mánudagur, maí 10, 2004

Hvers vegna er rétt að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og hvers vegna er vitnað til Evrópuráðsins í tengslum við það?

Í nútímalýðræðisríki gegna fjölmiðlar margs konar hlutverki, eða líkt og Dagný Jónsdóttir alþingismaður sagði í fyrstu umræðu Alþingis á frumvarpinu: „Þeir upplýsa, færða og móta skoðanir almennings. Þeir hafa vald á því hvað er á dagskrá í umræðunni í samfélaginu, þeir segja okkur hvað er í tísku, þeir ráða því hvaða tónlist nýtur mestra vinsælda, hvaða kvikmyndir, þeir dæma leiksýningar og nýjar bækur og þeir veita okkur þær upplýsingar sem við byggjum á skoðanir okkar og viðhorf til fjölmargra mála, stórra sem smárra.“ Síðar segir Dagný: „[F]jölmiðlar erum miklar valdastofnanir í samfélaginu. Áhrif þeirra, bæði þau sem þeir hafa í raun og veru og hin sem hugsanlegt er að þeir geti tekið að sér, geta ráðið úrslitum um það hvað stefnu þetta samfélag tekur. Þess vegna höfum við þjóðréttarlegu skyldu til að tryggja lýðræðislega fjölbreytni fjölmiðla hér á landi.“

Á fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi í dag er sú staða að Norðurljós hf. á Íslenska útvarpsfélagið ehf. sem rekur stöðvar sem hafa 44% af hlustun fyrir hljóðvarp og 37% af áhorfi fyrir sjónvarp. Þá á Norðurljós Frétt ehf. sem gefur út Fréttablaðið sem er útbreiddasta blað landsins með daglegan 69% lestur og DV sem lesið er af 17% landsmanna daglega. Stærsti einstaki hluthafi í Norðurljósum hf. er Baugur Group hf. sem á 29,9%.

Baugur Group hf. er einnig umsvifamikið fyrirtæki í öðrum atvinnurekstri á Íslandi og hafði t.d. á árinu 2000 um 70% markaðshlutdeild á matvörumarkaði í Reykjavík og um 51% á landinu öllu, auk þess sem fyrirtækið hefur mikilla hagsmuna að gæta á öðrum sviðum íslensks viðskiptalífs.

Dagný Jónsdóttir sagði jafnframt í ræðu sinni: „Það skiptir þetta samfélag miklu máli að við getum treyst því að fjölmiðlar gangi ekki annarra erinda en okkar, lesenda þeirra og áhorfenda, þegar þeir veita okkur upplýsingar. Hættan á að sú mynd brenglist þarf ekki alltaf að vera tilkomin vegna vísvitandi aðgerða starfsmanna fjölmiðlanna, hún getur verið að meira eða minna leyti ómeðvituð og átt rætur í uppbyggingu og þeim hefðum sem myndast inni á miðlunum sjálfum. Það er mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur, það sem okkur er skylt að gera, til að draga úr því að fjölmiðlar séu í þeirri stöðu að þeir geti misnotað lýðræðið í þágu sjónarmiða eigenda sinna.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur skýrt fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Rökin séu m.a. reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi þar sem þeir gegni lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi og mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum.

Síðar í greinargerðinni segir: „Af Mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun. Á þeim grundvelli hefur ráðherraráð Evrópuráðsins samþykkt tilmæli R (99) 1 […], þar sem settar eru fram hugmyndir að mismunandi leiðum að þessu markmiði. Á íslenska ríkinu hvílir því sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.“

En hlutverk og markmið Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum aðildarríkjanna. Starfsemi Evrópuráðsins nær til allrar ríkjasamvinnu, að undanskildum öryggis- og varnarmálum. Inngönguskilyrði í Evrópuráðið er fullgilding mannréttindasáttmála Evrópu og er ráðið þannig viðmiðun fyrir þær þjóðir sem eru að stofna eða endurreisa lýðræði og réttarríki í sínu landi. Öllum aðildarríkjum ráðsins er ætlað að standa við þær skuldbindingar sem aðild hefði í för með sér og í þeim efnum ríkir jafnræði milli aðildarríkjanna og stækkun ráðsins á ekki að leiða til lakari mælikvarða á sviðum sem það fjallaði um.

Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu frá 1950, en einu ári áður var því komið á af 10 stofnríkjum. Stofnanir ráðsins eru ráðherranefndin og Evrópuráðsþingið og hefur Alþingi frá upphafi tekið virkan þátt í starfsemi þess enda mikilvægt framlag okkar til eflingar mannréttinda og lýðræðis í Evrópu.

Í skýrslu nefndar menntamálaráðherra, um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, segir: „Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.“

Niðurstaðan verður því sú, að það sé vert að fagna þeirri umræðu sem fram hefur farið bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu almennt í tengslum við þetta lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og að málið fái góða, vandaða, lýðræðislega umræðu, ekki aðeins innan veggja Alþingis heldur í þjóðfélaginu almennt.

Við eigum að spyrja okkur, líkt og Morgunblaðið hefur vakið máls á; hvers vegna vilja vopnaframleiðendur eiga fjölmiðil? Nú, viðskiptavinir vopnaframleiðenda eru ríkisstjórnir. Fjölmiðlar kunni að vilja hafa áhrif á ríkisstjórnir með því að hafa áhrif á almenningsálitið. Þess vegna á með þessu frumvarpi, líkt og Dagný Jónsdóttir kom inn á í fyrrnefndri ræðu: „Að standa vörð um aðhaldshlutverk fjölmiðlanna gagnvart þeim sem fara með efnahagsleg völd og geta í krafti þeirrar stöðu sinnar haft áhrif á og brenglað þá mynd sem við almenningur í landinu, fáum af þeim margvíslegu málum sem okkur snerta, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem við tökum við innkaup eða það hvaða skoðanir við myndum okkur á máli sem er til umræðu af miklum tilfinningahita í þjóðfélaginu, máls eins og þessu sem við erum hér að ræða.“

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú helv. flott útlit hjá þér.
SE

Einar Gunnar sagði...

Ég þakka félagi. Allt annað útlit og skrifin mín munu líklega skána líka.

Ellan sagði...

NOh aldeilis breyting á síðunni hjá þér. Síðan bara orðin flott.

Bið að heilsa
kv. Ella Þ.

Einar Gunnar sagði...

Ég þakka Ella Þóra, nú þarf ég bara að koma upp tenglum, þá er þetta að verða alvöru!!

kv/ege