Viðburðir föstudagsins 21. nóvember munu vart líða ráðherrum ríkistjórnarinnar, né þjóðinni allri, úr minni enda Davíð Oddsson, forsætisráðherra, óvenju þungbrýnn er út af ríkisstjórnarfundi var komið þann morguninn. Kastljós fjölmiðlanna var ekki skammt undan og yfirlýsingar forsætisráðherrans í samræmi við tækifærið; dagskipunin var að út af bankabókum skyldu allar eignir landsmanna í Kaupþingi-Búnaðarbanka. Enda rölti Davíð Oddsson, einn ötulasti talsmaður neytenda hin síðari ár, seinna um daginn yfir í næsta útibú Búnaðarbanka og snaraði út heilum kr. 400.000 er hann átti þar inni á bók. Meðal-Jóni var ómögulegt að kreista nokkurt það eigið fé út af óstofnuðum bankareikningum hjá stofnuninni, himinn háar skuldir hans í Búnaðarbankanum héldu hinsvegar áfram að minna á sig auk ógreiddra greiðsluseðla frá sömu stofnun.
Kaupréttarsamningar tveggja lykilmanna hjá Kaupþingi-Búnaðarbanka, starfandi stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins, hafa hreyft við þjóðinni, enda verið að tala um nokkuð stórar tölur. Að mögulegt sé að gera viðbót við ráðningarsamninga er miðar að því að hægt sé að ná allt að kr. 950.000.000 í kaupauka, fyrir utan föst laun, er eitthvað sem er óskiljanlegt alþýðu manna. Að vísu er þetta ekki í fyrsta skipti sem athygli vekur góðir ráðningarsamningar til handa lykil stjórnendum fjármálafyrirtækja á Íslandi. Frægt var er ungu athafnamennirnir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sópuðu til sýn töluverðum gróða af all vafasömum viðskiptum með tækifærisbréf og síðan rann hluti hagnaðar út í skjóli afkomutengdra ráðningarsamninga. Fyrrum forstjóri Kaupþings þótti og einnig þungur til fjárins er hann fékk um kr. 70.000.000 sem afkomutengdan kaupauka á sínum tíma, hafa ber þó í huga að starfsemi Kaupþings hafði gengið mjög vel og gerir enn. Þjóðfélagsumræðan á þeim tíma hrópaði á siðareglur fjármálafyrirtækja, spurningin er hvort að viðskiptasiðferði hafi þrotið frá þeim tíma eða orðið enn sterkar eftir að stjórnendurnir hafa nú fallið frá kaupréttarsamningum sínum við Kaupþing-Búnaðarbanka.
Rétt er að hafa í huga að innkoma ráðherra ríkistjórnarinnar um þessi mál á sér forsögu allt frá því að ákveðið var að hlutafélagsvæða fjármálastofnanir ríkisins og skilgreina á ný almennt hlutverk ríkisins til fyrirtækja á fjármagnsmarkaði. Markaðshagkerfi felur í sér m.a. að ríkið á ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og virk samkeppni er fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um sölu á eignahlut ríkisins í ríkisbönkunum sagði m.a. um hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði: "Meginhlutverk þess verður jafnan að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á þessu sviði og að reglunum sé fylgt. Jafnframt kann á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um fjármálastarfsemi sem nauðsynleg er til að efla atvinnulíf og tryggja þjóðfélaginu ákveðin lífsgæði." Einkarekstur banka er meginreglan í hinum vestræna heimi en rökin felast í að einkareknar fjármálastofnanir eru fremur undirseldar aga markaðarins, bæði er hvað varðar afkomu og áhættu. Einkareknir bankar eiga því að öðru jöfnu að verða hagkvæmari en bankar í eigu ríkisins. En ríkið á og getur enn haft með að gera fjárfestingarþjónustu eins og verkefnafjármögnun og beina áhættufjármögnun.
Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif sölu ríkisins á hlut sínum í Landsbanka og Búnaðarbanka á sínum tíma, taldi stofnunin að umbætur myndu eiga sér stað með rekstri einkaaðila og með stærri eignaraðild fái stjórnendur ríkara aðhald og að ákvarðanir yrðu fyrst og fremst hagkvæmari fremur en að verða pólitískar. Nú er það ein af lykilspurningum í þessu tilfelli hvaða viðmið Kaupþing-Búnaðarbankinn, sem í dag er á frjálsum markaði, setur sér við gerð ráðningarsamninga við sína starfsmenn. Og það er pólitísk spurning hversu há laun lykilstarfsmanna eigi að vera, væntanlega hefur launanefnd stjórnar Kaupþings-Búnaðarbanka haft til stuðnings ákveðin viðmið, en í fámennu landi eins og Íslandi getur verið nauðsynlegt að þessi viðmið séu sýnileg öllum, ekki aðeins hluthöfunum einum, viðskiptamenn bankans hljóta líka geta haft skoðun á því hvað sé eðlilegt og hvað gerræðislegt. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar, á að hafa skoðun á því hvað sé hæfilegt og hvað ekki. Undrist menn á einhvern hátt framgöngu Davíðs er rétt að minn á að hann einn talaði nú um á sínum tíma að kjöt hefði nú ekki verið á útsölum fyrir verslunarmannahelgi eina fyrir nokkrum árum. Það er því ekkert nýtt að Davíð bendi á hluti, stóra sem smáa, sem betur mættu fara, það hefur hann gert í hjartans einlægni og hefur uppskorið samkvæmt því sem mjög farsæll stjórnmálamaður og verið samfellt forsætisráðherra þjóðarinnar frá árinu 1991.
Í umræðunni er kallað eftir skýrari reglum frá löggjafarvaldinu, en ekki má gleyma að þjóðfélagið getur haft mikil áhrif á gjörðir manna, þannig að aðilar séu tilbúnir að endurskoða sinn hug, líkt og stjórnarformaður og forstjóri Kaupþings-Búnaðarbanka hafa gert og viðurkennt mistök í því sambandi. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur lýst því yfir að skoðað verði hvort að mögulegt sé að setja reglur um viðmið sem farið sé eftir við gerð ráðningarsamninga æðstu stjórnenda fyrirtækja á markaði. En jafnframt er athugandi hvort að Valgerður eigi ekki að taka Davíð með sér á næsta aðalfund Samtaka atvinnulífsins og kynna þar siðareglur atvinnulífsins, undirbúnar af ríkistjórninni, fá þær lagðar fram fyrir aðalfundinn til samþykktar og halda síðan áfram að vera öflugur liðsmaður neytenda í landinu og grípa inn í er fram af fólki er gengið.
Stjórnendur banka á markaði skapa sjálfir sinn orðstýr og það eru ríkar kröfur gerðar til þeirra, agi markaðarins snýst einnig um að halda viðskiptamönnum bankans jafn ánægðum og eigendunum sjálfum. Hagsmunir lykilstjórnenda banka þurfa því að taka mið af þessum þáttum og ekki síst þeim að fjármálamarkaðurinn gegnir lykilhlutverki í hverju hagkerfi, þegar hann hefur með höndum miðlun greiðslna, veitingu lána og móttaka innlána, þar er lykilhugtakið TRAUST.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli