miðvikudagur, desember 17, 2003

Hagsmunir Ingibjargar Sólrúnar í desembermánuði ár hvert -- Taugastríðið IV.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, hafði í höndunum vinningsstöðu í liðinni viku. Solla hafði færi á að koma fram í fjölmiðlum sem vísdómsmaður í íslenskum stjórnmálum og hafa yfir alþjóð að „svona gera menn ekki“. Slík yfirlýsing af hennar hálfu hefði getað haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir allt þingið og þá ekki síst stöðu þeirra sem studdu umdeilt eftirlaunafrumvarp. Pólitískt nef Ingibjargar, fyrir möguleikum í stöðum sem þessum, þar sem mál hreinlega hrópa á andstæðar skoðanir, ekki síst í því ljósi að velflestir þingmenn voru á góðri leið með að styðja mál er féll í jafn grýttan jarðveg hjá landsmönnum, brást hrapanlega þegar Solla í hjarta sínu sá möguleika á að koma að sínum eigin hagsmunum.

Ingibjörg lagði á það ofuráherslu, að formenn flokka er ekki eru ráðherrar og ekki á þingi, ættu einnig möguleika á að krækja í þær hækkanir er í boði voru. Slíkur var þunginn í þessari kröfu að Fylkingin hagræddi nefndarmönnum sínum í allsherjarnefnd þingsins, þar sem eftirlaunafrumvarpið var til umræðu, og settu inn einn þrautreyndasta þingmann sinn, Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi ráðherra, til að auka líkur sínar til muna um að tillaga þeirra fylkingarmanna næði fram að ganga. Ingibjargar bíður það hlutverk, að hennar sögn, að leiða Fylkinguna eftir næsta landþing hennar, sitjandi utan þings að öllu óbreyttu, í því ljósi hafði Solla einlæga von um sneið af eftirlaunafrumvarpinu, en svo fór sem fór.

Það er með ólíkindum að jafn sjóaður stjórnmálamaður skuli hafa látið hankað sig svona, neitað m.a. fjölmiðlum um viðtöl, hreinlega hverfa af vettvangi, þegar gullið tækifæri gafst til að spila lykilhlutverk í máli sem varð jafn óvinsælt meðal almennings og raun bar vitni. Það fer að vísu að verða mjög vandræðaleg staða að hreinlega vera stjórnmálamaðurinn Solla í desembermánuði ár hvert.

Alþjóð er í fersku minni hvernig farsælum borgarstjóra tókst að glutra úr höndum sér stjórn borgarinnar í desember í fyrra, uppákoma síðustu daga á sér í raun þá hliðstæðu að Ingibjörg Sólrún metur rangt hvar hagsmunir hennar eigi heima hverju sinni. Það er orðið landslýð deginum ljósara að pólitískar ákvarðanir er Ingibjörg þarf að taka með litlum eða engum fyrirvara eru dæmdar til að mistakast.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Íslenskur landbúnaður í Evrópusambandinu.

„Innganga Íslendinga í Evrópusambandið (ESB) nú, í samanburði við núverandi stuðningskerfi ríkisins við landbúnaðinn, mun m.a. leiða til samdráttar og tekjumissis í landbúnaði og afurðastöðvum. Þessu valda einkum breytingar sem gera má ráð fyrir að verði á markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og innfluttrar.“ ... „Hver áhrifin á framleiðslu búvara verða mun ráðast annars vegar af því hve miklar þessar verðlækkanir verða og hins vegar hvort auknum styrkjum verður beint til landbúnaðarframleiðslu og hvernig þeir dreifast milli framleiðenda.“

Þetta kemur fram í skýrslu hóps frá því í nóvember, er utanríkisráðherra skipaði, vorið 2002, til að fjalla um óvissuþætti varðandi stöðu íslensks landbúnaðar andspænis Evrópusambandinu (ESB) og hugsanlegri aðild Íslands að því, svo og andspænis stefnuákvörðunum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og þróun alþjóðavæðingar almennt. Líkt og sjá má þá var hópnum ætlað að fjalla um landbúnað mjög rúmt og verða það því að teljast nokkur vonbrigði að hópurinn skyldi aftur á móti skilgreina hlutverk sitt mun þrengra, þ.e. að einkum skyldi hópurinn sinna þáttum er lúta að fækkun óvissuþátta sem varða íslenskan landbúnað andspænis landbúnaðarstefnu ESB, að afla upplýsinga um stöðu landbúnaðar í nágrannalöndunum, auk á vettvangi ESB og WTO. Þessar staðreyndir verða að skoðast í því ljósi að um áfangaskýrslu er að ræða og hópnum mun verða ætlað að halda áfram að fylgjast með þróun landbúnaðar í alþjóðlegu samhengi.

Fullyrðingin hér að ofan þarf ekki að koma á óvart því að t.d. er Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) nú þegar drifkraftur í að endurskoða landbúnaðarstefnuna á heimsvísu og þar sem má búast við samningum um minnkandi hindranir gegn innflutningi landbúnaðarafurða og einnig um strangar takmarkanir á ríkisstuðningi við landbúnað. Með aðild að Evrópusambandinu mun landbúnaðarstefna sambandsins hafa grundvallaráhrif á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar, þ.e. hluti af innri markaði ESB með tilheyrandi niðurfellingu tolla. Í 33. gr. Rómarsáttmálans segir að: tryggja viðunandi lífsviðurværi landbúnaðarsamfélaga, auka framleiðni í landbúnaði, tryggja stöðugleika á mörkuðum, tryggja nægt framboð matvæla og tryggja sanngjarnt verð til neytenda. Til þess að ná þessum markmiðum voru settar sameiginlegar samkeppnisreglur um landbúnaðinn, markaðsskipulag var samhæft og sameiginlegum markaði komið á, þ.e. komið á stjórnun sem byggist á tveimur stoðum, markaðsstjórnun og byggðaþróun. Þá tilhögun við framkvæmd markmiða á markaði, með samræmdum reglum, hafa Íslendingar nú reynt í 10 ár með fjórfrelsinu, með samningnum um EES. Evrópusambandið hefur þó ekki, frekar en aðrir landbúnaðarframleiðendur, farið varhluta af offramleiðslu, óhóflegum útgjöldum, óhagræði við framleiðslu og neikvæðum áhrifum á umhverfið. Forysta ESB hefur nýlega lokið áfanga með endurskoðun sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar sinnar og í framhaldi ákveðið að draga mjög úr beinum ríkisstuðningi við búvöruframleiðsluna. ESB ætlar sér að mæta því, auk fækkunar starfa, með auknum stuðningi við byggðaþróun, umhverfisverkefni og aðra nýsköpun á landsbyggðinni.

Íslenskur landbúnaður er undir stöðugum áhrifum frá ytra umhverfi sínu, einkum og sér í lagi í krafti WTO, þar sem afstaða ESB ræður m.a. miklu um framvindu ýmissa hagsmunamála Íslands, þ.m.t. á sviði landbúnaðar. Talið er að líkindum muni stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), koma til framkvæmda eftir 2006. Þær munu líklega breyta öllum viðhorfum í íslenskum landbúnaðarmálum og m.a. verður þá einnig að endurmeta hugsanleg áhrif ESB og aðildar Íslendinga að ESB. Á þessu tímabili mun jafnframt ESB sjálft breytast. Íslenskur landbúnaður nýtur mikillar sérstöðu, hreinleika náttúrunnar og heilbrigði dýra, sem má ekki glatast og framsóknarmenn hafa ávalt lagt áherslu á mikilvægi landbúnaðar fyrir land og þjóð. En Framsóknarflokkurinn verður einnig standa að nauðsynlegum umbótum innann landbúnaðarins; það er nauðsynlegt að laga íslenskan landbúnað að breyttum aðstæðum.

mánudagur, desember 15, 2003

Mikilvægi leiguhúsnæðis og húsaleigubóta.

Í fréttabréfi um húsaleigubætur, sem félagsmálaráðuneytið er nýhafið að gefa út, kemur fram að allt frá því að húsaleigubætur voru fyrst greiddar hefur verið töluverð aukning milli ára, en gríðarleg aukning varð milli áranna 2001 og 2002 í kjölfar breytinga á lögum um húsaleigubætur þar sem bótaréttur var aukinn. Enn er mikil aukning milli ára og er áætlað að um 25,8% raunaukning verði á greiddum bótum milli áranna 2002 og 2003.

Á sínum tíma þá mat Þjóðhagsstofnun að húsaleigubætur, fyrir upphafsárið 1995, kæmu þær til með að kosta ríki og sveitarfélög samtals um kr. 650 millj. Fjöldi bótaþega var áætlaður um 5.500 er myndi skiptast þannig að um 750 hjón fengju bætur, 1.400 einstæðir foreldrar og 3.300 einstaklingar. Áætlað var að um 22% hjóna á almennum leigumarkaði kæmu til með að fá bætur, 73% einstæðra foreldra og 58% einstaklinga. Þá taldi stofnunin að bætur kæmu til með að hækka tekjur hjóna og einhleypra að meðaltali um 10% og einstæðra foreldra um 17%.

Útborgun húsaleigubóta árin 1995 og 1996 varð lægri en áætlanir Þjóðhagsstofnunar höfðu gert ráð fyrir, en greiðslur fyrsta árið námu kr. 215 millj. Haft skal í huga að erfitt var að áætla nákvæmlega útborgun húsaleigubóta þar sem mikilvægar forsendur, eins og afkoma heimilanna, atvinnuþátttaka og atvinnuleysi, geta verið breytilegar frá einum tíma til annars. Sú staðreynd er einnig þekkt að af ýmsum ástæðum nýta ekki allir sér rétt til bóta; um getur verið að ræða vanþekkingu, ákveðið val eða viðkomandi hafi ekki til þess möguleika þegar leigusali hafnar þinglýsingu leigusamninga.

Húsaleigubótum er ætlað það tvíþætta hlutverk að koma á niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði hjá tekjulágum einstaklingum og jafnframt að draga úr þeim aðstöðumun sem í dag ríkir með tilliti til þess hvort um er að ræða eigendur eða leigjendur að íbúðarhúsnæði. Þannig er ætlað að stuðla að því að einstaklingar eigi meira val milli eignar og leigu og veita einstaklingum svigrúm til þess að vera á leigumarkaði á meðan verið er að byggja upp eigin sparnað til fasteignakaupa. Leigjendur eru sá hópur í þjóðfélaginu sem er að jafnaði tekjulægstur og eignalítill.

Í fyrstu lögum um húsaleigubætur var kveðið á um atriði sem girtu fyrir rétt til húsaleigubóta, þar var m.a. kveðið á um að réttur til bóta væri ekki fyrir hendi ef leiguíbúð væri í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags. Sá réttur er ekki lengur undanskilinn í lögunum.

Þegar litið er á flokkun húsnæðis þeirra er njóta húsaleigubóta kemur í ljós að stærsti hluti bótaþega býr í almennu leiguhúsnæði, eða um 49,5%, rúm 38% eru í félagslegum íbúðum, rúm 10% á námsgörðum eða heimavist og 2,5% á sambýlum.

Á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2003 hafa sveitarfélögin greitt um kr. 888 millj. í húsaleigubætur. Í endurskoðuðum greiðsluáætlunum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að greiddar verði um kr. 305 millj. á fjórða ársfjórðungi 2003. Í heildina er því gert ráð fyrir að greiddar verði um kr. 1.193 millj. í húsaleigubætur á árinu en í byrjun árs var gert ráð fyrir að um 1.164 m.kr. yrðu greiddar út. Húsaleigubætur hafa því stórhækkað og ekki síst eftir að þær urðu skattfrjálsar frá ársbyrjun 2002.

Í haust var kynnt mjög viðamikil könnun, framkvæmd af Gallup, um stöðu á húsnæðismarkaði í dag, þar kom m.a. fram að rúm 11% landsmanna er í leiguhúsnæði og eru það yngstu aldurshóparnir, 20 til 34 ára, þar fjölmennastir, eða rúm 20%. Jafnframt kom fram að 49% leigjanda telur sig vera í tímabundinni leigu og 41,5% telur sig vera leigjanda af nauðsyn.

Að frumkvæði stjórnvalda var hafið sérstakt átak til að auka framboð leiguhúsnæðis á árinu 2001, gert var rammasamkomulag um að byggðar yrðu 600 leiguíbúðir næstu fjögur árin til viðbótar almennum heilmildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða og var lögð áhersla á að auka framboð minni íbúða. Þessar heimildir Íbúðalánasjóðs hafa allar verið nýttar að fullu um land allt. Einnig var gert samkomulag við húsnæðissamvinnufélagið Búseta um byggingu og rekstur 300 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Rúmum 100 íbúðum hefur verið ráðstaf af þeirri heimild.

Öflugur leigumarkaður er því mikilvægur þáttur í heildstæðri húsnæðisstefnu og ekki síst mikilvægur unga fólkinu. Stjórnvöld eru enn að vinna að úrbótum að auknu framboði leiguhúsnæðis og hefur verið ákveðið að yfirfara stöðu leigumarkaðarins og leigjenda og framkvæma einnig greiningu á biðlistum hjá félagasamtökum og sveitafélögum eftir leiguhúsnæði.

Löngun og vilji til að búa í eigin húsnæði hefur verið rík, sem má sjá af því að 93% þátttakenda í könnun Gallup vilja frekar búa í eigin húsnæði en að velja að vera á leigumarkaði. Það eru síðan 92% þátttakenda sem eru ánægðir með það húsnæði sem það býr í í dag.

Allra mikilvægast er samt sem áður að ná að draga úr skörpum andstæðum á milli kynslóða í húsnæðismálum og gera leigumarkað að viðurkenndum kost í húsnæðismálum.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Gæði verkefna til atvinnusköpunar skipta ekki máli, það er MAGNIÐ?

Kristján L. Möller, alþingismaður, kemur enn og aftur fram með eina af sínum margfrægu fyrirspurnum á Alþingi, hvert málið á fætur öðru er tekið fyrir og ekkert skal undanskilið, því ráðamönnum þjóðarinnar er gert að kafa svo langt aftur að ekki má treysta minni elstu manna.

Nýjasta fyrirspurn Kristjáns snýr að atvinnusköpun frá upphafi, tilgreina skal umfangið eftir verðlagi hvers árs og eins til núvirðis. Auk þess skal ekki síst tilgreina hverjir hafi notið úthlutana og hvernig þær hafi skipist eftir sveitarfélögum. Hvernig ætli Ingólfur Arnarson hafi nú annars hagað atvinnusköpun sinni árið 875, og er ekki síður mikilvægt að vita fjárhæðirnar á verðlagi dagsins í dag.

Nákvæmlega hljóðar fyrirspurn Kristjáns svo: 1. Hve háum fjárhæðum hefur verið varið árlega til „Átaks til atvinnusköpunar“ frá upp hafi, annars vegar á verðlagi hvers árs og hins vegar á núvirði? 2. Hverjir hafa notið þessara úthlutana og hvernig skiptast þær eftir sveitarfélögum og hin um nýju kjördæmum? – Skriflegt svar óskast.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefði nú verið þakklát Kristjáni hefði hann lagt til einhverjar krónur til að vinna að slíkri heimildarvinnu líkt og þingmaðurinn kallar hér eftir. Þess sá ekki stað í umræðu um fjárlögin og ekki gat ráðherra gert ráð fyrir jafn umfangsmikilli fyrirspurn líkt og sá annars ágætur þingmaður, Kristján L. Möller, leggur hér fram.

Það vekur athygli að Kristján L. Möller vill eyrnamerkja í héröð greidd framlög til atvinnusköpunar, óháð því hversu góðar tillögurnar eru, það er magnið, ekki gæðin, sem er lykilatriðið hjá fylkingarmönnum.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Atvinnulýðræðið hjá Samfylkingunni — Taugastríðið III.

Samfylkingin hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um atvinnulýðræði og að fela félagsmálaráðherra „að skipa nefnd er hafi það hlutverk að kanna og gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga.“ Ætlunin er að kalla eftir markvissri athugun á því hvergi unnt sé að innleiða hér á landi það sem kallað hefur verið atvinnulýðræði, sem felur í sér að starfsmenn hafi áhrif á mál sem snerta vinnutilhögun og aukin áhrif á stjórnun.

Undarlegast við allt þetta er að málshefjendur, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Helgi Hjörvar og Ásta R. Jóhannesdóttir, skuli hafa opinberað hér með ólýðræðisleg vinnubrögð sem eru viðhöfð innan Fylkingarinnar. Á yfirborðið er komin staðfesting á því að Samfylkingin sé að fótum komin, framsóknarmanninum Árna Magnússyni er ætlað að hlutast til um að lýðræðið innan Fylkingarinnar lifi af. „Horfðu til himins“ segir í ágætu dægurlagi, en Jóhanna, Margrét, Helgi og Ásta mælast til þess að kannað verði hvaða leiðir hafa verið farnar í nágrannalöndunum, uppáhalds land Ingibjargar Sólrúnar er ekki nefnt á nafn.

Kjarni umrótsins verður því öllum ljós, lýðræðisleg vinnubrögð Sollu í Fylkingunni, fyrirmyndir hennar og fjarlæg vinalönd. Fordæmislaus yfirlýsing hennar um að bjóða sig fram til formanns á næsta landsþingi Fylkingarinnar, eftir að hafa hlotið varaformannssætið án eins einasta atkvæðis þingfulltrúa, hefur hleypt illu blóði í fylkingarfólk. Hafið er yfir vafa að Árna Magnússyni, félagsmálaráðherra, er ljúft og skylt að verða við bón um skipun nefndarinnar góðu, Jóku, Möggu, Helga og Ástu verður falið af fylla þau sæti og pólitísk veisla er framundan.

Áhugamönnum um íslensk stjórnmál er þessi þingsályktun happa fengur, umfjöllun um hugtök eins og völd og lýðræði hjá fólki í hringiðu stjórnmálaumræðunnar, mun reyna á allar þær kenningar sem fræðimenn hafa hingað til talið góðar og gildar, og hvernig nútíma stjórnmál hafa farið með Fylkinguna, þ.e. umræðustjórnmál Sollu. Hvernig mun pólitísku pólunum reiða af í þessu nefndarstarfi, kjósendur, flokksmenn og þingmenn, er vandi um að spá. Jóhanna, Margrét, Helgi og Ásta munu hafa það í sínum höndum hvernig Fylkingin mun í „auknum mæli [horfa] frá miðstýringu til dreifstýringar þar sem einstakir [flokksmenn taki] sífellt meiri þátt í ákvörðunum sem tengjast [Fylkingunni] þeirra." Aðild, þátttaka og samráð fylkingarfólks er undir í umræðunni.

þriðjudagur, desember 09, 2003

Stór stund í réttindabaráttu öryrkja.

Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, var í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi og staðfesti hann enn og aftur að von um betri tíð og blóm í haga í kjölfar aukins skilnings ríkisvaldsins á stöðu fólks sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, er í ljósára fjarlægð, eða svo mátti a.m.k. skilja á látbragði Garðars Sverrissonar. Að samkomulag hans og Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, væri hægt að túlka út og suður er með ólíkindum. Þann 25. mars s.l. var kynntur í Þjóðmenningarhúsinu samningur, sem Jón mat sem „eitt mikilvægasta skrefið sem yfirvöld tryggingarmála og ríkisstjórn hafa gert á síðustu árum.“ Garðar sagði sjálfur að „þetta skref [væri] afar mikilvægt í réttindabaráttu öryrkja og [táknaði] nokkur tímamót í almannatryggingum á Íslandi.“ Jón Kristjánsson sagði jafnframt, á fundinum 25. mars, að hugmyndafræðin væri Öryrkjabandalagsins og að sér hafi hugnast aðferðin vel að koma mest til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Ungir öryrkjar hafa ekki sömu valkosti og jafnaldrarnir, menntun, húsnæðiskaup og yfirleitt þátttaka í þjóðfélaginu er erfiðleikum háð, að reyna að halda í við aðra er ekki mögulegt svo að jafnræði sé með aðilum. Þess vegna var þetta réttlætismál Öryrkjabandalagsins tekið upp og framkvæmt, Jón Kristjánsson hefur verið betri en enginn í þeirri baráttu, það á Garðar Sverrisson að vita og viðurkenna. Samkvæmt því samkomulagi sem náðist þann 25. mars munu öryrkjar 18 og 19 ára fá tvöföldun á sínum lífeyri og þeir sem eru á aldrinum 20-29 ára munu fá á bilinu 70-95% hækkun. Þeir sem eru á aldrinum 30-39 ára fá á bilinu 20-60% hækkun og þeir sem eru 40 ára og eldri fá 10% hækkun eða lægra. Ungir öryrkjar munu fá hækkanir sem nemur 135% frá árinu 1995, eða úr kr. 53.847 á mánuði í kr. 126.547 nú um mánaðarmótin.

Garðar Sverrisson hefur farið hamförum, haft uppi gífuryrði og svika tal, vegna þessarar niðurstöðu og tæmt innihald félagsgjaldabauka Öryrkjabandalagsins og dritað út milljónum króna í auglýsingar í dagblöðum og ljósvakamiðlum. Tilgangurinn; umhugsunarefni er hvort að Garðar sjái eftir því að hafa ekki tekið sæti á lista Samfylkingarinnar í vor, pólitíkin kitlar; það var vafalaust gaman að vinna með Vilmundi Gylfasyni í Bandalagi Jafnaðarmanna hér í þá gömlu góðu, og hvers vegna ekki að endurtaka leikinn. Hver er „ítalski bílasalinn“ í þessu máli, líkt og Garðar hafði á orði svo smekklega um daginn, er hann líkti heilli ríkistjórn við þá stétt og þarflaust að taka fram að það hafi verið gert í neikvæðri merkingu. Stórum stundum í réttindabaráttu öryrkja á Garðar mjög erfitt með að samfagna með öðrum, öll framganga Garðars ber þess merki að hann einn eigi að lýsa yfir sigri í orrustum, aðrir eigi ekki að óhreinka sig við þá iðju, þó svo að þeir hafi barist við hans hlið allt til enda.

Á blaðamannafundi 25. mars var spurt hvort að ekki væri um kosningabombu að ræða. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra hefur lýst þeirra atburðarás í blaðagrein 27. mars svo: „ ... [ég] og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkur myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.“

mánudagur, desember 08, 2003

Tímabundnar ráðningar og hlutastörf.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hefur mælt fyrir frumvörpum til laga á Alþingi um réttindi starfsmanna í tímabundnum störfum og starfsmanna í hlutastörfum. Frumvörpin eru lögð fram til innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins, um rammasamning sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert.

Á íslenskum vinnumarkaði er meginreglan sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið. Ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu og er því gert ráð fyrir að ótímabundnir ráðningarsamningar verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Þetta er einnig í samræmi við efni tilskipunarinnar en í forsendum hennar kemur fram að „[ó]tímabundnir ráðningarsamningar eru hið almenna form ráðningarsambands og stuðla að lífsgæðum viðkomandi launamanna og bæta árangur“. Engu síður er tekið fram að tímabundnir ráðningarsamningar geta á tilteknum sviðum og í tilteknum starfsgreinum hentað bæði vinnuveitendum og launamönnum.

Í inngangsorðum rammasamningsins kemur fram að hann sé framlag til skipulags atvinnumála í Evrópu. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða tímabundnar ráðningar og hlutastörf. Markmið rammasamningsins er að tryggja meginregluna um bann við mismunun og að sett verði rammaákvæði í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á því að tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum og að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi bæði fyrir vinnuveitendur og launþega.

Mælt fyrir um þrenns konar leiðir sem stjórnvöld geta valið um í samráði við aðila vinnumarkaðarins, þannig að hver tímabundinn ráðningarsamningur taki ekki við af öðrum. Heimilt er að velja eina eða fleiri leiðir en sú fyrsta felur í sér að taldar séu upp þær ástæður sem réttlæta endurnýjun tímabundinna ráðningarsamninga, önnur að kveðið sé á um hámarkstímalengd slíkra ráðningarsamninga og sú þriðja hversu oft sé heimilt að endurnýja þá.

Dæmi er um tímabundnar ráðningar í kjarasamningum milli einstakra sveitarfélaga og viðsemjanda. Í greinargerð kemur fram að slík ákvæði er að finna í kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (ákvæði 12.3.2) en það er í samræmi við ákvæði starfsmannalaga. Kjarasamningur Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins fjallar einnig um tímabundna ráðningarsamninga (ákvæði 12.1.2). Þar kemur fram að heimilt sé að ráða starfsmann tímabundið eða til ákveðins verkefnis. Slík ráðning má þó ekki vera til lengri tíma en þriggja mánaða og kveðið er á um tveggja vikna uppsagnarfrest. Ákvæði þetta mun vera tilkomið vegna aðstæðna í viðkomandi starfsgreinum. Aðrir kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði kveða ekki sérstaklega á um tímabundnar ráðningar.

Ótvírætt er að efni þessara lagafrumvarpa fela í sér réttarbót, sem má sjá af því að um sérlög að ræða, auk þess að kveðið er á um að brjóti vinnuveitandi gegn lögunum varði það skaðabótum. Eins verður um sameiginlega túlkun laganna að ræða hjá aðildarríkjum EES-samningsins.

föstudagur, desember 05, 2003

Hækkun lágmarkslauna og lækkun skatta.

Það eru liðin 4 ár frá gerð síðustu kjarasamninga og þegar byrjað að huga að nýrri samningargerð. Flóabandalagið, Efling-stéttarfélag, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, hefur lagt fram sína kröfugerð og þá hafa Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Landssamband íslenskra launþega verið að kanna viðhorf félagsmanna sinna til þess hvernig hafi til tekist, frá gerð samninga árið 2000. Hækkun lágmarkslauna skoraði hæðst hjá félagsmönnum hvors félags og er það í góðu samræmi við viðhorf um að leiðrétta verði kjör þeirra sem lægst hafa launin. Ennfremur er mikilvægt að mati félagsmanna að staðið sé við loforð um lækkun skatta í tengslum við gerð kjarasamninga, en halda skuli þó heildarmyndinni skýrri; viðhalda stöðugleika, öflugu efnahagslífi, skýrri fjárlagagerð með ábyrgum hætti, traustri peningastjórn og halda verðbólgu lágri.

Peningastefnan er einn af hornsteinum efnahagsstjórnunar og þá fyrst og fremst með því að hafa áhrif á magn peninga í umferð. Þannig má hafa áhrif á verðlag og hins vegar á umfang allrar atvinnustarfsemi og viðskipta. Seðlabankinn hefur á þessu ári keypt erlendan gjaldeyri sem nemur kr. 25,5 milljörðum frá áramótum og nemur hrein eign bankans þá í erlendum gjaldeyri kr. 46,4 milljörðum. Seðlabankinn hefur einnig breytt bindiskyldu hjá innlánsstofnunum þannig að nú er umframframboð fremur en umframeftirspurn á peningamarkaði. Á markaði hafa sérfræðingar spurt sig hvort að boðaðar hækkanir vaxta Seðlabanka muni hafa nokkur áhrif til að byrja með þar sem áfram verður nægt fjármagn á peningamarkaði. Efnahagslegmarkmið um hátt atvinnustig, stöðugt verðlag, réttláta tekjudreifingu, hagvöxt og hallalaus viðskipti við útlönd skipta gríðarlega miklu máli og því er hækkun neysluverðs umfram væntingar umhugsunarefni, en verðbólga er í dag 2,2% með hliðsjón af hækkun neysluverðs. Skýr markmið ríkistjórnarinnar í ríkisfjármálum með hliðsjón af áhrifum stóriðjuframkvæmda, þar sem lögð er áhersla á að afgangur ríkisjóðs sé notaður til lækkunar skatta og skulda ríkisjóðs, auk öflugri útflutningsgreina til að örva hagvöxt, munu þannig stuðla að bættum lífskjörum. Allt eru þetta gríðarlegir áhrifaþættir á heildarmyndinni sem allir eru sammála um að viðhalda.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 11,3% frá árinu 2000, en í því sambandi vekur athygli að vinnutími hefur styst hjá flestum stéttum en hjá almennu verkafólki hefur hann lengst. Krafa um styttingu vinnutíma verkafólks er því skiljanleg ekki síst í því ljósi að auka tíma fólks til samveru með fjölskyldum sínum. Meginmarkmið Flóabandalagsins við gerð kjarasamninga sem færi launafólki tryggan kaupmáttarauka á samningstímanum án þess að hætta sé á aukinni verðbólgu er grundvallarmarkmið sem aðilar vinnumarkaðarins eiga að sameinast um. Telja má víst að horft verði til hópa sem heyra undir ákvarðanir kjaradóms og kjaranefndar, og þurfa því ekki að standa í formlegri kjarabaráttu, en þeir hafa haldið sínu og gott betur samkvæmt tölum Hagstofunnar, hækkanir lægstu laun um 30% þurfa því ekki að koma á óvart.

fimmtudagur, desember 04, 2003

1.000 milljónir í hækkun til öryrkja 1. janúar 2004.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er í framhaldi af samkomulagi við Garðar Sverrisson, formanns Öryrkjabandalags Íslands, að leggja til að upphæð grunnlífeyris öryrkja hækki um kr 1.000 milljónir og að þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fái hækkun sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins. Grunnstef þessarar kerfisbreytingar er að stigið er nú fyrsta skerf til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, þ.e. upp er tekin aldurstengd örorkuuppbót til handa örorkuþegum ofan á almennar örorkubætur þar sem yngstu örorkuþegarnir munu fá 100% hækkun. Mánaðarleg fjárhæð uppbótar verður hlutfall af óskertum örorkulífeyri og miðast við fæðingardag. Þessar breytingar munu taka gildi strax þann 1. janúar n.k. eða eftir 27 daga.

Hér er um að ræða stærsta skerf í réttindabaráttu öryrkja um langan tíma og viðurkenning á þeirri hagsmunabaráttu sem Öryrkjabandalagið hefur staðið í fyrir hönd fatlaðra gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf og framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt fatlaðra. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er að taka undir þessa baráttu með þessu nýmæli, þ.e. með aldurstengdum örorkubótum, sem er skref til góðs, auk þess að ekki seinna en eftir hálft ár, 1. júlí 2004, verður kerfisbreytingin endurskoðuð og lagt verður mat á hvernig til hafi tekist við að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Öll þessi vinna er niðurstaða starfshóps sem Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, átti sæti í til að framfylgja samkomulagi er var kynnt 25. mars 2003. Samkomulagið var framhald af formlegum og óformlegum viðræðum ráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands sem höfðu staðið frá því í febrúar 2002 í tilefni af Evrópuári fatlaðra. Í viðræðunum lögðu forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands áherslu á sérstöðu þeirra sem yngstir verða öryrkjar og vildu bæta hag þeirra sérstaklega.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem var kynnt 25. mars 2003 var tekið fram að sérfræðingar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis teldu samkvæmt sínum útreikningum að hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytingarinnar myndu nema rúmum einum milljarði króna á ársgrundvelli. Aldurstengd örorkuuppbót mun verða greidd þeim sem fá greiddan örorkulífeyri, fullan slysaörorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, á að hafa hjarta í sér til að fagna þessum mikla áfanga sínum og sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur barist með honum af heilum hug. Framsóknarmenn draga hvergi af sér við að berjast fyrir pólitískum hugmyndu sem fela í sér að vera réttlát og sem setja manninn og velferð hans í öndvegi. Samábyrgð þegnanna er eitt af okkar grunnstefum, tryggingarkerfið er kostað af almannafé og Framsóknarflokkurinn telur að rík réttlætiskennd, samhjálp og samvinna í velferðarmálum kalli á að þeir gangi fyrir sem hafa mesta þörfina.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Horfum með björtum augum til framtíðar, verkefnin eru næg.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, kom inn á stöðu ferðaþjónustunnar og miklum vaxtarmöguleikum sem felast í henni í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarfokksins fyrir skömmu. Hann nefndi m.a. að gert sé ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna til Íslands muni tvöfaldast á næstu sjö árum, eða fram til ársins 2010. Til að svo megi verða þarf að fjölga nokkrum nýjum farþegaþotum, sem hver og ein veitir um 200 manns atvinnu á sviði ferðaþjónustu. Í dag veita Flugleiðir til að mynda Íslendingum val um fleiri bein flug til Bandríkjanna í viku hveri en býðst íbúum Noregs, Danmerkur og Finnlands samanlagt.

„Öflug uppbygging og karaftmikil sókn einkennir einnig starfsemi annarra flugfélaga hér á landi. Þannig hefur flugfélagið Iceland Express aukið markaðshlutdeild sína verulega á skömmum tíma, auk þess sem Atlanta hefur styrkt sig í sessi sem traust flugfélag á alþjóðavettvangi. Öll er þessi þróun til marks um að ferðaþjónusta og starfsemi henni tengd er komin til að vera í hópi helstu atvinnugreina hér á landi. Þessi þróun er mikið fagnaðarefni,“ sagði Halldór Ásgrímsson ennfremur í ræðu sinni.

Uppbygging á Keflavíkurvelli er forsenda þessarar þróunar og ekki verður séð annað en að hér sé grunnur að hundruðum starfa til að vega upp á móti minni umsvifum varnarliðsins. Auk þess er flugvöllurinn í dag ein stærsta útflutningshöfn landsins, enda hefur verið staðið myndarlega að uppbyggingu á nýrri aðstöðu fyrir fragtflug.

Nokkrar staðreyndir í ferðamálum:
Á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands sem haldinn var 21. nóvember síðastliðinn komu fram eftirfarandi staðreyndir hjá ferðamálastjóra:

- Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum hefur fjölgað um tæp 8% fyrstu átta mánuði þessa árs miðað við 2002.
- Hlutfallsleg skipting allra gistinátta á árinu 2002 skiptist þannig: Höfuðborg: 38% og landsbyggð: 62%.
- Hlutfallsleg skipting allra gistinátta á árinu 2002 eftir því hvort um var að ræða landsbyggð eða höfuðborg: Höfuðborg: 20% af sumri 80% af vetri en landsbyggð: 80% af sumri og 20 % af vetri.
- Erlendum gestum hefur fjölgað um 13,3% miðað við sama tíma í fyrra.

Í kjölfar 11. september.
- Í október 2001 var unnin aðgerðaráætlun samgönguráðuneytisins og atvinnugreinarinnar.
- Brugðist var við aðstæðum til að verja árangur undanfarinna ára meðan flestar aðrar þjóðir hikuðu.
- Samgönguráðuneytið hefur varið 450 milljónum til markaðssamstarfs með greininni á þessum 24 mánuðum umfram hefðbundnar markaðsaðgerðir.

Árangur aðgerðaráætlunar.
- Svo virðist sem tekist hafi að verja góðan árangur ferðaþjónustunnar.
- Árangur meiri hér en í nágrannalöndunum.
- Ákvarðanir samgönguráðuneytisins og greinarinnar um aðgerðir og aðferðafræði til varnar aðstæðum voru því réttar.

Á árinu 2004.
- 660 milljónir á fjárlögum fara beint til ferðaþjónustu.
- Þar af mætti nefna 320 milljónir til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu.
- 60,4 milljónir í markaðssetningu Íslands í Norður-Ameríku.
- 16,5 milljónir í gestastofur og söfn.

mánudagur, desember 01, 2003

Sameining sveitarfélaga, hvers vegna?

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, og Samband Íslenskra sveitarfélga hafa ákveðið að hefja átak í sameiningarmálum sveitarfélaga, stefnt er að því að hægt verði að kjósa um tillögur eigi síðar en vorið 2005 og áætlað er að átakinu ljúki formlega í lok þess árs. Yfirumsjón með verkefninu verður í höndum verkefnisstjórnar, hennar verkefni verður m.a. að leggja fram tillögur um hvaða breytingar séu nauðsynlegar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðalaga. Sveitarfélögum hefur fækkað verulega síðustu áratugi en þó hefur komið í ljós að ekki hefur enn náðst að mynda heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði, það má því gera enn betur og verður sérstaklega horft til þessa í sameiningarátakinu.

Með sameiningarátakinu er m.a. ætlað að móta hvaða hlutverki sveitarfélögin eigi að gegna á komandi árum og áratugum. Breytingarnar eru hraðar og auknum kröfum verða sveitarfélögin að vera viðbúin að standa undir. Hagsmunirnir liggja ótvírætt hjá íbúum sveitarfélganna sjálfra og í því sambandi er nauðsynlegt að skoða enn betur leiðir til að efla íbúalýðræði í sveitarfélögunum. Tekjustofnar sveitarfélaga verða kannaðir með að markmiði hvort tekjustofnarnir séu í samræmi við lögskyld og venjubundin verkefni sveitarfélaga og gerðar tillögur um endurskoðun eða aðlögun tekjustofnkerfis að væntanlegum breytingum á sveitarfélagaskipan og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Til nýmæla í vinnu við slíka sameiningu er að kannað verði hjá öllum ráðuneytum hvaða verkefni þau telji komi til álita að færð verði frá ríkinu til sveitarfélaganna og öfugt.

Til að tryggja íbúum landsins góð lífsskilyrði er efling sveitarfélga mjög mikilvægur undirstöðuþáttur enda er litlum og örsmáum sveitarfélögum ómögulegt að sinna hlutverkum sem þeim er ætlað að uppfylla lögum samkvæmt. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélga er og því aðeins möguleg að sú forsenda sé fyrir hendi að sveitarfélög geti veitt svipaða þjónustu og tekið að sér sambærileg verkefni. Jafnræði þegnanna kveður á um jafnan rétt til gæða s.s. menntunar og búsetuskilyrðið, eitt af leiðarstefum Framsóknarflokksins, kveður t.d. á um rétt til fjölbreyttra atvinnutækifæra, allt eru þetta forsendur þess að byggð geti þróast um land allt.

Annað atriði sem er ekki síður mikilvægt og knýr á um sameiningu sveitarfélga en það eru jafnréttismálin. Eigi það að verða raunhæft markmið að vinna að leiðréttingu kjara karla og kvenna hjá hinu opinbera verða sveitarfélögin koma þar að með myndarlegum hætti, t.d. með beinum valdboðum er kveða á um tímabundnar aðgerðir til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. Sveitarfélög verða að vera í stakk búin að sjá svo til þess að ákvæðum um launajafnrétti sé framfylgt. Öllum er ljóst að það er ekki á færi örsmáa sveitarfélaga að vinna gegn launamisrétti og jafn réttur karla og kvenna getur ekki verið með ólíkum hætti frá einu sveitarfélagi til annars.

Í þriðjalagi má nefna að sveitarfélögum er ætlað að uppfylla ákvæði EES-samningsins um umhverfismál, auk sérstakra ákvæða í viðaukum við samninginn. Þar er m.a. kveðið á um kröfur um gæði neysluvatns, varnir gegn loftmengun, eyðingu úrgangs og fráveitumál. Litlum og örsmáum sveitarfélögum getur verið ómögulegt að sinna þessum hlutverkum þannig að standist lög.