fimmtudagur, september 10, 2009

Japanar vildu kaupa banka og byggja gufuaflsver

Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, minnist þess að hafa átt fund með auðugum Japönum seint í desember síðastliðnum en þeir vildu kaupa hér banka og byggja gufuaflsver.


Málið var óafgreitt við stjórnarskiptin í byrjun febrúar og virðist hafa dagað uppi. Steingrímur J. Sigfússon, kannast ekki við erindið en er nú að afla sér upplýsinga um það.


Japanarnir sem um ræðir eru fremstir á heimsvísu í framleiðslu vélbúnaðar fyrir jarðvarmaorkuver. Fram kom í fréttum Sjónvarps í gær að þeir komu til landsins í nóvember á síðasta ári ásamt bandarískum félögum sínum og vildu kaupa af banka sem var hruninn, endurfjármagna hann og reisa gufuaflsver hér á landi í framhaldinu. Nöfn þessara manna fást ekki gefin upp. Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur sem aðstoðaði mennina hér á landi, segist hafa farið með þá á fund þáverandi fjármálaráðherra og þeir hafi lagt fram bréf um erindi sitt en engar undirtektir fengið ennþá 9 mánuðum seinna. Japanar séu kurteisasta þjóð í heimi og kunni illa því sinnuleysi sem þeim hafi verið sýnt. Árni Mathiesen var fjármálaráðherra á þessum tíma.


Hann sagðist í samtali við fréttastofu minnast þess að hafa átt fund með þessum mönum undir lok desembermánaðar og þeir lýst miklum áhuga eins og Ragnar talar um. Árni bendir á að það er ákveðið ferli sem fer í gang þegar ríkið selur sínar eignir og á þessum tíma var óljóst hvort Japanarnir væru áhugasamir um að fara út í slíkt ferli. Það flækti svo málið að eftir áramótin áttu formenn beggja stjórnarflokkanna við erfið veikindi að stríða. Þegar stjórnarskipti urðu í landinu í febrúar var enn verið að meta hvernig nálgast skyldi málið. Það var þar af leiðandi óafgreitt þegar ríkisstjórnarskiptin urðu.


Steingrímur J. Sigfússon, sagðist í gær ekki kannast við málið þegar fréttastofa hafði samband við hann. Það hafi mögulega dottið milli skips og bryggju í ráðuneytinu þar sem bæði hafi verið skipt um ráðherra og ráðuneytisstjóra frá því að fyrirspurnin var fyrst lögð fram.


Ragnar Önundarson segir beiðni Japanana hafa verið ítrekaða nokkrum sinnum en Steingrímur virðist ekki hafa fengið slíka ítrekun eða upplýsingar um málið beint til sín.


Í fjármálaráðuneytinu fengust í dag þær upplýsingar að verið sé að kanna málið og að fjármálaráðherra vilji gjarnan svara erindi mannanna þegar hann hafi kynnt sér það.

Engin ummæli: