miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Skattar.

Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2004 var 229.665 og hafði þeim fjölgað um 1,4% frá fyrra ári. Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 129,2 milljörðum króna og hækkar um 6,3% frá fyrra ári.

Tekjuskattar til ríkissjóðs, þ.e. almennur tekjuskattur, sérstakur tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur, nema alls 66,2 milljörðum króna og hækka um 7,5% milli ára.

Almennan tekjuskatt greiða 65% framteljenda, eða liðlega 148 þúsund einstaklingar og fjölgaði þeim um 3,8% milli ára. Þeir greiða samtals 58,4 milljarða í almennan tekjuskatt og hefur skattgreiðsla á hvern gjaldanda vaxið um 1,9% milli ára. Meðalskatthlutfall er 12% að teknu tilliti til persónuafsláttar og er nær óbreytt milli ára.

Sérstakan tekjuskatt (hátekjuskatt) greiða 14.896 gjaldendur. Álagður sérstakur tekjuskattur nemur samtals 1.358 m. kr. samanborið við 1.773 m.kr. árið 2003. Um er að ræða lækkun milli ára enda var skatturinn lækkaður úr 7% í 5% af tekjum umfram viðmiðunarmörk.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 6,4 milljörðum króna og hækkar um meira en 40% milli ára. Skýringa þessarar hækkunar er að leita í auknum arðgreiðslum og söluhagnaði hlutabréfa, meðal annars af erlendum hlutabréfum, en skattskyldur arður af þeim nær tvöfaldast milli ára. Þá fjölgar gjaldendum hans á ný, eða um liðlega 3% og eru þeir nú nær 77 þúsund.

Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 63 milljörðum króna og hækkar um 5,1% milli ára. Gjaldendur útsvars eru 221.814, eða nær 97% allra á grunnskrá framteljenda. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 3,4% milli ára. Meðalútsvar á tekjur síðasta árs nemur 13%.

Gjaldstofn tekjuskatts og útsvars nam 483,3 milljörðum króna og hafði vaxið um 4,8% frá fyrra ári. Framteljendum með tekjur fjölgaði um 1,3% milli ára og því hækkaði gjaldstofninn að meðaltali um 3,5% á mann. Til samanburðar hækkaði launavísitalan um 5,6% milli 2002 og 2003. Skýringa á því að framtaldar tekjur á framteljanda hækka minna en launavísitala er m.a. að leita í styttri vinnutíma, minni atvinnuþátttöku en jafnframt meira atvinnuleysi en var árið áður.

Framteljendum sem skattyfirvöld þurfa að áætla tekjur á fækkar um 13% milli ára. Enn þarf þó að áætla tekjur rúmlega 10 þúsund framteljenda.

Framtaldar eignir heimilanna námu 1.669 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 11,6% frá fyrra ári. Fasteignir eru 70% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 13,3% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 2,7%. Þeim sem telja fram skuldir vegna íbúðarkaupa fjölgaði enn meira eða um 3,6%. Skuldir heimilanna námu alls 656,8 milljörðum króna í árslok 2003 og höfðu þær vaxið um 12% frá fyrra ári. Skuldir vegna íbúðarkaupa nema ? af heildarskuldum. Álagður eignarskattur nemur 2,2 milljörðum króna og hækkar um 20% milli ára, en þá hækkun má einkum rekja til hækkandi fasteignaverðs. Gjaldendum eignarskatts fjölgar um 6,6%.

Barnabætur nema 5,1 milljarði króna og aukast um 2,6% milli ára. Þeim sem þeirra njóta fjölgar um 0,5%. Vaxtabætur nema 5,2 milljörðum og lækka um 3,7%. Vaxtabætur voru lækkaðar um 10% milli ára en framteljendum sem þeirra njóta fjölgar um 3,1% og eru þeir nær 58 þúsund. Af úthlutuðum vaxta- og barnabótum koma um 5 milljarðar til útborgunar nú um mánaðarmótin eftir skuldajöfnum á móti ógreiddum sköttum. Til viðbótar verður greidd út ofgreidd staðgreiðsla af tekjum síðasta árs, samtals 2,4 milljarðar króna. (Heimild: Fjármálaráðuneytið.)

Engin ummæli: