þriðjudagur, október 28, 2003

Styrkveitingar til eldis sjávardýra

Kristján L. Möller, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um styrkveitingar til eldis sjávardýra.

Orðrétt hljóðar fyrirspurnin svo: „Hverjir hafa fengið styrki til eldis sjávardýra frá því að styrkveitingar hófust? — Skriflegt svar óskast.“

Þetta hlýtur að teljast með tímamóta fyrirspurnum, hjá Kristjáni. Varla verður það á hendi eins manns að hrista þetta svar fram úr erminni, menn munu þurfa leita allt aftur til landnáms, glugga í lagaverk eins og Jónsbók, Grágás og jafnvel allt aftur til Úlfljótslaga, varðandi valdheimildir fjárveitingavaldsins til styrkveitinga. Jafnframt mun þurfa að skoða þjóðsögur því í þeim eru heimildir um að menn hafi alið marbendil, öfugugga, hafmeyjar og önnur sjávardýr.

Vart verður annað ráðið, en að margra ára verkefni sé nú fengið í hendur sjávarútvegsráðherra, sem hefur tæpast, hvort sem er, neitt annað að gera þessa stundina, hvað þá undirmenn hans. Alþingi mun síðan sjálfsagt kalla eftir skýrslu um málið, að kröfu Kristjáns Möller, verði svarið rýrt í roði.

Sá annars ágæti þingmaður, mun nú jafnframt í annarri og þriðju umræðu fjárlaga leggja til auknar fjárveitingar til rannsókna „um styrkveitingar til eldis sjávardýra“, annað verður svik við kjósendur, ekki síst á landsbyggðinni.

Engin ummæli: