Það er nauðsynlegt í pólitískri orðræðu að svara fljótt og vel illa ígrunduðum og innistæðulausum aðdróttunum andstæðinganna. Nú í morgun hóf TÍK ein að míga utan í mann og annan og þá helst framsóknarmenn. Rembingur viðkomandi ætti að beinast að stöðu kvenna í eigin Sjálfstæðisflokki, en það er sjálfsagt ekki til vegsauka innan þess félagsskapar. Er rétt að birta hér snilldar pistil sem Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ritaði í morgun og segir allt sem segja þarf við tíkarskrifum Obbu.
Við eigum innistæðu fyrir nýrri ímynd
Ég má til með að setja hér inn nokkur orð varðandi pistil sem ég heyrði í morgunsjónvarpi Stöðvar tvö í morgun. Ég veit ekki hvernig pistlahöfundar eru valdir þar, væri gaman að vita það. Reyndar voru tengslin frekar skýr varðandi höfundinn í morgun en þar talaði Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi oddviti Vöku í Stúdentaráði (var á sama tíma og ég var framkv.stjóri Stúdentaráðs) í þætti sem fyrrverandi stúdentaráðsliði Vöku stýrir. Langsótt, ég held ekki. Alla vega þá gripu orð hennar Obbu (Þorbjargar) mig þar sem ég stóð inni á baði og var að hafa mig til fyrir daginn.
Hún talaði um Framsóknarflokkinn og markaðssetningu hans í vor. Hún sagði að allt hefði þetta verið auglýsingum að þakka og minn skilningur af bitrum orðum hennar var að hún teldi enga innistæðu fyrir nýrri ímynd flokksins. Ég vil bara benda henni á að við erum flokkurinn sem tefldi fram þremur konum í forystusætum. Við erum flokkurinn sem var með ungt fólk í baráttusætum í öllum kjördæmum og skiluðum þremur nýjum þingmönnum inn á þing og þar af eigum við yngsta þingmanninn og yngstu þingkonuna. Geri aðrir betur. Við hefðum aldrei getað farið út í slíka ímyndavinnu nema hafa grunninn til þess. Allt gekk upp hjá okkur og við erum afar ánægð með það.
Obba ræddi um ráðherra flokksins og ég vil taka fram í þeirri umræðu að mér finnst gjörsamlega óþolandi í slíkri umræðu hvað fólk gerir lítið úr þingmennskunni. Ég er svo heppin að mér finnst ég ekkert ómerkari þingmaður þó ég sé ekki ráðherra. Það er nú svo að Alþingi Íslendinga er æðra framkvæmdavaldinu og af því vitum við þingmenn. Hún gerði að umtalsefni hversu einkennilegt það hafi verið að setja Árna Magnússon í ráðherrastól þar sem hann hafði enga reynslu haft sem þingmaður, minni menntun en aðrir þingmenn og að hann hafi ekki verið kona. Tja, ég veit að Árni er ekki kona en hann hefur virkilega sett jafnréttismálin á dagskrá í ráðuneytinu og er það vel. Átti hann að gjalda fyrir það að vera ekki af sterkara kyninu? Mín skoðun er að svo eigi ekki að vera. Hann hafði enga reynslu sem þingmaður en flokkurinn sýndi í verki að hann treystir ungu fólki og fylgdi eftir því fylgi sem við fengum meðal ungs fólks með því að taka áhættu. Er ekki í góðu lagi að gera einhvern tíma eitthvað öðruvísi? Þurfum við alltaf að hafa sömu formúluna? Ég segi nei og mér fannst þetta útspil einmitt vera fyrstu merki þess að nýir vindar blésu innan þingflokksins.
Með þessum orðum er ég þó á engan hátt að taka til þeirra framúrskarandi einstaklinga sem komu til greina sem ráðherrar, sem betur fer gátum við valið úr góðum hópi. Að lokum við ég setja út á þennan menntahroka hennar Obbu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa sem fjölbreyttustu reynslu á Alþingi. Ég vil t.d. ekki að allir þingmenn séu lögfræðingar eða að allir þingmenn séu íslenskufræðingar (tek þetta dæmi því ég er íslenskunemi og Obba laganemi). Það sama á að gilda um ráðherra.
miðvikudagur, nóvember 12, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli