laugardagur, nóvember 08, 2003

Helgarsjónarhornið.

Það er hreint ömurlegur málflutningur hjá Samfylkingunni að leggja til þá tímamóta stefnubreytingu í heilbrigðismálum að kostnaður hins opinbera megi ekki aukast, það vanti ekki aukið fé í heilbrigðismálin, en segja síðan í hinu orðinu að málefni geðsjúkra séu í uppnámi ár eftir ár vegna fjárskorts.

Hin nýja og framsækna hugsun Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum gengur út að hafna því að auka þurfi þjónustu og mæta ólíkum þörfum einstaklinga. Samfylkingin segist ekki ætla sér að einkavæða þar sem forgangur hinna efnuðu er tryggður, heldur að einkavæða þannig að aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustunni sé óháð efnahag.

Getur það verið að samfylkingarmenn gleymi að það sé til stétt innan heilbrigðisgeirans sem heiti tannlæknar eða að sjálfseignarstofnanir reki hluta öldrunarstofnana, er þörf á framtíðarlausn í þessum þáttum. Gengur gagnrýni Samfylkingarinnar í hátíðarræðu Össurar Skarphéðinssonar, formanns, fullkomlega upp. Ætla má að formaður framtíðarnefndar fylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, eigi nú eftir að rétta formanninn af á frjálshyggjuferðalaginu og telji okkur trú um að fljótfærni og hugsunarleysi hafi verið að ræða. Er hafið yfir vafa að Rannveig Guðmundsdóttir muni ljá Ingibjörgu lið í þessari baráttu.

Skortur á pólitískri forystu er kallað úr hornum fylkingarinnar, ljóst er að blinda og heyrnaleysi Samfylkingarinnar er einn aðalvandi hennar og að hún gefur sér ekki tíma til að fara yfir öll þau góðu verk sem Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, er að framkvæma.

Hver var stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum?
Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu fyrir um 2 árum (18.10.2001) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar, eftirfarandi:

… Það er merkileg staða uppi hjá okkur Íslendingum hvað varðar einkarekstur. Þegar við förum að skoða hvernig einkarekstur hefur þróast eiginlega af sjálfu sér, án mikillar umræðu og þýðingarmikilla ákvarðana um að opna fyrir einkarekstur, hvort heldur í mennta- eða heilbrigðiskerfi, þá hefur það gerst og gerist í skjóli einhvers konar pilsfaldakapítalisma. Þannig er það í menntakerfinu. Opnaðir hafa verið einkaskólar og einkaskólarnir fá sama ríkisframlag og ríkisskólarnir, en þeir fá bara leyfi til að taka gjöld til að hafa sinn skóla flottari, til að kaupa betri, fleiri og dýrari tæki, búa betur að nemendum og greiða betri laun. Síðan á ríkisskólinn að keppa við þetta fyrirkomulag sem ábyggilega þekkist hvergi á byggðu bóli.

Förum svo yfir í heilbrigðiskerfið. Þar hafa ákveðnar fagstéttir fengið heimild til að flytja starfsemi sína frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í einkarekstur á stofu úti í bæ. Og hver borgar þegar upp er staðið? Neytandinn, sjúklingurinn. Afgangurinn fer á samneysluna, eðlilega, af því að þær fagheilbrigðisstéttir sem hér um ræðir hafa fengið heimild til þess að vinna á eigin forsendum nokkurn veginn, auðvitað með ákveðnum samningum, allt öðruvísi samningum en þeirra sem starfa á stofnunum og sjúkrahúsum, og senda Tryggingastofnun reikninginn.

… Það er annað sem ég vil líka nefna, hámarksgreiðslu fyrir tannlæknaþjónustu. Tannlæknakostnaður hefur ekki verið undir hámarki hingað til heldur annar heilsufarskostnaður eða lækniskostnaður. Það hefur verið að þróast í þá átt undanfarið að foreldrar og þeir sem fá hluta af tannlæknakostnaði greiddan af hinu opinbera, Tryggingastofnun, hafa alltaf verið að greiða meira og meira úr eigin vasa vegna þess að gjaldskrá Tryggingastofnunar hefur ekki verið í samræmi við gjaldskrá tannlækna og þeir hafa verið að láta fólk greiða hærri upphæðir en gjaldskrá Tryggingastofnunar segir til um. Kostnaður fólks vegna tannlækninga barna sinna og sjálfs sín hefur aukist mjög.


Í utandagskrárumræðu þann 8. mars 2002, um útboð í heilbrigðisþjónustu, var sá annars ágæti þingmaður, Rannveig Guðmundsdóttir, málshefjandi og sagði:

Virðulegi forseti. Ungur læknir skrifaði á dögunum um stríðsástand á Landspítalanum. Læknirinn bendir á að vegna þess að bið eftir vistun á hjúkrunarrýmum aldraðra geti skipt mánuðum, liggja aldraðir á sjúkradeildum og bráðveikir sjúklingar komast ekki inn á spítalann, þar sem fá og engin laus pláss eru fyrir hendi. Fresta þarf aðgerðum og biðlistar lengjast. Læknirinn segir að öldrunar- og endurhæfingarþjónustan sé enn annar flöskuháls og hann bendir á að þar sem 20 til 30 þús. manns á höfuðborgarsvæðinu séu án heimilislæknis flytjist vandamál sem hægt væri að leysa innan heilsugæslunnar inn á sjúkrahúsin, á bráðamóttökur og slysadeildina.

Þetta þekkjum við og þessi frásögn er ekki af nýjum tíðindum. En hún vekur verðskuldaða athygli vegna þess að fagmaður sem starfar á Landspítalanum setur vandamálin þar í samhengi. Lausnina á vandamálinu telur læknirinn vera einkarekstur, m.a. í heilsugæslunni, en það finnst mér vafasöm staðhæfing. Gífurleg þörf er fyrir hjúkrunarrými og frjáls félagasamtök sem reka hjúkrunarheimili víða um land hafa barist í bökkum fjárhagslega. Þau hafa ekki getað fengið sambærilegan samning og gerður var í kjölfar útboðs á Sóltúni. Þangað var veitt meira af almannafé, enda þótti Sóltúnssamningurinn milljónavirði eins og frægt varð þegar hann varð söluvara. Þá ályktun má draga af þeirri einkavæðingu að þegar ríkisstofnun eða sjálfseignarstofnun mannúðarsamtaka á í hlut er fjármagn skorið við nögl, en þegar um alvörueinkaframkvæmd er að ræða er allt annað verðlag á þjónustunni.

Frumstig heilbrigðiskerfisins, heilsugæslan, hefur verið vanrækt. Nauðsynleg uppbygging hefur ekki átt sér stað. Ofboðsleg þörf hefur myndast í heilsugæslunni sem ekki hefur fengið nauðsynlegt fjármagn og keyrt hefur um þverbak tvö undangengin ár. Þekkt atburðarás verður til. Málaflokkurinn er sveltur fjárhagslega og svo kemur lausnin: Einkavæðing. Þannig hefur hæstv. heilbrrh. fyrirvaralaust boðað útboð á rekstri nýrra heilsugæslustöðva, húsnæði og öllum rekstri – miðað við fréttir — þar með talinni læknisþjónustu, fyrst í Salahverfi í Kópavogi og sennilega síðar í Hafnarfirði og Heimahverfi, miðað við fréttir. Þetta eru næstu heilsugæslustöðvar sem fyrirhugað er að opna. Ekki er ljóst hvers konar útboð er hér á ferðinni eða hvernig eigi að tryggja þjónustu. Engin rök liggja fyrir um að einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustu sé hagkvæmari. Þvert á móti bendir reynsla erlendis frá til þess að einkarekstur sé dýrari. Erfitt er að sjá mikinn sparnað í rekstri, þar sem 70--80% kostnaðar er laun, nema ef draga á úr þjónustu. En meginmál er að það á ekki að vera hagnaðarvon í heilsugæslunni. Grunnþjónusta í heilbrigðiskerfinu lýtur ekki lögmálum framboðs og eftirspurnar.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á að tryggja jafnrétti til heilbrigðisþjónustu og einkarekstur hefur ekki tryggt öllum sama rétt.

Fréttin um útboðið kom eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir þá sem mánuðum saman hafa staðið í samningaviðræðum við heilbrrn. Þannig hafði heilsugæslan í Hafnarfirði átt í viðræðum um tilteknar sértækar lausnir og í Kópavogi hafa alvarlegar viðræður við heilbrrn. verið í gangi í níu eða tíu mánuði. Í Kópavogi er áformað að taka húsnæði í Salahverfi á leigu og þörfin er sex lækna stöð. Sú stöð verður þriðja stöðin í Kópavogi þar sem íbúar nálgast óðfluga 25.000.

Á skömmum tíma hefur biðin eftir lækni farið úr þremur í tíu daga, meðan áður var hægt að komast til læknis fyrirvaralítið. Þetta er léleg þjónusta og ömurlegt ástand sem fólk vill ekki una.

Margar spurningar vakna um einkavæðingaráform heilbrigðisráðherrans. Í fyrsta lagi:

Hvers vegna útboð heilsugæslunnar núna?
Hverju hyggst ráðherrann ná fram og hvernig verður jafnrétti til heilsugæslu tryggt?
Með hvaða hætti verða stöðvarnar tengdar stjórnum heilsugæslustöðvanna, stefnu þeirra og áherslu?
Verða sambærilegar kröfur gerðar til rekstraraðila um alla þjónustu eins og stöðvanna sem fyrir eru?
Verður þeim gert að veita sömu upplýsingar og finna má um heilsugæslustöðvarnar í verkefnavísum?
Í Salahverfi í Kópavogi á fólki eftir að fjölga um helming. Hvernig verður þessi stighækkandi þjónustuþörf skilgreind og tryggð?
Hvernig kemur Læknalind, sjálfstæða einkarekna stöðin, inn í það þjónustumat?
Hvernig mun heimaþjónusta í Sölum tengjast heimaþjónustumiðstöð núverandi heilsugæslustöðva?
Herra forseti. Verður Salastöðin tengd miðlægri vörslu upplýsinga sem starfrækt er hjá hinum heilsugæslustöðvunum í Kópavogi?


Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, svaraði í þessari utandagskrárumræðu m.a. grundvallarspurningu um mismundandi rekstrarform:

… Við erum þegar með mismunandi rekstrarform í heilsugæslunni. Útboð eins og ég hef sagt að kæmi til greina er því engin nýlunda. Við erum þegar með hinar hefðbundnu stöðvar. Við erum með sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna. Við höfum gert eins konar þjónustusamning um rekstur heillar stöðvar og við höfum þar fyrir utan gert eins konar þjónustusamning um rekstur Læknavaktarinnar. Gagnvart einstaklingum er kostnaðurinn alls staðar sá sami og leiðin að læknum á að vera jafngreið fyrir alla. Fyrir heilbrigðisyfirvöld, lækna og skattgreiðendur er hins vegar hollt að geta borið saman hin mismunandi form á rekstri, meta þannig kosti og galla og það hyggjumst við gera án þess að hverfa frá neinum grundvallaratriðum sem ég hef ætíð hamrað á varðandi þessi mál.

Engin ummæli: