þriðjudagur, maí 31, 2005

Bresku þingkosningarnar 2005 – seinni hluti.

Tveir sólarhringar til kjördags.
Kosningabarátta er aðaltæki þjóðfélagsþegnanna í lýðræðisríki til að hlusta á þau markmið sem stjórnmálaflokkarnir ætla sér að ná fram, hvað leiðtogar flokkanna standi fyrir og til að greina í sundur helstu andstæður á milli flokkanna. Sannast sagna eru það þó aðeins hörðustu áhugamenn sem fara í gegnum þurrar kosningastefnuskrárnar og sem yfir höfuð fylgjast t.d. með sérstökum útsendingum flokkanna eða fréttamannafundum. Hafandi þó í huga a.m.k. fjögurra vikna kosningabaráttu þá er nú með góðum vilja erfitt fyrir hinn almenna kjósenda að verða ekki var við þó grundvallar áherslumun stjórnar og stjórnarandstöðu, og í þessum kosningum íraksmálefni, innflytjendamál og efnahagsmálin. Þingmenn og ráðherrar komast heldur ekki hjá því að yfirgefa þægilegu klúbbana í Westminster, heldur fara út í kjördæmin sín og tala við kjósendur.

Þegar tveir sólarhringar eru eftir af fjögra vikna kosningabaráttu er umfjöllunin að yfirkeyra alla fjölmiðla. Forsætisráðherrann Tony Blair hefur orðið fyrir hörðum árásum vegna Írak, núna síðast birtir Sunday Times minnisblað frá því í júlí 2002, þar sem minnst er á fund Blair með Bush, forseta Bandaríkjanna, í apríl á því ári, einu ári fyrir innrásina, þar sem þeir ræða stuðning Breta við væntanlegt stríð í Írak og hvernig eigi að haga áróðursmálum. Blair hélt því fram á sama tíma við þingmenn að engar ákvarðanir hafi verið teknar um innrás. Forsætisráðherrann er því núna í aðdraganda kosninganna sakaður um að hafa logið að þjóðinni. Í viðtali á ITV er Tony Blair spurður hvort rétt hafi verið að ráðast inn í Írak á þeim forsendum sem settar voru fram? Hvers vegna hafi ekki verið unnið á forsendum Sameinuðu þjóðanna? Þessara spurninga er spurt aftur og aftur.

Í Economist segir í leiðara að ef þingkosningarnar væru þjóðaratkvæðagreiðsla um störf Tony Blair og ríkistjórnarinnar sem hann hafi leitt frá árinu 1997, þá væru miklar líkur til að kjósendur myndu gefa honum kinnhest. En sú sé ekki raunin, heldur sé verið að kjósa um hver hinna þriggja stóru flokka eigi að leiða landið í næstu fjögur eða fimm ár og svarið sé Tony Blair. Rökin eru að í flestum kosningabaráttum snúist áherslur um efnahagsmál, velmegun og atvinnu og þess vegna ætti Verkamannaflokkurinn í raun að standa betur að vígi á þessum tímapunkti. Verkamannaflokkurinn hafi staðið fyrir áframhaldandi einkavæðingu, Seðlabankanum hafi verið gefið sjálfstæði í peningamálum árið 1997, auk þess hafi flokknum tekist að halda ríkisútgjöldum og sköttum hóflegum frá fyrsta degi. Harla ólíklegt sé að einhver kollsteypa verði er Gordon Brown taki við sem forsætisráðherra, enda hann verið einn af arkitektum efnahagsstefnunnar. Hræðsla við að Brown sé lengra til vinstri, sé í raun ástæðulaus, ekki þurfi annað en að horfa til stefnumála hinna flokkanna til að sjá að t.d. frjálslindir ætli sér að hækka tekjuskattinn úr 40% í 50% og auka útgjöld ríflega til félagsmála. Íhaldsflokknum takist auk þess illa upp við að yfirbjóða Verkamannaflokkinn, þar sé allur samanburður innan skekkjumarka. Grunnurinn að góðri stöðu Tony Blair er sá að honum hefur tekist að halda vel utan um hægri-miðjumenn í breskri pólitík, allt frá því hann varð leiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994.

Skoðanakannanir eru að gera að því skóna að Verkamannaflokkurinn muni sigra með 39% atkvæða, Íhaldsflokkurinn fái 32%, Frjálslindaflokkurinn 21% og að skekkjumörkin séu 3%, til eða frá. Innanbúðarmenn hjá Verkamannaflokknum áætla að niðurstaðan verði frá 60 til 120 þingsætameirihluti, til samanburðar við þann 161 sæta meirihluta er þeir höfðu. Fram hafa komið raddir um að skoðanakannanir ofmætu stuðninginn við Verkamannaflokkinn og að óvænt úrslit gætu orðið í allt að 80 kjördæmum þar sem mjótt væri á munum. Eins verður að líta til þess að það eru um 50 þingmenn Verkamannaflokksins sem styðja ekki ríkisstjórnina og því sé 60 þingsæta meirihluti allra minnsti munur Blair nauðsynlegur svo ríkisstjórnin sé starfshæf, enda hefur hann metnað til að sitja í forsæti allt kjörtímabilið. Það er reyndar þekkt í stjórnmálum að lækka alltaf markmiðin eitthvað, miðað við það sem menn innst inni vonast eftir, enda lítur það alltaf miklu betur út þegar úrslitin liggja fyrir. Fyrir séð er að þingmeirihluti með 90 til 100 sæti eru líklegustu úrslitin miðað við kannanir, en jafnvel í slíkum meirihluta er álitið að vinnan verði erfið. En í ljósi einmenningskosningakerfisins getur örlítil breyting í stuðningi við stjórnmálaflokkana í einstaka kjördæmum haft veruleg áhrif í Westminester.

Villtustu draumar Frjálslindaflokksins eru að vinna svo mikið sem 80 til 100 þingsæti, enda telja þeir að atkvæðamagn sitt hafi vaxið um 15%, í kosningabaráttunni, í þeim kjördæmum þar sem meirihlutinn er naumur, þó svo að á landsvísu sjái þess ekki beint merki. En fjöldi óákveðinna kjósenda hefur ekki verið jafn mikill og frá kosningunum 1992. Verkamannaflokkurinn tók þessa staðreynd alvarlega og kom fram með auglýsingaherferð þar sem þeir vöruðu við því að ef einn af hverjum tíu kjósendum Verkamannaflokksins myndi ekki greiða atkvæði, tryggði það sigur Íhaldsflokksins. Spennan er því töluverð og forsætisráðherrann í stöðugu símasambandi við Greg nokkurn Cook, spyrjandi hvernig staðan sé. En Cook þessi er þekktur sem „Mystic Greg“ þar sem hann þykir hafa mikla hæfileika til að segja til um niðurstöður kosninga og hefur hann sem slíkur aðstoðað Verkamannaflokkinn síðustu 10 ár.

Til að slá að nokkru á þær umræður að þingkosningarnar séu að verða líkari forsetakosningum en nokkru sinni áður, kom að því að Jack Straw væri boðið sætis við pallborðið á síðasta fjölmiðlafundi Verkamannaflokksins. Þar hafði ekki sést til hans fram að þessu.

John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra, urðu ekki á þau mistök í þessari kosningabaráttu að missa hnefann í átt að kjósendum. Prescott á það þó til að vera með endemum óheppin í flestu sem hann tekur sér fyrir hendur, þetta vita félagar hans mæta vel og því var hann t.d. ekki sendur í nein þau kjördæmi þar sem baráttan var hvað eldfimust. En ef hlutir geta gerst, þá gerast þeir; Prescott varð það á í Wales, í kjördæminu Blaenau Gwent, að kalla blaðamann einn „amateur“ er hann varð of ágengur. Einnig fullyrti hann að „wives are not for terrorising“ er Greenpeace menn höfðu gert á hlut eiginkonu hans, Pauline.

Kjördagurinn 5. maí.
Þá rann dagurinn upp, þyrlur foringjanna voru lentar og þeir hættir að kyssa smábörnin. Öll kosningaviðtöl í dagblöðum og sjónvarpi voru frá og helstu deilumálin um innflytjendur, Írak og heilbrigðismálin af baki. Framundan var stóra spurningin, hvort að kosningabaráttan hafi skipt einhverjum máli? Hvort leiðtogarnir hafi náð að hitta kjósendur í raun þar sem næstum öll atburðarás er að mikluleiti skipulögð af flokkunum. Enda kvartaði Tony Blair yfir því að hann hefði viljað ræða stefnumálin oftar.

Kjörstaðir opnuðu kl. 7:00 um landið allt og veðurspáin lofaði góðu, átti að vísu vera skýjað yfir næstum öllu Bretaveldi, en létt rigning átti ekki að hamla kjörsókn. Sagan hefur að geyma heitan kosningadag frá árinu 1992, í þeim kosningum var kjörsókn 77,7% til samanburðar við 59,4% í síðustu þingkosningum. Bretar eiga það til að hýsa suma sinna kjörstaða á undarlegum stöðum. Heyrði af þremur kjörstöðum í Cambridgeshire, sem skiptist í fjögur kjördæmi, og á til að mynda í þorpinu Chettisham að greiða atkvæði í svefnherbergi Carmelia Bond. Í Chittering hefur sendibíll verið útbúin sem kjörstaður að vísu á bílastæðinu við The Travellers Rest Pub, svo það eru gagnsæjar ástæður fyrir þeirri staðsetningu. Í öðru nálægu þorpi á að kjósa á The Queen Adelaide Pub.

Spennustigið yfir því hvað myndi gerast, varð meira og meira. Það tíðkast ekki í Bretlandi að gefa upp kjörsóknartölur á kjördag, sem eru t.d. reglulega gefnar upp hér á landi, en flokkarnir vinna sínar eigin útgönguspár og byggja þeir yfirlýsingar sínar í kjördag á grunni þeirrar vinnu. Ljóst er að tilfærsla um allt að 4% til 5% mun skera meirihluta Verkamannaflokksins niður í 40 til 80 sæti, sem mun verða mjög erfitt fyrir Tony Blair. 6% tilfærsla mun verða auðmýking fyrir Blair, sem mun leita eftir stuðningi frá Frjálslindaflokksins og undirbúa að stíga niður sem forsætisráðherra. Tilfærsla upp á 11% mun gefa Michael Howard hreinan meirihluta og forsætisráðherrastólinn.

Um 20.000 týnd utankjörfundaratkvæði í Birmingham vekja spurningar um að enn eitt svindlið sé í uppsiglingu. Skýringar liggja ekki á lausu, en helst er talið er að atkvæðin hafi ekki skilað sér til kjósenda í tíma eða að óprúttnir aðilar séu hræddir við að fylla atkvæðin út vegna aukinnar athygli yfirvalda á möguleika á svindli. Einnig er hugsanlegt að lægri kjörsókn orsaki misræmið sem er þó ekki líkleg skýring þar sem heimtur á utankjörfundaratkvæðum eru yfirleitt yfir 80%. Þessi staðreynd vekur margar spurningar enda eru nokkur þingsætanna 11 í Birmingham í höndum þingmanna sem unnu mjög naumlega í síðustu kosningum. Alls voru send út 59.000 utankjörfundaratkvæði í Birmingham allri til samanburðar við 16.000 atkvæði í síðustu kosningum.

Kosninganóttin.
Fyrirséð var að fyrstu tölur myndu berast frá Sunderland South, samkvæmt venju, enda tekur það þá um 43 mínútur að ljúka talningu eftir að kjörstöðum hefur verið lokað kl. 22:00 og var Chris Mullin endurkjörin með 11.059 atkvæða meirihluta og honum tryggt sviðsljós milljóna sjónvarpsáhorfenda um stund. Úrslit frá Sunderland North og Houghton & Washington East komu þremur korterum síðar, allt sæti er Verkamannaflokkurinn vann.

En Verkamannaflokkurinn verður fyrir áföllum í London, tapar kjördæmum eins og Enfield Southgate, Benthnal Green and Bow, Putney, Wimbledon, Hammersmith & Fulham, Hornchurch, Ilford North, Bexleyheath og Brent East, gamla kjördæmi Ken Livingstone, með sveiflu upp á 30% frá síðustu þingkosningum. En það verður ekki sagt að Verkamannaflokkurinn hafi ekki reynt af miklu afli að vinna sætið til baka eftir að hafa misst það í aukakosningum fyrir 18 mánuðum. Þeir buðu fram lögfræðing, sérfræðing í mannréttindamálum, múslímsk kona og harðan andstæðing íraksstríðsins. Hún gat varla hugsað sér að nefna Blair á nafn, aftur á móti fékk hún Tony Benn og Robin Cook til að aðstoða sig í kosningabaráttunni. Það verður því enn bið á því að múslímsk kona verði í fyrsta sinn þingmaður í Westminester. Í suðaustur hluta Englands tapaði Verkamannaflokkurinn illa og féll niður í að vera þriðji stærsti flokkurinn.

Í höfuðstöðum Verkamannaflokksins voru starfsmenn flokksins orðnir áhyggjufullir um framtíð Blair ef í það stefndi að meirihlutinn yrði undir 60 þingsætum, en væntingar stóðu til að meirihlutinn færi ekki undir 100 þingsæti.

Reg Keys átti líklega eftirminnilegustu ræðu næturinnar, en hann fékk 10% atkvæðanna í Sedgefield kjördæminu út á baráttu gegn hernaðinum í Írak. Í þessu sama kjördæmi var forsætisráðherrann Tony Blair endurkjörinn með miklum meirihluta atkvæða. En sú staðreynd að sonur Reg skildi láta lífið í Írak og þau samúðarfullu svipbrigði er Blair sýndi undir ræðu hans verða vafalaust sýnd aftur og aftur er stjórnarár hans vera rifjuð upp.

Þingsæti sem Verkamannaflokkurinn hefur átt í Wales, Blaenau Gwent, og sem var fyrrum kjördæmi Aneurin Bevan og Michael Foot, féll í hendur heimamanns, Peter Law, sem sagði sig úr Verkamannaflokknum eftir að flokkurinn tók upp „an allwomen shortlist“ og honum á þeim forsendum meinað að bjóða sig fram.

Ráðherrann Oona King tapaði þingsæti sínu í Bethnal Green and Bow og hefur viðtal Jeremy Paxman, fréttamanns BBC, við sigurvegarann George Galloway, vakið mikla athygli. Paxmann spyr: „Mr. Galloway, are you proud of having got rid of one of the very few blac women in Parliament?“ ─ „What a preposterous question. I know it´t very late in the night, but wouldn´t you be better starting by congratulating me for one of the most sensational election results in modern history?,“ svaraði Galloway.

Stephen Twigg, sem vann þingsætið í Enfield Southgate af Michael Portillo í kosningunum 1997 og varð með réttu tákn fyrir yfirburði nýja Verkamannaflokksins í þeim kosningum, tapaði núna þingsætinu aftur í hendur Íhaldsflokksins. Meirihluti hans upp á 5.546 atkvæði frá síðustu kosningum, sem var aukning frá kosningunum 1997, virtist ekki í mikilli hættu enda þingsætið í 116. sæti á lista íhaldsmanna sem yfir þau kjördæmi sem þeir höfðu augastað á.

Malcom Riffcen, fyrrum utanríkisráðherra, kom nú að nýju inn á þing, eftir hlé frá árinu 1997, í Kensington & Chelasea kjördæmi Portillo en hann hefur ákveðið að hætta þingmennsku.

Í undanförnum kosningum hefur verið horft til Watford til að segja fyrir um tilhneigingu hvernig landslagið sé á landsvísu, þar hafa frjálslindir t.d. verið að sjá mikla uppsveiflu í sveitastjórnarkosningunum. Verkamannaflokkurinn vann kjördæmið með 1.148 atkvæða mun eða 2,32%. Frjálslindaflokkurinn fékk 31% atkvæðanna og Íhaldsflokkurinn 29,5%. Frjálslindaflokkurinn fær þarna 12% tilfærslu, að mestu frá Verkamannaflokknum og um 4% frá Íhaldsflokknum.

Niðurstaða kosninganna á landsvísu urðu þær að Verkamannaflokkurinn hlaut 365 þingsæti eða 35,3% atkvæða, tapaði 45 þingsætum, Íhaldsflokkurinn hlaut 197 þingsæti eða 32,4% atkvæða, vann 35 þingsæti, og Frjálslindaflokkurinn hlaut 62 þingsæti eða 22% atkvæða, vann 8 þingsæti. Aðrir flokkar hlutu 30 þingsæti eða 10,3% atkvæða. Þingmeirihluti Verkamannaflokksins er því 67 þingsæti.

Daginn eftir.
Þessi niðurstaða er að því leiti öðruvísi fyrir Verkamannaflokkinn, að hann hefur ekki fyrr misst jafnmörg þingsæti í kosningum frá árinu 1983, eða í 22 ár. Að meirihlutinn skildi hrynja niður í 67 þingsæta meirihluta er auðvitað til að draga úr gleðinni í herbúðum Tony Blair. Það var fyrir séð að Verkamannaflokkurinn myndi vinna þessa kosningar og það jafnvel þrátt fyrir að forsætisráðherrann væri Tony Blair, en í könnunum kom fram að flokknum myndi hafa gengið betur ef Gordon Brown væri tekin við forystunni. Það var enda Brown sjálfur sem lýsti því yfir um nóttina að flokkurinn myndi „hlusta og læra“. David Blunkett bættu um betur er hann sagði: „Við verðum að hlusta á raddir bresku þjóðarinnar og á næstu fimm árum verðum við að vera í tengslum við fólkið, hlusta á nágrannana, samfélagið, byggja að nýju traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Við verðum að vera á sömu línu og fólkið.“ Margir þingmenn Verkamannaflokksins eru á því að flokknum hefði vegnað betur hefði Gordon Brown tekið við sem forsætisráðherra á síðasta þingi enda Blair sagður sjálfur hafa alvarlega hugsað um að halda ekki áfram.

Fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins dreifðu sér á alla flokka, en Frjálslindaflokknum gekk einna best, ekki síst fyrir af vera eini flokkurinn sem var gegn stríðinu í Írak. Flokkurinn fékk meira að segja þingsæti í Manchester Withington, þar var Verkamannaflokkurinn með meirihluta upp á 11.500 atkvæði í síðustu kosningum, en nú sigra frjálslindir kjördæmið með 667 atkvæðum, með tilfærslu yfir 17%. Eins var flokkurinn að sigra kjördæmi eins og Hornsey & Wood Green í norður London, sem var þingsæti Íhaldsflokksins á stjórnarárum Margaret Thatcher, en sem féll í skaut Verkamannaflokksins 1992.

Liam Fox og David Davis eru talir líklegastir til að taka við Michael Howard eftir að hann mjög svo óvænt ákvað að segja af sér leiðtogaembættinu hjá Íhaldsflokknum. Þeir örfáu blaðamenn sem slógust í fór með Howard til Putney kjördæmisins áttu von á táknrænni ræðu um pólitískt mikilvægi þess að íhaldsmenn hafi náð kjördæminu að nýju af Verkamannaflokknum. Sir James Goldsmith vann að vísu þingsætið 1997 af fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins David Mellor, en Verkamannaflokkurinn í kosningunum 2001, sem hann hafði átt í 15 ár fram að sigri Mellor árið 1979. En eins og í ljós kom þá var að vænta stærra tíðinda. Fréttaskýrendur eru á því að Íhaldsflokkurinn þurfi allra síst á því að halda að fram fari leiðtogakjör með einhverjum svipuðum hætti og gerðist við afsögn William Hague eftir kosningarnar 2001. Hague var í þeirri trú að þetta væri best fyrir Íhaldsflokkinn á þeim tíma, en í dag hefur reynslan sýnt annað. Kjör Iain Duncan Smith „the quiet man“ reyndist skelfilega, þó svo að um val grasrótarinnar væri að ræða. Er næsta víst að Íhaldsmenn muni breyta framkvæmd formannskosninga sinna, enda mun Howard ekki segja afsér fyrr en í haust, á þann veg að þingmennirnir hafi óhjákvæmilega meira um þær að segja, þ.e. færast nær forminu sem var viðhaft með 1922 nefndinni.

Vert er að gefa því gaum hvort allur sá fjöldi skoðanakanna sem voru gerðar hafi komist nálægt niðurstöðu kosninganna. Frómt frá sagt þá voru þær ótrúlega nákvæmar úrslitum kosninganna. Venjan er að taka þær kannanir sem gerðar eru daginn fyrir kosningar og var könnun NOP fyrir dagblaðið The Independent sú sem náði að spá nákvæmlega fyrir um niðurstöðurnar, en hér má sjá yfirlit yfir þær:

OPINION POLL Con. Lab. Lib.Dem. Lab. over Con.
Communicate Resarch/IoS 31% 39% 23% 8%
ICM/Guardian 32% 38% 22% 6%
NOP/Independent 33% 36% 23% 3%
Populus/Times 32% 38% 21% 6%
YouGov/Telegraph 32% 37% 24% 5%
MORI/FT 33% 38% 23% 5%
ELECTION RESULT 33% 36% 23% 3%

Í nokkrum síðustu kosningum hafa kannanir sífellt ofmetið styrk Verkamannaflokksins. Í kosningunum 1997 og 2001 sögðu kannanir fyrir um sigur Verkamannaflokksins, en t.d. árið 1997 sögðu þær að hlutfall atkvæða sem myndi falla þeim í skaut yrði 47% og að forskotið á Íhaldsflokkinn væri þá 16%. Niðurstöður kosninganna urðu að 44% atkvæðanna féllu Verkamannaflokknum í skaut og forskotið varð 13% á Íhaldsflokkinn. Haft skal í huga að minnsta hreyfing á atkvæðamagni hefur mikil áhrif í Westminester. Það voru gerðar um 51 könnun fyrir þessar kosningar, og sýndu flestar þeirra raunhæfa mynd af niðurstöðum kosninganna. Mesta frávikið reyndist í könnunum MORI, líkt og kosningunum 2001, ekki aðeins mældu þeir atkvæðamagn Verkamannaflokksins vera frá 29% til 39%, heldur mældu þeir einnig Íhaldsflokkinn vera með 5% forskot í kosningabaráttunni. Það var í könnun sem birtist í Financial Times 5. apríl. Kannarnir í heild mældu einnig að það væri ekkert um að fólk sveiflist yfir til eins flokks umfram annan á síðustu dögum kosningabaráttunnar, líkt og gerðist í kosningunum 1992. Útgönguspárnar sem BBC og ITV voru með, sameiginlega í fyrsta skipti, spáðu fyrir um að meirihluti Verkamannaflokksins yrði 66 sæti. Það voru NOP og MORI sem sáu um framkvæmdina, með viðtölum við um 20.000 kjósendur á 120 kjörstöðum og að hlutföllin yrðu 37% til Verkamannaflokksins, 33% til Íhaldsflokksins og 22% til Frjálslindaflokksins. Þessar niðurstöður voru fengnar í hendur sérfræðinga sem keyrðu þær í gegnum módel og fengu þeir út mjög nákvæma niðurstöðu, annars hefði meirihluti Verkamannaflokksins verið ofmetinn í útgönguspánum.

Ríkisstjórnin var kjörin með minnsta meirihluta frá seinna stríði og þrátt fyrir glæsilega sigra Tony Blair fram að þessu, hefur honum ekki enn tekist að vinna með meira atkvæðamagni en John Major gerði árið 1992 með 14,1 milljón atkvæða. Stærsti kosningasigur Blair og 179 þingsæta meirihluti var tryggður með 13,5 milljón atkvæða, enda féll kjörsókn úr 77,7% árið 1992 í 71,2% árið 1997. Til samanburðar voru á stjórnarárum Margaret Thatcher aldrei færri en 13 milljón kjósendur á bakvið ríkisstjórnina.

Að mati stjórnmálaskýrenda kom eitthvað nýtt fram í ræðu Tony Blair fyrir utan Dowingstræti 10 á föstudeginum, hann fór að tala um skóla, sjúkrahús og að fylgja vilja þjóðarinnar. Cherie Blair táraðist á meðan eiginmaðurinn hélt sína síðustu sigurræðu sem forsætisráðherra. Robin Cook hefur hvatt hann til að lýsa því yfir hvenær hann ætli sér að segja af sér, í stað þess að skilja flokkinn og þjóðina eftir giskandi á hvenær honum þyki hentugt að hætta.

Charles Kennedy er í raun eini foringinn sem getur að nokkru glaðst yfir niðurstöðu kosninganna. Að vinna þingsæti í Manchester Withington, eftir endurtalningu með 667 atkvæða mun og tilfærslu upp á 17,33%, og þingsætið ekki einu sinni á lista yfir þau þingsæti sem ættu að vinnast, er vitaskuld afrek. Frjálslindaflokknum gekk nú betur en nokkru sinn, fékk hann nú stærri skerf atkvæða en frá sínum besta kosningasigri árið 1983. Sérstaða Frjálslindaflokksins í þessum kosningum var að hann keppti við Verkamannaflokkinn í norðrinu og í stórborgunum, en gegn Íhaldsflokknum í sveitum og suðurhluta Englands. Flokknum gekk ekki síst vel í kjördæmum þar sem margir námsmenn búa, líkt og í Cardiff Central og Cambridge. Í Bristol West kjördæminu vann flokkurinn þingsæti, en frjálslindir hafa ekki átt þingsæti í Bristol í 70 ár.

Veðbankarnir voru stóru sigurvegarar þessara kosninga, veðjað hafði verið um allt sem viðkom kosningunum, frá því hversu stór meirihluti Verkamannaflokksins yrði til þess hvernig skyrtu Tony Blair myndi klæðast við kjör hans í Sedgefield kjördæmi. Helsta ástæða uppskeru veðmangara var ofurtrú manna á velgengi Verkamannaflokksins og vantrú á möguleikum Íhaldsflokksins.

Í lokin kemur hér ein kjaftasaga: Heyrst hefur að þingsæti Eddie O´Hara í Knowsley South, Merseyside, sem vannst með 48,3% meirihluta, gæti orðið næsta þingsæti Blair fjölskyldunnar, en að fornafnið verði Cherie. Þetta yrði svona hliðstæð atburðarás við það sem Clinton hjónin hafa gert. Þingsætið þykir svo öruggt að það er í 424. sæti hjá íhaldsmönnum og í 547. sæti hjá frjálslindum yfir eftirsóknarverð sæti. En hvað veit maður.

mánudagur, maí 30, 2005

Aðalfundur Skáksambands Íslands.

Það var ánægilegur dagur sem ég átti á aðalfundi Skáksambands Íslands s.l. laugardag. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var endurkjörin forseti sambandsins og verður mjög spennandi að fylgjast með áframhaldandi starfi hennar í þágu hreyfingarinnar.

En mér féllust hendur er ég las í reikningum Skáksambandsins að það hafi greitt Ríkisútvarpinu hálfa milljón króna til sýna frá skákmóti, þar sem m.a. Kasparov og Karpov voru þátttakendur. Er það virkilega svo að það þurfi að „múta“ RUV til að sýna frá slíkum viðburði? Mín fyrsta hugsun var, hvers vegna erum við með Ríkisútvarp? Og þurfa fleiri íþróttahreyfingar að greiða RUV fyrir að sýna frá stórmótum á þeirra vegum? Þarf Blaksambandið að greiða? Bridgesambandið? Glímusambandið? Eða Knattspyrnusambandið?

Ég legg til að Ríkisútvarpið verði selt starfsmönnum þess með góðum afslætti, þannig að þjóðin þurfi ekki lengur að þola áþján þessarar stofnunar á sínum herðum. „Þetta er orðið, gott!!“

miðvikudagur, maí 25, 2005

Af framlögum til stjórnmálaflokkanna í Bretlandi.

Michael Brown var stórtækur er hann greiddi Frjálslindaflokknum kr. 300 milljónir í aðdraganda bresku þing kosninganna. Þessi ágæti maður býr í Palma á Majorca og er hann fjárfestir í City. Þetta er athyglisvert ef haft er í huga að maðurinn er aðeins 39 ára. Af öðrum má nefna að Greg Dyke fyrrum yfirmaður BBC gaf kr. 1,3 milljón.

Þessir aurar komu sér vel fyrir kosningabaráttu frjálslinda, s.s. vegna dagblaðs auglýsinga og veltiskilta í þeim kjördæmum þar sem mjótt var á munum.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu Electoral Commission og má þar sjá að Verkamannaflokkurinn fékk mest allra flokka í framlög eða kr. 1,14 milljarð og Íhaldsflokkurinn kr. 1 milljarð.

Klíkurnar í Samfylkingunni.

Athygli vekur að á þingi Samfylkingarinnar um liðna helgi skyldi svo hressilega flæða undan góðum sigri nýkjörins formanns flokksins Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að aðeins einn af hverjum hundrað flokksmanna skyldu velja að ganga „gönguna miklu“ til enda. Voru ekki allir svo glaðir?

Á meðan Ingibjörg talaði um mikilvægi þess að lýðræðið væri hugsjón um að einstaklingarnir geti mótað samfélag sitt og sína eigin tilveru, í lokaorðum sínum á þinginu, kjósa 412 til formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hvað hafði orðið af öllum þeim 839 þingfulltrúa sem kusu t.d. í varaformannskjörinu? Í verkalýðsmálanefnd flokksins eru það 235 þingfulltrúar sem kjósa, hvað gerðist eiginlega?

En Ingibjörg Sólrún lét sér hvergi bregða, heldur brýndi fyrir þingfulltrúum að Samfylkingin treysti almennum flokksmönnum til að meta hvað væri best fyrir flokkinn. Horfa yrði til þess að þriðjungur flokksmanna vildi aðra niðurstöðu en varð ofan á í formannskjörinu, en að þeir hafi samt ástæðu til að gleðjast vegna þess að lýðræðið virkaði og að þess vegna væru samfylkingarmenn svona glaðir á þessu þingi.

Áfram heldur hún „göngunni miklu“ og leggur mikið uppúr að lífsviðhorf og verðleikar séu virtir án tillits til uppruna, félagslegrar stöðu eða kynferðis. Að fólk þurfi ekki að eiga rétt sinn og stöðu undir stofnunum, valdhöfum, kenjum og klíkum, og af öllu þessu sé klíkurnar verstar.

En hvaða klíku var Guðmundur Árni Stefánsson að lýsa í bréfi til Ingibjargar Sólrúnar þegar skila átti tillögum utanríkismálahópsins til stýrihóps Ingibjargar. Guðmundur Árni tekur fram í bréfinu að honum sé alls kostar ekki sama hvernig sé farið með niðurstöður undirhópsins er hann sat í og telji mjög varhugavert að framselja það vald í hendur svokallaðs stýrihóps. Hann hafi auk þess enga aðild að honum og því síður að hann viti hvernig staðið hafi verið skipun hans. Getur þetta verið lýsing á lítilli klíku?

Og hvað með allan þann hóp sem var gengin úr sveitinni, eftir sátu 230 hræður af þeim 12.015 sem kusu í formannskjöri Samfylkingarinnar, 230 hræður af rúmum 20.000 félagsmönnum Samfylkingarinnar, eða 1% félagsmanna, klíka? Ingibjörg fullyrðir að Samfylkingin hafi tekið afstöðu gegn klíkum og kenjum valdhafa, en með lýðræðinu.

Sparsl í sárustu sprungurnar í hennar eigin vinnubrögðum duga samt ekki, það sanna alvarlegar ásakanir Guðmundar Árna Stefánssonar sem hann lýsir sem langt í frá gagnsætt ferli eða lýðræðislegt. Hún vill sem sé frekar velja sér félaga og ráða lögum og lofum án tillits til hins lýðræðislega vilja fólksins í landinu eða kjörinna fulltrúa.

Var Guðmundur Árni kannski ekki heppilegur talsmaður skuggaráðuneytis Samfylkingarinnar í utanríkismálum og því nauðsynlegt að stofna nýtt líkt og nýkjörinn formaður hefur boðað.

föstudagur, maí 20, 2005

Bresku þingkosningarnar 2005.

Boðið til Englands.
Utanríkisráðuneytið breska bauð í liðinni viku 2.-6. maí fulltrúum erlendra ríkja í fyrstu skipulögðu heimsókn til að fylgjast með þingkosningunum þar í landi. Það var The Electoral Commission sem sá um allt skipulag heimsóknarinnar, það á meðal á fyrirlestrum, heimsóknum og viðtölum við lykilfólk í framkvæmd þingkosninganna.

Það var mér mikil ánægja að sendiráð Bretlands hér á Íslandi skyldi bjóða mér að vera þátttakandi og fá einstakt tækifæri til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Ég er ekki með öllu reynslulaus eftir að hafa verið á vettvangi í síðustu kosningum árið 2001, en þá gerði ég mér m.a. sérstakar ferðir til Brighton og Hove, til Hastings, ásamt yfirferð um Lundúnaborg. Ætli þetta flokkist ekki undir að vera haldinn aðdáun á breskri pólitík.

Það er eitthvað alveg einstakt við þingkosningar í Bretlandi, að t.d. kosið skuli í einmenningskjördæmum, eins eru fjölmiðlarnir með stórkostlega umfjöllun og leggst maður ósjálfrátt í allt að tveggja tíma lestur á dagblöðunum á hverjum degi auk þess að fylgjast með kvöldfréttatímum ITV og BBC. Það verður því að segjast að það er á engan hátt hægt að bera saman breska blaðamennsku saman við þá íslensku, enda er aðstöðumunur þeirra mikill.

Fyrirlestrarnir í utanríkisráðuneytinu.
Öllum þátttakendum var boðið að sitja dags námskeið í Locarno Suite í breska utanríkisráðuneytinu þar sem var farið yfir þá þætti sem ég tek fyrir sérstaklega hér að neðan. Þeir sem fluttu erindin voru: Mr. Sam Younger, Chairman, The Electoral Commission; Mr. Malcolm Rawlings, Department of Constitutional Affairs – Electoral Policy Division; Mr. John Bennett, Head of Assembly Support for London Assembly and Deputy Greater London Returning Officer; Mr. Peter Wardle, Chief Executive, The Electoral Commission; Ms. Kate Sullivan, Head of Electoral Administration, The Electoral, Commission; Mr. Nick Moon, Director, Social and Political – NOP World og Dr. Roger Mortimore, Senior Political Analyst, MORI Social Research Institute.

The Electoral Commission varð til með breyttum kosningalögum í nóvember árið 2000. Stjórnmálaflokkarnir hafa engin áhrif á nefndina. Ef upp kemst um tengsl starfsmanna nefndarinnar við einstaka flokk þá verður viðkomandi starfsmanni vikið frá, hlutleysi er skýlaus krafa. Formaðurinn greindi frá því að sonur hans sem væri 19 ára hafi spurt hann, hvað hann ætli sér að kjósa og að í þeim efnum hafi hann ákveðið að segja honum það ekki. Gæti lekið út, jafnvel frá fjölskyldu hans. Nefndin er tengd beint við þingið. Kosið verður um 646 sæti, sem er fækkun frá síðustu kosningum úr 659 sætum, munar mestu um fækkun sæta í Skotlandi úr 72 í 59, og flokkarnir sem bjóða fram eru um 350 í Bretlandi, en t.d. í Kanada þá eru þeir 11 til 12. Þetta er því í raun hrein martröð. Eru því líkur til að lagt verði til við breska þingið að heimilt verði að þrengja að framboði stjórnmálaflokka, enda mjög rúmar reglur í gildi um framboð stjórnmálaflokka. Í raun dugar að skila upplýsingum um stjórnmálaflokk í a.m.k. í 6 orðum, eða þá með lýsandi orði eins og „Independent“, auk uppáskrift 10 meðmælenda búsettra í kjördæminu.

Kosningarétt hafa þeir sem eru 18 ára og eldri, hafa breskan ríkisborgararétt, eða fullgildir borgarar breska Samveldisins, eða írskir ríkisborgarar búsettir í Bretlandi og hafa óskað eftir því að hafa kosningarétt. Þeir sem geta því ekki kosið eru þeir sem eru undir 18 ára aldri, þeir sem sitja í lávarðardeildinni, fangar (þeir smíða þó kjörklefanna sem notaðir eru) og borgarar sem ekki hafa skráð sig á kjörskrá. Breskir ríkisborgarar sem eru búsettir erlendis hafa heimild til að kjósa, að uppfylltum skilyrðum hér að ofan, í allt að 15 ár frá því þeir fluttu. Á kjörskrá fyrir þessar þingkosningarnar voru 44,28 milljón kjósenda, í samanburði við 44,55 milljón kjósenda í þingkosningunum 2001. Kjörskráin skiptist þannig að í Englandi voru kjósendur 37,04 milljón, í Skotlandi 3,86 milljón, í Wales 2,23 milljónir og á Norður Írlandi 1,15 milljónir kjósenda.

Frambjóðendur verða að vera 21 árs eða eldri. Þeir sem geta ekki boðið sig fram eru þeir sem sitja í lávarðardeildinni, gjaldþrota einstaklingar, starfsmenn konungsdæmisins, fangar og aðilar sem hafa verið uppvísir að kosningasvindli. Framboð verða að vera studd af 10 kjósendum í kjördæminu, það þarf að leggja fram £ 500 sem tryggingu, og fæst sú upphæð ekki endurgreidd fái framboðið minna en 5% heildaratkvæða.

Kjörstaðir á Englandi og Wales eru um 45.000 og eru þeir opnir frá kl. 7:00 til kl. 22:00. Það þarf að sjálfsögðu mikið af starfsfólki í kringum þessa vinnu og á vegum The Electoral Commission einnar eru þetta um 150 starfsmenn, eru þeir staðsettir í London, Edinborg, Cardiff og Belfast. En síðan skipa Returning Officers í hverju kjördæmi annað starfsfólk til að annast framkvæmdina. Þar sem kjörtímabilið í Bretlandi er 5 ár þá eru miklar líkur til að það sé nýtt starfsfólk í hverjum kosningum. The Electoral Commission hefur því talið mjög mikilvægt að setja reglur um ýmis framkvæmdaatriði, gefa út upplýsingabæklinga og að þjálfa starfsfólkið. Kostnaður við framkvæmd þingkosninganna núna, á Englandi og Wales, var áætlaður um £ 71 milljón, en árið 2001 voru það £ 51 milljón og árið 1997 voru það £ 46 milljónir.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur aukist mikið frá árinu 2001, en fyrir þann tíma voru hlutföll þeirra atkvæða um 2%. Frá 2001 hefur þeim fjölgað mikið, ekki síst vega þess að nú þarf ekki að skýra frá því hvers vegna fólk ætli að kjósa utankjörfundar. Í þingkosningunum 2001 þá eru þau 3,9%, voru 8,3% í Evrópusambandskosningunum árið 2004, og bjuggust menn við því að þau yrðu um 15% í kosningunum núna, eða um 6 milljónir atkvæða. Hlutfall utankjörfundaratkvæða getur verið frá um 3,5% til um 50% í einstaka kjördæmum. Þess ber að geta að hægt er að sækja um að kjósa utankjörfundar allt að 6 dögum fyrir kjördag.

Flokkarnir hafa lista yfir fólk sem ætlar að kjósa utankjörfundar, fólk hefur val um að senda atkvæði sitt til flokksins eða yfirvalda. Komi fólk á kjörstað og ætli sér að kjósa að sjálfsögðu, og að í ljós kemur að viðkomandi hafi óskað eftir því að fá sendan kjörseðil sinn heim, þá fær viðkomandi að kjósa með bleikum kjörseðli, sem er haldið til haga þar til að ljóst sé hverju það veldur að viðkomandi hafa verið skráður sem kjósandi utankjörfundar.

Kjörsóknin var með minnsta móti í síðustu kosningum, þ.e. árið 2001, eða um 59,4%. Í þingkosningum fram að árinu 1997 var kjörsókn frá 70 til 77% og var í þingkosningunum 1997 70,9%. Í sveitastjórnarkosningunum er kjörsóknin venjulega frá 30 til 40%. Í síðustu kosningum til Evrópuþingsins, eða árið 2004, var kjörsókn 38,2% og árið 1999 24,1%. The Electoral Commission leggur að sjálfsögðu áherslu á að fá fólk til að skrá sig til kosninganna. Í herferð þeirra var mikil áhersla lögð í að ná til ungra manna 18 til 24 ára. En kannanir sýna að sá aldurshópur hefur sýnt hvað mest skeytingaleysi gagnvart stjórnmálum. Reynt var að svara áleitnum spurningum, eins og um ástæður/tilgang þessa að kjósa og hverju þær í raun skipta einstaklinginn máli. En einmitt þar verður að segjast að sé lykillinn að því að gera stjórnmál áhugaverð, þ.e. með því að stilla þeim upp sem verkfæri til að koma persónulegum skoðunum á framfæri. Afrakstur þessarar herferðar var mældur eftir Evrópuþingskosningarnar 2004 og kom í ljós að 64% aðspurða höfðu séð herferðina, 1/3 hafði kosið vegna hennar, ¼ höfðu rætt um kosningarnar vegna þeirra og aðeins 15% hefðu ekkert aðhafst vegna herferðarinnar. Sett hafði verið upp vefsíða, frír upplýsingasími og auglýsingar á strætó. Í sjónvarpi hafi verið hvatt til að kjósa t.d. vegna umræðu um lokunartíma kráa kl. 23, og hreins lofts. Í útvarpsauglýsingunni hafði t.d. verið talað um bílastæði og leikvöllinn. Síðan var komið fyrir stöndum í verslunarkjörnum, allt í samræmdu útliti. Hringingar í frían síma jukust um 1.200 á hverjum degi og heimsóknir 5.000 til 10.000 fleiri á vefinn á hverjum degi. Uppskeran var jákvæðari umræða um stjórnmál almennt. Það fóru 4 milljónir punda í þetta verkefni árið 2004.

Fjármögnun kosningabaráttunnar er háð skilyrðum og veður t.d. að tilkynna öll fjárframlög sem eru hærri en £ 5.000 til stjórnmálaflokks og þau framlög sem eru hærri en £ 1.000 til flokksfélaga. Stjórnmálaflokkum er gert skylt að skýra vikulega frá þessum framlögum í kosningabaráttunni. Útgjöld eru háð skilyrðum, flokkar sem bjóða fram í öllum kjördæmum mega að hámarki eyða £ 19,38 milljónum eða £ 30.000 í hvert kjördæmi. Upplýsingum um útgjöld verður að skila í síðasta lagi ári eftir kosningar. Frambjóðendurnir mega eyða að grunni til £ 7.150 til kosningabaráttunnar, til viðbótar er heildarfjöldi kjósenda margfaldaður með stuðlinum 0,07 og þannig fæst sú heildarupphæð sem má eyða. Á landsvísu er ekkert hámark á því sem stjórnmálaflokkar mega eyða og er talið að það hafi verið um £ 21. milljón sem var kostað til í síðustu kosningum.

Skoðanakannanir hafa mjög sett svip sinn á umræðuna frá degi til dags í kosningabaráttunni. Í Bretlandi eru það um 7 til 9 aðilar sem sjá um framkvæmd þeirra og eru dagblöðin helstu viðskiptavinir fyrirtækjanna. Í raun eru slíkar kannanir þó aðeins 1% verkefna þeirra hjá MORI. Það fóru um £ 1,5 milljónir hjá stóru flokkunum í að gera kannanir í síðustu kosningum 2001. Það eru engar reglur til um þessa upplýsingaleit en algengast er að beitt sé fókus-hópum og hringingum í fólk. Fyrir síðustu kosningar kom fram 60% þjóðarinnar vildu banna kannanir fyrir kosningar, einnig vildu í raun 50% þjóðarinnar einnig banna umfjöllun almennt um kosningar. Við framkvæmd kannana er mikilvægt að spyrja réttu spurninganna, spyrja rétta hópinn og að fjölmiðlar túlki upplýsingar rétt. Ef eitthver þessara þátta misferst er könnunin ónýt.

Útgönguspár eru framkvæmdar af tveimur aðilum, fulltrúa stjórnmálaflokkana og aðilum frá BBC/ITV; þær eru framkvæmdar á 120 kjörstöðum og eru um 16.500 kjósendur í úrtakinu.

Bristol.
Öllum þátttakendum var skipt upp í hópa til að fylgjast með kosningunum á vettvangi í hinum ýmsu stöðum, s.s. Birmingham, Cambridge og Bristol, mér er ekki kunnugt um hvort að aðrir staðir voru einnig heimsóttir, en veit þetta fyrir víst eftir viðtöl við nokkra þátttakenda í ráðuneytinu. Undirritaður var í hópi með fulltrúum frá Svíþjóð, Slóvakíu, Rúmeníu og Suður-Afríku. Var þetta í alla staði sérlega skemmtileg, það voru 6 þingmenn í hópnum, sem var sérlega skemmtilegt og t.d. mjög gaman að fræðast um stjórnmálin í Suður Afríku.

Í Bristol gafst okkur m.a. tækifæri til að hitta Stuart Hook frá South Gloucester Council og fara yfir ýmsa þætti í framkvæmd kosninganna, en þá sérstaklega utankjörfundaratkvæðin, enda mesti veikleikin í framkvæmdinni almennt. Á kjördag fórum við á kjörstað í Kingwood Civic Centre og fylgdumst með framkvæmdinni. Síðar sama dag sóttum við heim ritstjórnarskrifstofur The Western Daily Press og voru upplýst um verkáætlun þeirra í umfjöllun um kosningarnar og eins hvernig þeir myndu haga vinnulagi sínu fyrir kosninganóttina og útgáfu blaðsins tvisvar þá nóttina. Kosningakvöldið vorum við viðstödd talningu atkvæða og verður að segjast að öll sú umgjörð hafi verið til fyrirmyndar, minnstu smáatriðin úthugsuð.

Veikir hlekkir í framkvæmd kosninganna.
Kosningakerfið Bretlandi á sér langa hefð, byggt á gagnkvæmu trausti og góðri trú á millum kjósenda og framkvæmdaaðila. Komið hafa fram veikleikar í framkvæmd með utankjörfundaratkvæðisseðla, en þeir eru sendir heim til þeirra kjósenda sem óska að kjósa utankjörfundar og það er á þeirra ábyrgð að skila þeim á réttan stað.

Mikið rætt um kosningasvindlið í Birmingham á fundinum í ráðuneytinu. En í síðustu sveitastjórnarkosningum, 2004, var fjöldi kosningabærra manna sagður með heimilisfesti í yfirgefnu pakkhúsi, utankjörfundarseðlar voru sendir á þetta heimilisfang og óprúttnir aðilar fylltu út seðlana og skiluð inn til kjörstjórnar. Þetta dæmi er auðvitað lýsandi fyrir það vandamál að ekki skuli vera til þjóðskrá í landinu, og að hægt væri að mynda kjörskrárstofn frá henni.

Eins kom fram í fjölmiðlum að 5 ára barn fékk sendan kjörseðil, í því tilviki hafa foreldrarnir lagt fram umsókn fyrir hönd þess, enda þarf aðeins að leggja fram nafn og heimilisfang. Það vinnst engin tími fyrir framkvæmdaraðila að sannreyna hvort að viðkomandi hafa kosningarétt áður en seðlar eru sendir út.

Það eru engin nafnskírteini í Bretlandi og því engin þjóðskrá. Umræðan um upptöku slíkrar þjóðskrár er mikið mannréttinda mál að mati Breta. Þó gefa þeir út heilbrigðiskort til allra landsmanna. Eins er það umhugsunarvert í allri þessari mannréttindaumræðu, að daglega nota landsmenn kredit- og debetkort og því raun stórkostleg upplýsingasöfnun í gangi daglega og engin spyr í raun hvernig þær upplýsingar eru meðhöndlaðar.

þriðjudagur, maí 17, 2005

PLANET MARZ — Örsaga.

Það var fyrir um 30 árum sem hugmyndin kom fyrst fram á félagsfundi Framfarafélagsins í Málvík. Hún þótti strax mjög góð, og að nauðsynlegt væri að grípa þetta stórkostlega tækifæri sem væntanleg samskipti við hin nýja heim myndu hafa í för með sér. Gagnrýnisraddirnar voru þó fljótar að láta í ljós álit sitt, fáar að vísu, en háværar og höfðu góðan aðgang að fjölmiðlum.

Framfarafélagið hélt þó ótrautt áfram sinni baráttu við að þróa hugmyndina og laugardaginn 17. apríl, árið 2004, samþykkti félagið að standa að stofnun og rekstri PLANET MARZ. Samþykkt tillögunar á sínum tíma fór eins og eldur um sinu um gjörvalla heimsbyggðina ekki síst vegna óvissunnar er var mikil ennþá um samskipti við nýja nágranna.

Í Málvík upphófst nýtt framfararskeið, bjartsýnin var mikil og strax á framkvæmdatímanaum varð PLANET MARZ stærsti vinnuveitandinn í bæjarfélaginu og máttarstólpi. Nágranarsveitarfélögum Málvíkur þótti í framhaldi af þessu mikilvægt og nauðsynlegt að sameinast Málvík, sem og varð til að styrkja og efla mótvægið við höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld voru að vísu að hvetja til sameiningar sveitarfélaga í landinu á þessum tíma, en í dag má fullyrða að framsýni og hugmyndaauðgi félagsmanna Framfarafélagsins hafi haft gríðarleg áhrif hér á.

PLANET MARZ var ætlað að vera hvíldar- og afþreyingarmiðstöð fyrir Marsbúa hér á jörðinni, þó enn væri óvíst að könnunarför jarðarbúa til Mars myndu á þessum tímapunkti skila árangri. Tekist hafði að senda myndir til jarðar, en mikil óvissa um hvort þar fyrirfyndist eitthvert líf. Mannað far hafði ekki enn verið sent til plánetunnar.

En framsýni og trú fólksins í Málvík á sjálfu sér hafði úrslitaárhrif og það nýti þau stórkostlegu tækifæri sem myndu gefast með væntanlegum samskiptum við hin nýja heim. Það voru ekki margir sem sáu fyrir sér að í Málvík myndu eðlis-og stjörnufræðingar eða flugumferðarstjórar verða bráðnauðsynlegir, en sú varð raunin. Málvík hefur verið til dagsins í dag komu- og brottfararmiðstöð Marsbúa til og frá jörðinni. Og margfeldisáhrifin af hvíldar- og afþreyingarmiðstöðinni skapað þúsundir starfa á öllum sviðum á þeim árum sem liðið hafa.

Allt of mörg vænleg tækifæri, höfðu tapast frá Málvík á árunum fyrir 2004 og félagsmönnum í Framfarafélaginu fannst því skylda og hlutverk sitt að taka af skarið. Sanna að til væri hópur fólks sem væri óhrætt að takast á við framtíðina og styrkja um leið byggðalagið. Þeir aðilar sem gagnrýndu hugmyndina strax í upphafi og reyndu að koma í veg fyrir hana, eru í dag löngu þagnaðir. Framfarafélagið í Málvík hóf á sínum tíma FRAMSÓKN til heilla fyrir jarðar- og marsbúa, sem stendur enn.

──────────

Höfundur: Apríl.