarvatni í byggð á Íslandi.
Sérstaklega er mælt fyrir um verndun á lífríki Þingvallavatns og að þess skuli gætt að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikju og urriðastofna sem nú lifa í vatninu, enda eina þekkta vatnið í heiminum þar sem finnast fjögur afbrigði af bleikju, á um 10 þúsund ára ferli og er það einsdæmi. Af því leiðir að vegna þeirrar sérstöku mengunar- og sjúkdómahættu sem stafar af fiskirækt og fiskeldi er lagt til að bannað verði að stunda slíka starfsemi í eða við Þingvallavatn. En með orðunum „við Þingvallavatn“ er miðað við að slík starfsemi taki vatn, hafi frárennsli eða hafi önnur líffræðileg tengsl við Þingvallavatn.
Gróður er mikill í Þingvallavatni og er 1/3 hluti botnsins þakinn gróðri og þótt vatnið sé kalt er magn þörunga mikið. Lággróður er nokkuð mikill úti á 10 m dýpi en kransþörungar (hágróður) verða mjög háir á 10–30 m dýpi og mynda stór gróðurbelti í vatninu sem hafa mikla þýðingu fyrir allt dýralíf, ekki síst fiskinn. Alls eru fundnar um 150 tegundir jurta á botni og sýnir það nokkuð fjölbreytni gróðursins. Um 50 tegundir dýra beita sér á þennan gróður, allt frá fjöruborði og út á mikið dýpi. Fæstum mun ljóst að 120 þús. dýr lifa á hverjum fermetra í fjöruborðinu en á 114 m dýpi lifa enn 5–10 þús. Dýr þessi mynda fæðu hinnar alþekktu og ljúffengu bleikju sem veiðist í Þingvallavatni. Mikilvæg fæða bleikjunnar er vatnabobbinn, en hann er þýðingarmikill hlekkur í fæðukeðju botnsins, líkt og segir í frumvarpinu.
miðvikudagur, apríl 21, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli