sunnudagur, apríl 25, 2004

Chevrolet Suburban bensínhákur og skipulag fjölskyldunnar.

„Fjölskyldan á hann. Ég á hann ekki,“ sagði John Kerry aðspurður hvort að samræmi væri í hugmyndum hans um að þarlendum reglum um hámarksbensíneyðslu fólksbíla verði breytt og kaup hans á nýjum Chevrolet Suburban bensínhák. Í dag undirgangast bílaframleiðendur í Bandaríkjunum undir þá reglu að framleiðslulína á fólksbílum megi að hámarki eyða 10.2 lítrum á hverja 100 km. Hugmyndir Kerrys ganga út á að þeir megi ekki eyða meira en 7.8 lítrum á 100 kílómetra árið 2015 og að gera Bandaríkin þannig síður háð erlendum eldsneytisbyrgjum. Því er spurt hvort það samræmist með einhverjum hætti hagsmuna allra, að John Kerry geti leyft sér að aka um á bensínhák, en að aðrir verði þá að kaupa sér mun kraftminni bíla til að halda meðaltalinu.

„Ég og mín fjölskylda,“ sagði Ragnar Reykás hér um árið og gerði um leið þennan frasa ódauðlegan. Í því ljósi er vert að skoða í fullri alvöru hvort að svar John Kerry hér að ofan eigi sér ekki einhverja stoð í kenningum um sjálft skipulag fjölskyldunnar. Er fjölskyldan ekki oft eitthvað sem Kerry þarf að minna sig á, ekki alveg samofin honum sjálfum. Þegar eiginkonan lítur svo á að sjálfsmynd hennar endurspegli í fjölskyldunni og á því mun erfiðra með að aðgreina sig frá henni. Sjálfsmat hennar er því oft bundið mati og viðurkenningu frá einhverjum nákomnum. Meðan Kerry er bundin sjálfsmati út frá sjálfstæði, tengslum við vinnumarkaðinn og fyrirvinnuhlutverkið, þ.e. viðurkenningu frá einhverjum útávið.

Samkvæmt þessu skal því í raun taka mark á þess svari Kerry og trúa því þá í fullri alvöru að bensínhákurinn sé ekki hans eign.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, hefur kynnt í ríkistjórn frumvarp um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Vegna endurskoðunar laga um friðun Þingvalla sem eru frá 1928 og stækkun þess landsvæðis var álitið nauðsynlegt að tryggja verndun vatnasviðs Þingvallavatns og vatnsins sjálfs, en þar er um að ræða stærstu grunnvatnsauðlind á Íslandi. Þar sem hér á landi hafa ekki enn verið sett almenn lög um verndun grunnvatns eða annars nytjavatns er farin sú leið að kveða á um verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess í sérstökum lögum. Það er ekki einsdæmi hér á landi, sbr. t.d. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, og um vernd Breiðafjarðar. Við setningu almennra laga um vatnsvernd væri kostur á að fella þær lagareglur sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir inn í almenn lög um vatnsvernd.

Lagt til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði og falli þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum. Frumvarpið var samið undir forsjá Þingvallanefndar og er með því og frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum leitast við að móta verndarstefnu á þessu svæði til frambúðar. Talið er að á Þingvalla- og Brúarársvæðinu ofan við Brúarfoss, sem alls er um 1.260 ferkílómetrar, sé um þriðjungur af öllu lindarvatni í byggð á Íslandi.

Sérstaklega er mælt fyrir um verndun á lífríki Þingvallavatns og að þess skuli gætt að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikju og urriðastofna sem nú lifa í vatninu, enda eina þekkta vatnið í heiminum þar sem finnast fjögur afbrigði af bleikju, á um 10 þúsund ára ferli og er það einsdæmi. Af því leiðir að vegna þeirrar sérstöku mengunar- og sjúkdómahættu sem stafar af fiskirækt og fiskeldi er lagt til að bannað verði að stunda slíka starfsemi í eða við Þingvallavatn. En með orðunum „við Þingvallavatn“ er miðað við að slík starfsemi taki vatn, hafi frárennsli eða hafi önnur líffræðileg tengsl við Þingvallavatn.

Gróður er mikill í Þingvallavatni og er 1/3 hluti botnsins þakinn gróðri og þótt vatnið sé kalt er magn þörunga mikið. Lággróður er nokkuð mikill úti á 10 m dýpi en kransþörungar (hágróður) verða mjög háir á 10–30 m dýpi og mynda stór gróðurbelti í vatninu sem hafa mikla þýðingu fyrir allt dýralíf, ekki síst fiskinn. Alls eru fundnar um 150 tegundir jurta á botni og sýnir það nokkuð fjölbreytni gróðursins. Um 50 tegundir dýra beita sér á þennan gróður, allt frá fjöruborði og út á mikið dýpi. Fæstum mun ljóst að 120 þús. dýr lifa á hverjum fermetra í fjöruborðinu en á 114 m dýpi lifa enn 5–10 þús. Dýr þessi mynda fæðu hinnar alþekktu og ljúffengu bleikju sem veiðist í Þingvallavatni. Mikilvæg fæða bleikjunnar er vatnabobbinn, en hann er þýðingarmikill hlekkur í fæðukeðju botnsins, líkt og segir í frumvarpinu.

mánudagur, apríl 19, 2004

Eru líkindi til að Kýpurdeilan sé að leysast?

Á laugardaginn er fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla á Kýpur um sameiningaráætlun Sameinuðu þjóðanna, en að henni hefur verið unnið í all nokkurn tíma eða frá árinu 2002. All margar tilraunir til sátta hafa verið reyndar, með misjöfnum árangri, og SÞ samþykkt fjölda ályktana um nauðsyn þessa að Kýpurdeilan verði leyst. Fullyrða má að tilnefning Bill Clinton, þáverandi forseta Bandaríkjanna, í ágúst 1996, á Richard Holbrooke sem sérstökum sendifulltrúa Bandaríkjanna á Kýpur, hafi vakið upp vonir um að markmið um sameiningu landsins tækis. Holbrooke hafði þá áður gengt lykilhlutverki við að binda enda á stríðinu í fyrrum Júgóslavíu með Dayton-samkomulaginu, og fengið mikið lof fyrir.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, hefur nú ákveðið að þessar kosningar fari fram, þó svo að ekki hafi tekist að semja um öll ágreiningsefni á tilsettum tíma. En gífurleg pressa hefur verið á deiluaðilum um að ná niðurstöðu áður en að inngöngu Kýpur-Grikkja verður í Evrópusambandið 1. maí. Forsetar beggja hluta Kýpur hafa lýst yfir andstöðu við sameiningaráætlunina, og hefur Annan sagt að framtíðin sé því nú í höndum fólksins sjálfs.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Breiðari tekjustofn Fiskiræktarsjóðs gæti skilað aukalega 11 milljón kr. tekjum árlega.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, mælti í dag á Alþingi, fyrir um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, sem kveða á um að færa ákvæði um stjórnsýslu Fiskiræktarsjóðsins í nútímalegt horf. Ætlunin er að stuðla að skilvirkari innheimtu gjalda í sjóðinn, jafnframt að kveða á um að setja skýrari ákvæði um gjaldstofna þeirra gjalda sem renna í sjóðinn, ekki síst til að tryggja betra samræmi í stjórnsýsluframkvæmd og jafnrétti gjaldenda.

Nefnd á forræði landbúnaðarráðherra skipuð, árið 2001, þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Páli Hreinssyni, lagaprófessor í Háskóla Íslands, og Ingimar Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, er ætlað að semja nýtt frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Það er niðurstaða nefndarinnar að aðkallandi sé að breyta ákvæðum núgildandi laga um Fiskræktarsjóð sem fyrst og er það mat nefndarinnar að ekki ástæðu til að bíða með þær breytingar þar til heildarendurskoðun gildandi laga hefur farið fram.

Meginmarkmið Fiskiræktarsjóðs frá upphafi, árið 1970, hafa verið að efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum. Ísland er í dag eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum. Nágrannar okkar verja nú miklu fé til viðhalds laxastofna og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Er það mat nefndarinnar að fullyrða megi að mikilvægi Fiskræktarsjóðs hafi aukist eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins hafa orðið meiri og því afar þýðingarmikið að lagaumgjörð um starfsemi sjóðsins sé nútímaleg og stuðli að skilvirkri starfsemi hans.

Tekjustofnar Fiskræktarsjóðs hafa frá upphafi verið 2% gjald af hreinum leigutekjum af veiði og 3‰ gjald af vergum tekjum af sölu á raforku. Í upphafi var þar um að ræða sölu á orku til almennings en frá 1998 var hins vegar gerð sú breyting að einnig skyldi greitt sama gjald af sérsamningum til nýrra stórnotenda.

Hér er um gríðarlegt hagsmunamál fyrir veiðimenn, enda verður það hlutverk sjóðsins að efla fiskrækt í ám og vötnum og bæta veiðiaðstöðu með því að veita lán eða styrki til verkefna sem að því stuðla.

Núverandi greiðendur í sjóðinn eru veiðifélög og jarðeigendur sem selja veiðileyfi. Þeirra framlag í sjóðinn nam 16,6 m.kr. árið 2002. Einnig greiða í sjóðinn vinnslufyrirtæki sem selja raforku framleidda með vatnsorku til almenningsveitna og nýrra stórnotenda eftir árið 1998. Þessi fyrirtæki eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða og RARIK. Alls nam sú greiðsla 8 m.kr. árið 2002. Í frumvarpinu er lagt til að greitt verði af allri raforkusölu til almennings og stórnotenda. Gert er ráð fyrir að breiðari tekjustofn geti skilað sjóðnum aukalega 11 m.kr. tekjum árlega en þó ekki fyrr en samningar sem voru gerðir fyrir 1998 renna út eða þeim er sagt upp.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

„Hin málefnalega niðurstaða,“ jafnréttislögum ríkari.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir, í Morgunblaðinu í morgun, jafnréttislög barn síns tíma. „Óeðlilegt sé að þeir sem nú hafa veitingarvaldið séu bundnir af því að ráða konur frekar en karla, af því að forverar þeirra hafi ekki gert það, en kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur, í stöðu hæstaréttardómara. Í áliti nefndarinnar er bent á að tveir dómarar af níu við Hæstarétt séu konur.

Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fært fyrir því rök gagnvart kærunefndinni að málið félli ekki undir hana, „vegna þess að það var ekki um neina kynferðislega mismunun að ræða í mínum athöfnum þegar ég veitti þetta starf.“

Björn minnir á að í umsögn sinni um umsækjendurna átta hafi Hæstiréttur talið þá alla hæfa en síðan talið tvo karla heppilegasta úr hópnum fyrir réttinn að þessu sinni. „Ef Hæstiréttur hefði talið jafnréttislög gera óhjákvæmilegt að kona yrði valin, hlyti rétturinn að hafa vakið máls á því í umsögn sinni,“ segir Björn. Hann segir þá röksemdafærslu kærunefndarinnar að ráða hefði átt konu í stað karls til réttarins ekki haldbæra. „Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. Sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála mátti sæta því að kærunefndin sagði hana brjóta jafnréttislög en niðurstaða fimm dómara Hæstaréttar í því máli var að kærunefndin hefði ekki komist að réttri niðurstöðu.““

Birni Bjarnasyni þótti það ómálefnalegt af fréttamönnum að telja frændsemi Ólafs við Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafa haft einhver áhrif við skipan hans í Hæstarétt. Það hefðu jú verið sérþekking Ólafs Barkar á Evrópurétti sem hafi haft úrslitaárif. Þetta hafði því verið málefnaleg niðurstaða og því hafin yfir alla gagnrýni. Ráðherra er enn óhagganlegur í þeirri skoðun sinni að „sérþekking í Evrópurétti“ sé grundvallaratriði málsins við skipan dómarans. Lögum um að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla, og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, er sem sé tímaskekkja. Í lögunum segir: til að ná fram þessu markmiði skal a) gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins, b) vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu, c) gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, d) bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu, e) efla fræðslu um jafnréttismál, f) greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni og g) efla rannsóknir í kynjafræðum.
Það hlýtur að verða að spyrja slíkan áhrifamann í íslensku samfélaginu grundvallarspurninga eins og:

- Er það vilji stjórnvalda að gæta að jafnrétti kynjanna?
- Á enn að hjakka í þeim pytti að ekki sé hugað nægilega að jafnréttissjónarmiðum og í raun ekki, sbr. dæmið hér að ofan?
- Kynjahlutföll æðstu embættismanna ríkisins eru ójöfn, er það tímaskekkja að laga það hlutfall?
- Eru viðbrögð dómsmálaráðherra líkleg til að hvetja konur til að sækja um störf er hann veitir?

Pólitískur vilji dómsmálaráðherra til að jafna hlutföll kynjanna er ekki sýnilegur og er maðurinn í raun að dæma alla jafnréttisbaráttu í áratugi með öllu óeðlilega. Kalt mat er að öllum tilraunum til jafnréttis skal HÆTT NÚ ÞEGAR, eða að Árni Magnússon, ráðherra jafnréttismála, standi nú upp og mótmæli viðbrögðum dómsmálaráðherrans.

mánudagur, apríl 05, 2004

Mun Ralph Nader geta hafa úrslitaáhrif líkt og í síðustu forsetakosningum.

Athygli vekur könnun sem var framkvæmd í Pennsylvaníu á dögunum er sýnir greinilega að framboð Ralph Neders getur haft jafnmikil áhrif á niðurstöðuna líkt og í síðustu kosningum. Í könnun í febrúar var Johan Kerry með 47%, George Bush með 46% og óákveðnir voru 8%. En í könnun í mars hafði Kerry fallið niður í 40%, Bush áfram í 46%, og Nader með 3%, er óákveðnum hafði fjölgað í 12%.

Þess ber að geta að sá er sigrar í Pennsylvaníu hefur orðið sigurvegari forsetakosninganna frá 1952, með einni undantekningu eða í síðustu kosningum árið 2000, er Al Gore vann. Líkt og frægt varð eftir kosningarnar 2000 þá skipti niðurstaðan í Flórídaríki gríðarlegu máli, enda 25 kjörræðismenn kosnir þar og því þungt lóð á vogarskálarnar. Það var að vísu mjög knappur meirihluti atkvæða er George Bush hlaut þar, eða 537 atkvæði umfram Gore, á meðan Neder fékk um 97.500 atkvæði. Þessi staðreynd reyndist hafa úrslitaáhrif.

Á milli kannana (febrúar/mars) hefur John Kerry hreinsað upp forkosningarnar hjá demókrötum, Bush hafið sína kosningabaráttu fyrir endurkjöri og Richard Clarke fyrrum ráðgjafi Bush, gefið út bók sem hlotið hefur alheimsathygli. En óvíst er að þessir hlutir hafi úrslitaáhrif, heldur hitt hversu ólíkt kjósendur forgangsraða málefnunum. En stuðningsmenn Bush eru líklegir til að setja hriðjuverkaógn og öryggi heima fyrir, framfyrir efnahagsmál, er kjósendur Kerry eru líklegir til að setja efnahagsmálin í forgang.

Líkt og niðurstaðan í Flórída sýndi og þessi könnun í Pennsylvaníu sýnir þá mun framboð Ralph Neders geta haft úrslitaáhrif, enda er kosningakerfið í Bandaríkjunum þannig úr garði gert, að frambjóðandi sem fær 48,41% atkvæða á landsvísu tapi, er sitjandi forseti fékk aðeins 47,89% (hafi gerst síðast 1888), enda verið að kjósa kjörmenn frá hverju fylki til að velja nýjan forseta. Forseta- og varaforsetaembættið eru einu opinberu embættin í Bandaríkjunum sem eru ekki kjörin í beinni kosningu af fólkinu, heldur af ráði 538 kjörmanna og þarf því 270 sæta meirihluta í kjörmannaráðinu.

Hefðin í Bandríkjunum býður ekki upp á að þriðjiflokkurinn eða að sjálfstæðir frambjóðendur, nái neinum sérstökum árangri, enda hafa ekki nema 5 aðilar í sögunni náð að skríða yfir 10% atkvæðamagn, síðast Ross Perot árin 1992 og 1996. Einn fyrrum forseti hefur lagt í að bjóða sig fram undir merkjum þriðjaflokksins, en það var árið 1912, er Theodore Rosevelt bauð sig fram. Þó svo að baráttan sé vonlaus frá upphafi hefur sjálfstæðum frambjóðendum oft tekist að koma að sínum heitustu baráttumálum, líkt og er Nader setti neytendavernd á oddinn árið 2000.

En sú spurning hrópar á alla hvort að sagan muni eiga sér hliðstæður árið 2004, líkt og árin 2000, 1888 og 1876.