miðvikudagur, apríl 07, 2004

„Hin málefnalega niðurstaða,“ jafnréttislögum ríkari.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir, í Morgunblaðinu í morgun, jafnréttislög barn síns tíma. „Óeðlilegt sé að þeir sem nú hafa veitingarvaldið séu bundnir af því að ráða konur frekar en karla, af því að forverar þeirra hafi ekki gert það, en kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur, í stöðu hæstaréttardómara. Í áliti nefndarinnar er bent á að tveir dómarar af níu við Hæstarétt séu konur.

Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fært fyrir því rök gagnvart kærunefndinni að málið félli ekki undir hana, „vegna þess að það var ekki um neina kynferðislega mismunun að ræða í mínum athöfnum þegar ég veitti þetta starf.“

Björn minnir á að í umsögn sinni um umsækjendurna átta hafi Hæstiréttur talið þá alla hæfa en síðan talið tvo karla heppilegasta úr hópnum fyrir réttinn að þessu sinni. „Ef Hæstiréttur hefði talið jafnréttislög gera óhjákvæmilegt að kona yrði valin, hlyti rétturinn að hafa vakið máls á því í umsögn sinni,“ segir Björn. Hann segir þá röksemdafærslu kærunefndarinnar að ráða hefði átt konu í stað karls til réttarins ekki haldbæra. „Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. Sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála mátti sæta því að kærunefndin sagði hana brjóta jafnréttislög en niðurstaða fimm dómara Hæstaréttar í því máli var að kærunefndin hefði ekki komist að réttri niðurstöðu.““

Birni Bjarnasyni þótti það ómálefnalegt af fréttamönnum að telja frændsemi Ólafs við Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafa haft einhver áhrif við skipan hans í Hæstarétt. Það hefðu jú verið sérþekking Ólafs Barkar á Evrópurétti sem hafi haft úrslitaárif. Þetta hafði því verið málefnaleg niðurstaða og því hafin yfir alla gagnrýni. Ráðherra er enn óhagganlegur í þeirri skoðun sinni að „sérþekking í Evrópurétti“ sé grundvallaratriði málsins við skipan dómarans. Lögum um að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla, og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, er sem sé tímaskekkja. Í lögunum segir: til að ná fram þessu markmiði skal a) gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins, b) vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu, c) gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, d) bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu, e) efla fræðslu um jafnréttismál, f) greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni og g) efla rannsóknir í kynjafræðum.
Það hlýtur að verða að spyrja slíkan áhrifamann í íslensku samfélaginu grundvallarspurninga eins og:

- Er það vilji stjórnvalda að gæta að jafnrétti kynjanna?
- Á enn að hjakka í þeim pytti að ekki sé hugað nægilega að jafnréttissjónarmiðum og í raun ekki, sbr. dæmið hér að ofan?
- Kynjahlutföll æðstu embættismanna ríkisins eru ójöfn, er það tímaskekkja að laga það hlutfall?
- Eru viðbrögð dómsmálaráðherra líkleg til að hvetja konur til að sækja um störf er hann veitir?

Pólitískur vilji dómsmálaráðherra til að jafna hlutföll kynjanna er ekki sýnilegur og er maðurinn í raun að dæma alla jafnréttisbaráttu í áratugi með öllu óeðlilega. Kalt mat er að öllum tilraunum til jafnréttis skal HÆTT NÚ ÞEGAR, eða að Árni Magnússon, ráðherra jafnréttismála, standi nú upp og mótmæli viðbrögðum dómsmálaráðherrans.

Engin ummæli: