föstudagur, júní 10, 2005

Mitt fyrsta skáknámskeið.

Það var sérlega ánægjulegt að sitja námskeiðið sem hann László Hazai þjálfari frá Ungverjalandi hélt í gær. László fór yfir leiðir sem koma upp úr Najdorf-afbrigðinu í Sikileyjarvörn eftir leikina: 1. e4 c5, 2. Rf3 d6, 3. d4 cd, 4. Rd4 Rf6, 5. Rc3 a6, (fékk svar við því gær hvers vegna þessu leik sé í raun leikið, áhugasamir sendi línu!!) 6. f3 e6 (Scheveningen uppsetningu er mætt af svörtum, en 1. e4 c5, 2. Rf3 d6, 3. d4 cd, 4. Rd4 Rf6, 5. Rc3 e6, 6. Be2 a6, 7. 0-0 Dc7, 8. f4 Rc6, er algengast í hreinum Scheveningen.) 7. Be3 (með hugmyndinni að langhróka, fara fram með g og h peðin og skapa þrýsting á kóngsvæng.). En þessi inngangur tók ekki nema 2 mínútur, framundan var 4 klst. námskeið.

László Hazai er þekktast fyrir að hafa þjálfað Polgar systur, einnig er hann að þjálfa mikið efni Peter Acs heimsmeistara unglinga. Annað skákefni Zhao Zong Yuan er einnig undir handleiðslu László.

mánudagur, júní 06, 2005

Þegar stjórinn heitir Óli Jó.

Það er ekki laust við maður hafi fyllst miklu stolti þegar lesin er jafn upplýsandi frétt og í Fréttablaðinu um daginn:

„FH-ingar hafa byrjað Landsbankadeild karla með sannfærandi hætti í sumar. Hafnfirðingar hafa unnið báða leiki sína á útivelli og hafa fullt hús stiga og markatöluna 8-1 úr fyrstu tveimur leikjum sínum, sem báðir fóru fram á Suðurnesjum. Það má búast við því að hinum níu liðunum í deildinni sé ekki farið að lítast á blikuna enda eru nokkrir í leikmannahópi FH sem myndu labba inn í lykilhlutverk hjá flestum liðum deildarinnar en eru stundum jafnvel ekki í 16 manna hópi FH á leikdegi.

FH-ingar eru sjöunda liðið í sögu tíu liða efstu deildar sem hefur náð slíkri draumabyrjun og öll hin sex hafa unnið titil á því tímabili. Fimm af þessum sex liðum hafa enn fremur orðið Íslandsmeistarar um haustið og tvö þeirra unnu tvöfalt á tímabilinu sem þau byrjuðu svona vel.

Meðal þessara liða eru Valsmenn frá 1978, sem töpuðu ekki deildarleik á tímabilinu, tvöfaldir meistarar Skagamanna sem unnu 20 leiki af 22 í deild og bikar og skoruðu 62 deildarmörk í 18 leikjum sumarið 1993 og svo Skagaliðið sem vann tvöfalt sumarið 1996. Hin þrjú liðin eru Íslandsmeistarar Valsmanna 1980, Íslandsmeistarar Framara 1990 og svo bikarmeistarar KR-inga 1994.

Aðeins eitt þessara liða lék báða leiki sína á útivelli líkt og FH-liðið nú en KR-ingar byrjuðu Íslandsmótið 1994 með tveimur leikjum á útivelli, unnu 5-0 sigur á Breiðabliki á Kópavogsvelli í 1. umferð og sóttu síðan 2-0 sigur í Garðabæ þremur dögum síðar.

James Bett, faðir Baldurs Bett, núverandi leikmanns FH, lék einmitt með KR-liðinu þetta sumar og skoraði meðal annars tvö mörk í fyrsta leiknum.

Baldur kom inn á sem varamaður í Grindavík og skoraði þá fimmta og síðasta mark FH-liðsins í leiknum. KR-ingar unnu reyndar aðeins einn af næstu átta leikjum og enduðu í fimmta sætinu um haustið en öll hin liðin tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta er líka í fyrsta sinn síðan 1990 sem lið sem nær svona frábærri byrjun á Íslandsmótinu er ekki undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, en ÍA 1993, KR 1994 og ÍA 1996 voru öll undir hans stjórn.

Ásgeir Elíasson var því síðastur á undan Guðjóni að taka Íslandsmótið með trompi í fyrstu tveimur umferðunum en Fram vann báða fyrstu leiki sína sumarið 1990, 4-0.

Næst á dagskrá hjá FH er fyrsti heimaleikur sumarsins þegar Eyjamenn koma í heimsókn í Kaplakrikann en aðeins þrjú af umræddum sex liðum unnu þrjá fyrstu leiki tímabilsins; Valur 1978 og 1980 og ÍA 1993.“


Fimleikafélag Hafnarfjarðar hefur bætt um betur frá þessu tímapunkti og unnið tvo leiki til viðbótar, gegn ÍBV á heimavelli 3-0 og útileik gegn KR-ingum 0-1. Þetta er ekkert annað en stórkostleg byrjun, stjórinn, Ólafur Jóhannesson, enda reynslu mikill. Næstu leikir eru gegn Þrótti heima og Valsmönnum úti, en þeir hafa einnig byrjað keppnistímabilið jafn vel, með fjórum sigrum, þar verður því um stórleik að ræða.

Síðan verður mjög spennandi að fylgjast með Fimleikafélaginu í Evrópukeppninni, það yrði gaman að fá eitthvert stórliðanna í FJÖRÐINN.

Síðan skora ég á Morgunblaðið af fara að skrifa um þessi afrek FH-inga, þau má ekki vanta á síðum þess þegar sagnfræðin verður rifjuð upp. Eins ættu gamlir íþróttafréttamenn blaðsins að minnast eitthvað á knattspyrnuna hér heima; Tottenham er ekki eina liðið í tilverunni.